Aftur til fortíðar

Það hefur verið mikið rætt um matarkostnað og neysluviðmið að undanförnu og í óbeinum tengslum við það rakst ég á síðu í Mogganum frá því í október 1935, á miðjum kreppuárunum, þar sem Helga Sigurðardóttir (sú eina sanna) setti upp vikumatseðil fyrir fjölskyldu á síðunni Kvenþjóðin og heimilið, sem hún sá um.

Og ég var eitthvað að grínast með að ég ætti kannski að prófa að fylgja þessum matseðli og gá hvernig það kæmi út, nútímalega og kostnaðarlega. Og á endanum ákvað ég að gera tilraun – en frjálslega að vísu. Gera það sem matseðillinn segir (með tveimur undantekningum þó) en ekki endilega nota uppskriftirnar sem Helga miðaði við – ég gæti örugglega fundið þær samt, þetta er flest úr bókunum hennar eða alþekktar samtímauppskriftir. En ég ætla nú að fara mínar eigin leiðir með þetta þótt ég fylgi matseðlinum. Og athuga kostnaðinn í leiðinni eftir bestu getu, en það er nú bara til gamans. Ég mun allavega ekkert leggja mig sérlega fram um sparnað.

Og það var auðvitað tvíréttað alla daga, þó það nú væri. Og verður hjá mér líka. Hins vegar var húsmóðirin hennar Helgu að elda fyrir sex manna fjölskyldu, ég mun elda fyrir einn eða tvo.

Matseðillinn hennar Helgu byrjar á sunnudegi en þar sem það er miðvikudagur í dag byrjar minn á miðvikudegi, nema hvað. Og réttir dagsins eru:

Eplasúpa með brúnuðu brauði

Steiktur fiskur á fati

Helga setur súpuna á undan, sem ætti að merkja að þetta sé forréttur. En hjá mér var hún nú desert svo að ég byrja á fiskinum.

Ég fór í Nóatún og þar var til langa sem ég keypti rétt rúmlega 500 g af, því við vorum tvö. Kostaði um 900 krónur. Nýjar kartöflur fyrir um 100 krónur. Salatbox á um 500 krónur en ég notaði bara fjórðung úr því svo það eru 125 krónur. Svo átti ég heima tómata, segjum 50 krónur, og annað sem ég átti til og notaði gæti verið svona 75 krónur. Give or take. Svo að þarna var ég komin í 1250 krónur, aðalréttur fyrir tvo. En í eplagrautinn keypti ég bara epli (150 krónur) og annað hráefni í hann, sem ég átti heima, hefur varla kostað meira en 50 krónur. Svo að þetta eru eitthvað um 1450 krónur, 725 á mann. Er það ekki bara viðmiðið hans Bjarna? (sko, ef við sleppum morgunmat og kaffi og svona – ekki hádegismat því það var meira að segja afgangur af þessu sem dugir mér í nesti).

Allavega (og ég biðst afsökunar á vondum myndum), hér er matseðill kreppuhúsmóðurinnar:

_MG_2404

Ég byrjaði á að setja upp kartöflurnar til suðu (þetta voru litlar, nýjar kartöflur, alveg ljómandi góðar) og hita ofninn í 200°C. Svo hitaði ég 2 msk af olíu og 2 msk af smjöri á pönnu. Í uppskriftum að fisk á fati sem ég skoðaði var gjarna talað um 150 g af smjörlíki og meira ef manni fannst þess þurfa en ég var nú ekkert að fara eftir því … Fiskur á fati þýðir ofnbakaður fiskur en stundum var hann aðeins brúnaður á pönnu fyrst. Ég skar lönguna í stykki og kryddaði þau með pipar og salti á báðum hliðum. Brúnaði þau svo við háan hita í 1-1 1/2 mínútu á hvorri hlið.

_MG_2406

Ég var búin að hita eldfast mót (eða fat) í ofninum og nú raðaði ég fiskstykkjumum í það. Blandaði saman svona 2 msk af pankoraspi og blöðunum af nokkrum timjangreinum og stráði yfir. Hellti svo mestallri feitinni af pönnunni jafnt yfir en skildi svolítið eftir. Bakaði fiskinn í 5 mínútur.

_MG_2408

Kartöflurnar voru akkúrat tilbúnar og ég hellti vatninu af þeim, lét gufuna rjúka af þeim í svona hálfa mínútu svo þær væru þurrar að utan og ég hellti þeim svo á pönnuna og steikti við góðan hita í því sem eftir var af feitinni á meðan fiskurinn var í ofninum.

_MG_2410

Þegar fiskurinn var tilbúinn hellti ég kartöflunum í fatið (eða á fatið, svo ég fari nú að því sem Helga segir), bætti við svolitlu smjöri og bar þetta fram með salati (græn salatblöð og tómatar).

_MG_2414

Ég veit ekki hvað Helgu hefði þótt en okkur mæðginunum þótti þetta ágætt.

 

En svo var það súpan (eða ég reyndar byrjaði á henni). Eplasúpa með brúnuðu brauði.

_MG_2390

Ég tók þrjú rauð epli sem ég hafði keypt, flysjaði þau og skar í bita og setti þau svo í pott með 300 ml af vatni, 2 msk af sykri (ég vildi ekki mjög sæta súpu en má alveg vera meira) og safa úr 1/2 sítrónu. Hitaði að suðu og lét þetta malla í svona 10 mínútur en maukaði hana svo í matvinnsluvél.

_MG_2392

Á meðan setti ég 1 msk af smjöri og 1 msk af sykri á litla, þykkbotna pönnu ásamt dálitlum kanel og þegar þetta var bráðnað saman setti ég 2 skorpulausar sneiðar af heimabökuðu brauði, skornar í litla teninga, á pönnuna og brúnaði vel.

_MG_2402

Og svo er bara að setja teningana út í súpuna.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s