Ráðist til atlögu við kjötfjallið

Ég heyrði á dögunum fréttir af því að það hefði safnast upp lambakjötsfjall í grillveðursleysinu í sumar (nei, það þýðir ekkert að reyna að kenna útlendum ferðamönnum um, áhugaleysi þeirra á lambakjöti hefur ekki áhrif, nema ef lambakjötsframleiðsla hefur verið aukin stórkostlega í von um að útlendingarnir mundu éta það allt).

Svo að ég ákvað allavega að leggja mitt af mörkum til að eyða þessu kjötfjalli og servera lambakjöt fyrir soninn og tengdadótturina á sunnudagskvöldið. Fannst hún líka eiga það skilið, nýkomin af Bárðarbungu og á leið í Öskju (þar sem hún er núna við jarðskjálftamælingar).

Ég átti lambabóg, keyptan í Bónus – hann hafði legið í ísskápnum og þiðnað í rólegheitunum í tvo þrjá daga. Svoleiðis kjöt er alveg gráupplagt að hægelda. Gufusteikja, nánar til tekið. Þrír klukkutímar eða svo er passlegt og svo tók ég bóginn út kæli svona klukkutíma fyrir eldun svo að þetta eru svona fjórir tímar í allt en nánast allan þann tíma sér bógurinn um sig sjálfur, mallar í rökum hægum hita svo að seigir bandvefir meyrna og mýkjast og fitan bráðnar hægt og rólega inn í kjötið og heldur kjötinu safaríku og mjúku og um leið lekur hluti af kjötsafanum smátt og smátt út í steikarfatið og blandast soðinu svo að til verður bragðmikill og góður sósugrunnur … Þetta er sem sagt nokkuð gott bara.

_MG_0363

En ég allavega byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla á 220°C. Já, ég veit að ég talaði um hæga eldun við lágan hita en ég vil fá dálítinn lit á kjötið fyrst.

Svo tók ég eldfast mót, hæfilega stórt til að rúma bóginn, skar niður einn lauk og tvo hvítlauksgeira og setti í formið ásamt nokkrum rósmarín- og timjangreinum (það má líka nota þurrkaðar kryddjurtir). Dreifði þessu á botninn.

_MG_0374

Svo tók ég svona 50-75 g (mældi það ekki) af linu smjöri og smurði því jafnt á allar hliðar bógsins með fingrunum. Eða með spaða eða hnífsblaði ef maður vill síður subba sig út.

_MG_0370

Það er auðvitað hægt að nota ýmiss konar krydd á lærið en ég notaði nýmalaðan pipar, salt, svona 1 msk af grófmöluðu kóríanderfræi og 1/2 tsk af kummini (má sleppa).

_MG_0376

Ég kryddaði kjötið á öllum hliðum og setti það svo í eldfasta fatið, ofan á laukinn og kryddjurtirnar. Setti það svo í ofninn og steikti í um 25 mínútur.

_MG_0377

Þegar bógurinn var farinn að taka lit tók ég fatið út og lækkaði hitann í 150°C.  Hitaði 1/2 l af vatni að suðu og hellti í formið.

_MG_0401

Svo breiddi ég álpappír þétt yfir og setti fatið aftur í ofninn. Lét það vera í um 2 1/2 klst. án þess að líta einu sinni á það.

_MG_0419

Þá tók ég það aftur út og fjarlægði álpappírinn, setti sigti yfir pott og hellti öllu soðinu úr fatinu  í það. Slökkti á ofninum en setti fatið aftur í hann (án álpappírs) og lét það vera þar á meðan ég þykkti sósuna með hveitihristingi (má líka nota sósujafnara), bætti við dálitlum rjóma og lét hana malla í svona 10 mínútur. Þá tók ég kjötið úr ofninum og hellti dálitlu soði sem hafði bæst við í steikarfatið út í sósuna. Smakkaði til að athuga hvort þyrfti eitthvað að krydda en sósan var bragðmikil og góð svo ég lét duga að bæta nokkrum dropum af sósulit út í.

_MG_0425

 

Kjötið var meyrt, bragðmikið og safaríkt. Ég bar það fram með sósunni, salati og kartöflum bökuðum í kartöfludjöfli (segi örugglega meira frá því seinna). En þar sem gestirnir biðu eftir kjötinu var ég ekkert að lengja biðina með frekari myndatökum, eins og ég talaði um hér á dögunum.

Þau voru allavega ánægð með matinn.

*

Hægeldaður lambabógur með brúnni sósu

1 lambabógur, um 1,6 kg

50-75 smjör, lint

nýmalaður pipar

salt

1 msk kóríanderfræ, grófmöluð

1/2-1 tsk kummin

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

2 rósmaríngreinar

2-3timjankvistir

½ l vatn

2 msk hveiti, hrist saman við dálítið af köldu vatni

150 ml rjómi

sósulitur

*

25 mínútur við 225°C, svo 2-2 1/2 klst við 150°C og 10-15 mínútna bið.

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s