Er allt í einu komið haust? Allavega eitthvert hausthljóð í vindinn … og svo eru skólarnir byrjaðir, hjá okkur á Forlaginu fara jólabækurnar í prentsmiðju ein af annarri og allt er einhvernveginn komið í haustgírinn.
Það verður kannski ekki farið í margar lautarferðir héðanaf en þessar frísklegu vefjur sem ég gerði fyrir júlíblað MAN, þar sem ég var með nestisþema, henta reyndar líka alveg sem nesti í vinnuna eða skólann – eða bara sem snarl við ýmis tækifæri. Þær eru svosem vissulega dálítið sumarlegar en svo má líka alveg skipta út melónum og mangói fyrir eitthvað annað. Til dæmis bara paprikuræmur og salatblöð, eða eitthvað ámóta.
Þessi uppskrift er miðuð við svona 8 vefjur en það er mjög einfalt að gera bara eina eða tvær.
Allavega, þá byrjaði ég auðvitað á að taka rækjurnar úr frysti og láta þær þiðna alveg – þetta voru 500 g af meðalstórum rækjum.
Ég setti svo 100 ml af majónesi (keyptu eða heimalöguðu – það var jú uppskrift hér í gær) , 1 tsk af dijonsinnepi og 1 tsk af karrídufti í skál.
Hrærði þetta vel saman …
… og bætti svo við 100 ml af sýrðum rjóma (fituprósenta eftir smekk) og hrærði þar til sósan var slétt. Kryddaði með dálitlum pipar og salti.
Svo tók ég 8 hveititortillur, setti þær á vinnuborð og smurði sósunni fremur þykkt á þær, næstum út á brúnir.
Svo var ég með fjórðung úr melónu (gulri, hunangs- eða cantaloupe, held að vatnsmelóna mundi alls ekki virka hér), eitt þroskað mangó og hálfa litla gúrku. Afhýddi melónuna og mangóið og skar í þunnar sneiðar eða geira. Skar svo gúrkuna í 6-8 cm bita og hvern bita svo í stauta. Síðan lagði ég nokkar melónu- og mangósneiðar ásamt gúrkustautum í röð á miðjuna á hverri köku.
Svo skipti ég rækjunum í átta hluta og dreifði þeim yfir ávextina og gúrkuna. Saxaði steinseljuknippi (flatblaða) og dreifði yfir.
Ég vafði svo tortillakökurnar fremur þétt upp utan um fyllinguna, sem ég lét standa aðeins út úr endunum (ekki nauðsynlegt en lítur allavega flott út á mynd). Síðan vafði ég vaxpappír (eða bökunarpappír eða álpappír) utan um hverja vefju.
Ef maður ætlar að bera þetta fram fyrir gesti, til dæmis, er flott að látan annan endann standa aðeins út úr pappírsvefjunni en brjóta svo pappírinn fyrir hinn endann til að loka honum. En ef þetta er haft með sem nesti er best að loka vefjuna alveg inni í pappír og losa hann svo bara frá öðrum endanum þegar á að borða vefjuna.
*
Rækjuvefjur með melónu, mangói og karrísinnepssósu
500 g rækjur
100 ml majónes
100 ml sýrður rjómi
1 tsk dijonsinnep
1 tsk karríduft
pipar
salt
8 tortillakökur
¼ melóna
1 mangó, vel þroskað
½ lítil gúrka
steinseljuknippi