Bleikja og rabarbari

Nú er ár síðan ég byrjaði að skrifa um mat í tímaritið MAN. Það er búið að vera býsna skemmtilegt – gefur mér færi á að prófa nýjar hugmyndir og þjálfast í stíliseringu og myndatökum. Ekki að ég sé sérlega snjöll við þetta en eitthvað lærir maður nú smátt og smátt. Vonandi.

Margar – en langt frá því allar – af uppskriftunum sem ég hef gert fyrir blaðið hef ég svo sett inn hér einhverntíma seinna, þegar blaðið er komið úr sölu. Ég er samt með töluvert af óbirtum uppskriftum, þær koma kannski seinna (nema tvær eða þrjár sem ég var ekki alveg sátt við, eftir á að hyggja).  Nú var einmitt að koma nýtt blað og við það fjölgaði uppskriftunum í sarpinum um sjö. Og svo eru átta aðrar í nýja blaðinu sem kannski koma einhverntíma seinna. Hér eru myndir af þeim:

_MG_8400

_MG_9338

 

 

 

 

_MG_8866

 

 

_MG_0031

 

 

 

_MG_8614

 

 

 

 

_MG_9994

 

 

 

 

_MG_9761_MG_0330

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En það er semsagt seinna, núna ætla ég að birta hér uppskrift sem kom í blaðinu í vor, að grilluðum silungi með rabarbarachutneyi. Einhverjir eiga kannski nothæfan rabarbara enn úti í beði en svo má líka nota frosinn rabarbara í chutneyið. Bleikjan er grilluð en það má alveg eins steikja hana á grillpönnu eða venjulegri pönnu.

Rabarbarachutneyið á sérlega vel við silung, lax, makríl og aðra feita fiska en bleikjan er líka góð án þess, e.t.v. með kaldri kryddjurta-jógúrtsósu. Chutneyið er reyndar ekki tímafrekt en það er þó best að byrja á að gera það.

_MG_2899

Ég byrjaði á að taka 500 g af rabarara og skera í bita. Svo setti ég 100 g af púðursykri, 4 msk af eplaediki, 2 msk af vatni, 2 msk af dijonsinnepi, 1 msk af smátt skorinni engiferrót og rifinn börk af 1 sítrónu í pott. Bætti við nokkrum timjangreinum af því að ég átti þær en það má sleppa þeim eða nota þurrkað timjan. Ég hitaði þetta að suðu og lét malla við fremur vægan hita í 10 mínutur – það má bæta við meira vatni ef þarf.

_MG_2906

Svo veiddi ég timjangreinarnar upp úr, setti rabarbarann út í, hrærði oft og lét malla í nokkrar mínútur, þar til rabarbarinn var soðinn í mauk. Smakkaði og bragðbætti eftir þörfum með sykri og/eða ediki.

_MG_2924

Ég hellti svo chutneyinu í krukku. Það geymist í nokkra daga í ísskáp en einnig má frysta það.

_MG_2927 

Þá var það bleikjan. 3-4 flök ættu að vera hæfilegur skammtur fyrir fjóra, ég var með 3 sem ég snyrti og þerraði og lagði í eldfast mót.  Ég saxaði svo grænu blöðin af 2 vorlaukum og lófafylli af mintulaufi og blandaði saman við safa úr ¼ af sítrónu, 2 msk af olíu, pipar og salt.
 _MG_2938

Svo hellti ég maríneringunni yfir silunginn og lét liggja á meðan ég hitaði grillið.

_MG_2943

Ég setti flökin á vel heitt, olíuborið grillið með roðhliðina niður og grillaði þau við góðan hita í 3 mínútur. Síðan sneri ég þeim gætilega (notaði pönnukökuspaða) og grillaði þau á hinni hliðinni í 1½-2 mínútur.

_MG_3000

Svo bar ég silunginn fram með rabarbarachutneyinu og góðu salati, ásamt soðnum kartöflum.

*

Grillaður silungur með rabarbarachutneyi

Fyrir 4

*

Rabarbarachutney

100 g púðursykur

4 msk epla- eða hvítvínsedik

2 msk vatn

2 msk dijonsinnep

1 msk smátt söxuð engiferrót

rifinn börkur af 1 sítrónu

nokkrar timjangreinar (má sleppa)

500 g rabarbari, skorinn í bita

*

Grilluð mintulegin bleikja

3-4 bleikjuflök

2 vorlaukar (grænu blöðin)

lófafylli af mintulaufi

safi úr ¼ af sítrónu

2 msk olía

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s