Ókei, matseðill dagsins var nú ekki mikið vandamál, ekkert sem þurfti að breyta út frá honum. Föstudagsmaturinn hennar Helgu Sig. í október 1935 var svona (nei, engin pítsa):
Brauðsúpa með þeyttum rjóma
Kartöflukaka
Brauðsúpa er nú bara brauðsúpa. Og hún var eftirmatur hjá mér, hvað sem líður röðinni hjá Helgu. Það fylgdi uppskrift að kartöfluköku en kannski full-plein fyrir minn smekk: soðnar kartöflur, skornar í þunnar sneiðar. Smjör og tólg brætt í potti, kartöflusneiðum raðað ofan á, kryddað með pipar og salti, lok sett yfir og steikt þar til ,,kartöflurnar eru fastar saman og myndast hefur kaka“. Ég hef gert svona (nema sleppti tólginni) og það var svosem í lagi en fullrýr aðalréttur, fannst mér. Svo að ég skoðaði nokkrar aðrar uppskriftir frá svipuðum tíma og fann uppskrift sem mér leist betur á að styðjast, við, það var kartöflueggjakaka og sagt að í hana mætti nota kjöt- eða pylsuafganga, flesk og fleira. Og ég átti einmitt beikon …
Ég var ein í mat en eldaði samt skammt fyrir tvo, þarf hvort eð er að eiga eitthvað í hádegismatinn á morgun. Byrjaði á að taka fjórar vænar rauðar kartöflur sem ég hafði keypt (460 grömm, 90 krónur) og skar þær í tvennt til að flýta fyrir suðunni af því að þær voru það stórar. Setti þær í pott og sauð þær þar til þær voru rétt meyrar. Hitaði svo ofninn í 225°C.
Svo tók ég beikonið sem til var – 140 g af þykkt skornu – og steikti það á pönnu þar til það var stökkt. Tók það þá af, setti á eldhúspappír og lét kólna aðeins.
Þegar kartöflurnar voru rétt soðnar hellti ég vatninu af þeim og lét þær þorna 1-2 mínútur og skar helmingana svo í svona 1/2 cm þykkar sneiðar. Ég var líka með 1 vænan vorlauk og dálítið af basilíku sem ég saxaði gróft.
Tók litla, þykkbotna pönnu sem má fara í ofn (eða þetta er reyndar lok af steypujárnspotti), kveikti undir og bræddi 40 g af smjöri eða svo. Setti kartöflurnar á pönnuna ásamt söxuðum vorlauk, kryddaði með slatta af pipar og svolitlu salti – en ekki miklu, því beikonið er salt- og steikti við meðalhita í nokkrar mínútur, eða þar til kartöflurnar voru farnar að brúnast. Hrærði oft í á meðan.
Á meðan skar ég beikonið í bita og hrærði saman 2 egg og 4 msk af mjólk í lítilli skál. Setti svo beikonið og söxuðu basilíkuna á pönnuna og hrærði saman við, hellti eggjablöndunni yfir og hrærði aftur. Lét stífna í svona 1 mínútu og setti þetta svo í ofninn í 6-7 mínútur.
Bar þetta fram á pönnunni og skreytti með ögn af basilíku (basilíka í potti sem ég fékk í Bónus á 359 krónur og ætti að duga mér í nokkra rétti).
Svo hafði ég með þessu salatblöð úr sama salatboxinu og ég er búin að vera að nota síðustu daga og það er eftir nóg á morgun líka. Ókei, það fer samt að koma að því að ég vilji tilbreytingu … En þetta var alveg ágætt bara.
Kostnaður? Kartöflur 80 krónur, beikonið um 200, vorlaukur 25 krónur, basilíka sirka 90 krónur (notaði svona fjórðung af plöntunni), egg, mjólk og smjör 120 krónur, salat 100 krónur. Er ég að gleyma einhverju? Ef ekki, þá eru þetta 535 krónur. Og þetta hefði dugað fyrir tvo (það eru 2/3 eftir af kartöflueggjakökunni) svo að fyrir einn er það 280 krónur. En þá er brauðsúpan eftir (henni var samt eiginlega ofaukið þótt mér þyki brauðsúpa ágæt, en ég hafði jú einsett mér að fara eftir matseðlinum).
Varla hægt að tala um uppskrift – tæplega hálfur rúgbrauðskubbur (nota afganginn á morgun) skorinn í bita, vatn svo flaut yfir, látið sjóða nokkrar mínútur, stappað með kartöflupressu, 2-3 msk af rúsínum út í, 1 msk af rabararasultu (má sleppa en mér finnst gott að hafa hana), ögn af sítrónusafa, látið. malla rólega í 8-10 mínútur, borið fram með þeyttum rjóma (hálfri 250 ml fernu, nota afganginn á sunnudaginn). Borið fram á diski merktum Kaupfélagi Skagfirðinga, mér fannst það eitthvað svo viðeigandi.
Kostnaður við súpuna: 100 krónur fyrir rúgbrauð, 120 fyrir rjóma, segjum 20 krónur fyrir hitt, eða 240 krónur. Brauðsúpan var líka tveggja manna skammtur, það eru 120 krónur, svo að matarkostnaðurinn í dag var 400 krónur. (Hádegismaturinn var afgangur frá í gær.) Það er nú ágætt, með sama áframhaldi get ég leyft mér heilmikið bruðl í sunnudagsmatnum