Hjartað mitt

Áfram með vikumatseðilinn hennar Helgu frá 1935. Ég sagði samt í gær að ég mundi gera tvær breytingar og sú fyrri kemur núna. Helga var nefnilega með lifraruppskrift á sínum seðli á fimmtudeginum. Ég var með lifur hér í fyrradag og þótt ég sé hrifin af lifur er það kannski einum of. Þess vegna ákvað ég að sleppa lifrinni en hafa lambahjörtu í matinn, það er næsti bær. Eða hjarta, því ég var ein í mat.

Aðalrétturinn á gamla seðlinum er semsagt steikt lifur með steiktu fleski og kartöflum og þótt ég ætli ekki, eins og ég sagði, að fara eftir 80 ára gömlum uppskriftum þótt ég eigi þær til ætla ég að reyna að halda mig við það sem stendur á matseðlinum en túlka það stundum frjálslega. Stundum að vísu með hliðsjón af þeim uppskriftum sem Helga hefur verið með í huga (sumar birtast í þessum þætti hennar í Mogganum, aðrar í matreiðslubókum hennar) og þannig var til dæmis með uppskriftirnar í gær. En annað verður þannig að Helga hefði ekkert kannast við það (og sennilega fussað og sveiað) en þó í samræmi við það sem hún segir á vikumatseðlinum …

Ég er til dæmis alveg viss um að Helga hefði ekki kannast við meðferð mína á hjartanu. Það var samt með beikoni og kartöflum eins og hún segir.

Þegar ég elda hjarta á þennan hátt er það gjarna sterkkryddað, með chili og engifer og dálítið‘ austurlenskt. En mér fannst það ekki passa nógu vel við beikonið og kartöflurnar svo að ég fór aðeins aðra leið núna.

Matseðill fimmtudagsins á seðli Helgu er sem sagt:

Grænmetissúpa

Steikt lambalifur (sem ég breytti í hjarta) með steiktu fleski og kartöflum

Í gær hafði ég eplasúpuna sem eftirrétt þótt hún væri talin á undan. En grænmetissúpuna sem ég gerði í dag borðaði ég á undan hjartanu. Það hefði þó ekki verið gert á mínu bernskuheimili. Þar var það sem borðað var með skeið nær ófrávíkjanlega eftirréttur, alveg sama þótt það væri ósætt með öllu. Einu undantekningarnar sem ég man eftir voru kjötsúpa og baunasúpa, sem borðaðar voru með kjötinu. Jú, og grjónagrautur var stundum borðaður með kjöti (saltkjöti) líka.

En semsagt, fyrst grænmetissúpan. Og ég biðst aftur afsökunar á myndgæðunum.

_MG_2576

Það kannski tekur því ekki að elda grænmetissúpu fyrir einn en það er samt minnsta mál í heimi ef maður á eitthvað af grænmeti til. Ég skar smátt eina gulrót, einn sellerístöngul, hvíta hlutann af tveimur vorlaukum (notaði græna hlutann í aðalréttinn) og stöngulinn af dálitlum spergilkálskvisti (hitt fór í aðalréttinn). Setti þetta í pott með 1/2 l af vatni og hitaði að suðu.

_MG_2578

Bætti út í þetta nokkrum timjangreinum sem ég átti til (ég á oftast til timjan og það geymist þokkalega), 1 tsk af grænmetiskrafti, pipar og salti. Lét þetta malla rólega í svona 10-15 mínútur, eða þar til grænnmetið var meyrt.

_MG_2604

Flóknara var það nú ekki og þetta var kraftmikil og góð, tær grænmetissúpa. Kostnaðurinn? Ekki alveg viss því þetta var allt eitthvað sem ég átti en ég held að 150 krónur séu ekki fjarri lagi. Og skammturinn hefði alveg dugað fyrir tvo.

Svo var það hjartað.

Ég þekki fólk sem eldar aldrei hjörtu af því að það tekur svo langan tíma. En sannleikurinn er sá að hjarta er eitthvað það fljóteldaðasta sem til er. Eða getur verið það. Það er svona ,,all or nothing“-hráefni. Eins og smokkfiskur, til dæmis. Annaðhvort eldar maður það örsnöggt eða í klukkutíma eða svo. Reyndar var ég að skoða vefsíðu áðan þar sem fullyrt var að lambahjörtu þyrfti að elda í að minnsta kosti fjóra klukkutíma.
_MG_2582

Ég var með eitt hjarta. Það var alveg heil 200 grömm og kostaði 80 krónur. Ég byrjaði á að snyrta það, skar burt fituna (hún getur verið góð en ekki þegar það er matreitt svona, finnst mér) og skar svo æðarnar frá. Skar hjartað svo í tvennt og hvorn helming í þrjá geira.
_MG_2584

Svo skar ég hvern geira í þunnar sneiðar þvert yfir. 4-5 mm, alls ekki meira. Setti hjartað til hliðar._MG_2592

Svo tíndi ég til annað sem ég ætlaði að nota í réttinn (eða ég var reyndar búin að setja upp fáeinar litlar, nýjar kartöflur – sauð þær reyndar í súpunni til að spara mér pott og þess vegna sést í hálfa kartöflu á súpumyndinni, hún átti ekki að vera þar) og skar það frekar smátt. Helga hafði flesk og kartöflur með lifrinni svo að ég náði í 5-6 beikonsneiðar. Svo er þarna hálfur lítill hnúðkálshaus, skorinn í mjóa stafi, nokkrir spergilkálskvistir, fjórðungur úr papriku og grænu blöðin af vorlauknum sem fór í súpuna.

_MG_2593

Ég tók wokpönnuna mína (hægt að nota góða steikarpönnu líka en hún þarf að þola töluverðan hita) og hitaði hana þar til var farið að rjúka af henni. Á meðan blandaði ég saman svona 1 tsk af reyktu paprikudufti (má vera venjulegt), 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salti. Hitaði svona 2 msk af olíu (ég notaði jarðhnetuolíu) á wokpönnunni, setti hjartað og beikonið á hana, stráði kryddinu yfir og steikti við hæsta hita í 1 1/2 mínútu. Ekki lengur. Hrærði nær stöðugt á meðan.

_MG_2599

Ég tók hjartað og beikonið af pönnunni með gataspaða og setti á eldhúspappír. Lækkaði hitann dálítið og setti allt niðurskorna grænmetið á pönnuna, ásamt 1 hvítlauksgeira (og soðnu kartöflunum, skornum í tvennt). Steikti þetta í nokkrar mínútur, þar til allt var meyrt, og hrærði oft í á meðan. Kryddið sem ég hafði sett út á hjörtun og varð eftir í olíunni dugði fyrir mig en það má auðvitað krydda meira ef þörf ér á. Þegar þetta var tilbúið hækkaði ég hitann aftur, setti hjartað og beikonið aftur á pönnuna og steikti í hálfa mínútu eða svo – rétt til að hita í gegn.

_MG_2612

Bar þetta svo fram með salatblöðum. Nei, ég held nú að Helga hefði ekkert kannast við þetta …

En semsagt, 80 krónur fyrir hjartað, segjum annað eins fyrir beikonið, 50 eða svo fyrir kartöflurnar, 200 fyrir hitt grænmetið, kryddið og annað, 50 fyrir salatblöðin … Það gerir 380 krónur. Og nægur afgangur í hádegisnestið á morgun. Plús súpan 150 krónur, samtals 530 krónur sem ég eyddi í mat í dag (hádegismaturinn var afgangur frá í gær).

Það er nú vel sloppið, enda veitir ekki af, ég sá einhvers staðar að þetta væri misskilningur með 248 krónur per máltíð, það væru í alvöru 209 krónur.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s