Ég var að koma að norðan, þar sem ég var um helgina með systkinum mínum í sumarbústaðnum þeirra. Þau voru að bera á bústaðinn og búa hann undir veturinn. Ég kom ekki nálægt því, enda á ég ekkert í þessum bústað, en sá hins vegar um eldamennskuna.
Þótt ég sé alls ekki sumarbústaðatýpan, eins og oft hefur komið fram, finnst mér oftast gaman að elda í sumarbústað – það er að segja, mér finnst gaman að elda bara úr því hráefni sem til er, vita ekkert út í hvað ég er að fara og hafa ekki öll þau tæki og tól, krydd og olíur og allt þetta sem umkringir mig í eldhúsinu mínu og ég þarf bara að teygja mig í. Fyrir þessa ferð var keypt vænt lambalæri (við vorum átta og viljum endilega leggja sauðfjárbænum lið við að lækka lambakjötsfjallið) en svo kom bara hver með það sem honum datt í hug eða átti til og við bústaðinn er kartöflubeð og salatbeð og smávegis rabarbari.
Ég greip með mér eitt og annað sem ég átti án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætlaði að gera við það – vænan butternutkúrbít, chorizopylsu, perlukúskús, tvær franskar andabringur úr frystinum, basilíkuplöntu úr eldhúsglugganum, nokkra vorlauka, granatepli sem lá undir skemmdum, smávegis þurrkaða ofurberjablöndu og eitt og annað smálegt.
Á laugardagskvöldið var lærið grillað – stungið í það rósmarínkvistum sem einhver kom með og hvítlauksflísum, stráð á það pipar, salti og villijurtum og grillað á lokuðu grilli í svona klukkutíma og 20 mínútur og látið standa í allavega 20 mínútur á eftir, því að á meðan borðuðum við forréttinn – ég tók andabringurnar sem ég kom með og steikti þær og skar þunnt og bar fram á perlukúskús og salatblöðum (og stráði granateplafræjum og þurrkuðum ofurberjum yfir) og þetta var nú alveg ágætt.
Og með lærinu voru svo nýuppteknar kartöflur úr garðholunni (og ein sæt kartafla í smábitumlíka), ofnsteiktar úr fitunni af andabringunum með rósmaríni og timjani, og salat (að hluta úr garðinum) með tómötum og papriku og gúrku og einhverju fleiru. Og þetta var nú alveg ágætt líka.
Og svo hafði ég fundið suðusúkkulaði í skúffu í bústaðnum og það voru til egg og rjómi svo ég gerði súkkulaðibúðing af þeirri tegund sem sumir afkomendur mínir segja að sé næstum eins og Royal. Mér finnst að þau ættu að segja ,,næstum eins og Royal en bara betri“. En það gera þau náttúrlega ekki. Þetta þótti samt alveg ágætt, enda voru engir afkomendur mínir á staðnum.
En það kemur engin uppskrift að þessu vegna þess að ég mældi ekkert og tók engar (eða næstum engar) myndir og var ekkert að setja nákvæmlega á mig hvað ég gerði.
Aftur á móti eldaði ég í hádeginu á laugardeginum og þá var betri birta fyrir myndatöku og ég hafði betri tíma (var ein inni, þau hin stóðu uppi í stigum úti eða lágu á hnjánum og báru á húsið) og hafði tóm til að leggja á minnið hvað ég var að gera. Ég mældi nú samt eiginlega ekkert svo að sumar tölurnar í uppskriftinni hér á eftir eru áætlanir og slumpar. En það ætti nú ekki að koma að sök.
Allavega, ég fór að hugsa um það þarna um morguninn hvað ég ætti að elda handa okkur. Þegar ég greip butternutkúrbítinn með var ég helst með það í huga að skera hann niður og baka og bera fram með lærinu en sá að það var til nóg af öðru grænmeti svo að ég fór að hugsa hvort ég ætti kannski að rífa hann niður og blanda kannski saxaðri chorizopylsu og einhverju grænmeti saman við og steikja klatta. Þarf að prófa það einhvern tíma.
En svo datt mér í hug að gera frekar súpu. Butternut-chorizo-súpu. Var nokkuð viss um að ég gæti sett eitthvað slíkt saman úr því sem til var og Eiríkur bróðir hafði bakað nóg af brauði um morguninn sem mátti hafa með. En þessi súpa var ekki mjög skagfirsk, verður að segjast. Með innfluttu kjötmeti og alles.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla á 200°C, sem hljómar kannski undarlega ef ætlunin er að sjóða súpu.
Ég sagði áðan að það væri ágætt að vera ekki með öll mín venjulegu eldhústól og dippidútta í kringum mig en það eru undantekningar og fyrst ég tók butternutkúrbítinn (sem var frekar stór) með tók ég flysjunarjárnið líka; það auðveldar flysjunina heil ósköp.
Þegar ég var búin að flysja kúrbítinn skar ég hann í tvennt og skóf fræin úr með skeið.
Svo skar ég butternnutkúrbítinn í frekar litla bita, 2-3 cm á kant eða svo, setti í eldfast mót ásamt 2 msk af olíu, 2 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salti. Blandaði vel, setti í ofninn og bakaði í svona 25-30 mínútur, eða þar til teningarnir voru meyrir og aðeins farnir að taka lit á brúnunum.
Svo tók ég 200 g af chorizopylsu (Monte Nevado spicy chorizo, minnir að ég hafi keypt hana í Nóatúni) og skar í sneiðar.
Setti hana á pönnu – það ætti ekki að þurfa olíu, fitan fer fljótt að bráðna úr pylsunni en það má alveg setja 1-2 tsk – og steikti við nokkuð góðan hita í um 5 mínútur, eða þar til sneiðarnar voru farnar að brúnast vel. Hrærði oft í þeim á meðan.
Á meðan skar ég 1 rauða papriku og 4 vorlauka frekar smátt, setti á pönnuna, lækkaði hitann aðeins og lét krauma í svona 5 mínútur í viðbót. Hrærði öðru hverju. Svo tók ég pönnuna af hitanum.
Þegar butternutkúrbíturinn var orðinn meyr tók ég fatið út og mokaði öllu úr því (olíunni líka, en það má sleppa henni) í matvinnsluvélina. Það er sko matvinnsluvél í þessum bústað (gömul og maður þarf að stinga borðhníf í hana svo að hún virki) en það mætti nota blandara eða kartöflustappara.
Ég lét vélina ganga þar til komið var fremur fínt og slétt mauk. Hellti því svo í pottinn, skoðaði hvað til var í kryddskápnum og hrærði svo 2-3 tsk af paprikudufti saman við, hitaði 1 1/2 l af vatni í hraðsuðukaltli og hellti út í. (Það má alveg hella bara köldu vatni beint saman við maukið og hita, tekur bara lengri tíma.)
Ég hefði kannski viljað aðeins þykkari súpu, nota bara einn lítra, en við vorum átta. Ég ætlaði að nota grænmetis- eða kjúklingatening en það voru bara til lambakjötsteningar (þetta er nú í Skagafirði) svo ég notaði tvo slíka; það kom ágætlega út.
Svo hellti ég öllu sem var á pönnunni í pottinn og lét malla í nokkrar mínútur. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum og endaði á að saxa dálitla basilíku (fyrst hún var nú til) og henda út í rétt áður en súpan var borin á borð. En það var nú mest upp á punt.
Kraftmikil, vel krydduð og litrík súpa. Og bara nokkuð góð, fannst mér. Og sumarbústaðareigendunum held ég líka.
*
Butternut- og chorizosúpa
1 butternutkúrbítur, stór
2 msk olía
2 tsk þurrkað timan
pipar
salt
200 g chorizopylsa (ég notaði sterka en má vera mild)
1 paprika
3-4 vorlaukar
2-3 tsk paprikuduft, eftir smekk
1-1.5 l sjóðandi vatn
2 súputeningar
e.t.v. basilíka eða aðrar kryddjurtir