Matur og myndatökur

Þegar ég elda eitthvað sem ég ætla að mynda og setja á bloggið – og ég tala nú ekki um ef ég ætla að birta það annars staðar, í bók eða tímariti – þá er það vissulega alltaf eitthvað sem er borðað þegar búið er að mynda það því mér er alveg óskaplega illa við að henda mat.

En mér finnst frekar óþægilegt að gera þetta nema þegar ég er ein því að myndatökur taka tíma og maturinn kólnar kannski eitthvað og svona; mér er sama (eða get auðveldlega unnið í kringum það, hitað matinn á eftir eða fengið mér bita áður en ég set á disk og mynda, til dæmis) en þegar ég er með gesti í mat finnst mér alls ekki hægt að láta þá bíða svanga á meðan ég er að mynda matinn í bak og fyrir (þótt það komi fyrir að ég smelli af einni eða tveimur myndum í snarhasti áður en ég set hann á borðið) og svo er hann kannski ekki alveg með réttu hitastigi fyrir vikið eða ekki alveg eins flottur og hann var á myndinni …

Mér þætti það líka frekar mikil ókurteisi ef gestgjafinn (ég) hyrfi frá borðinu þegar hinir eru sestir og eyddi löngum tíma í eldhúsinu að bjástra við myndatökur. Það gengur bara eiginlega ekki, eða hvað finnst ykkur? Nema náttúrlega ef gestgjafinn er svo leiðinlegur að gestirnir eru bara fegnir að sjá sem minnst af honum en ég vona að ég sé það nú ekki.

(Það kemur samt fyrir, þegar fjölskyldan kemur í mat, að ég tek mynd af diskinum mínum þegar ég er búin að skammta mér á hann. Það finnst þeim alltaf jafnhlægilegt. Sem það auðvitað er.)

Fyrr í vikunni var dótturfjölskyldan í mat og þar sem ég hef lítið séð til barnabarnanna seinnipartinn í sumar, annað í Berlín að slæpast og hitt í girðingarvinnu og skítmokstri norður í Húnaþingi, þá ákvað ég að elda eitthvað sem líkur væru til að þeim þætti báðum gott (þau eru kresin bæði tvö og láta ömmu sína óspart heyra ef þeim líkar ekki maturinn). Og það tókst, merkilegt nokk. Ekki að ég væri nú með neinar nýjungar eða exótískar fléttur í matargerðinni, neinei: ég bauð bara upp á kjúklingasamlokur og salat, flóknara var það nú ekki. En það virkaði.

Svoleiðis matargerð er nú svo einföld að það er eiginlega ekki hægt að tala um uppskrift og ég var heldur ekki að mynda neitt. En það vill svo til að ég átti myndir af mjög svipaðri samloku – sem ég útbjó mér einhverntíma um daginn þegar ég var ein í mat og gat alveg gefið mér tíma – svo að ég ætla að setja þær hér, þótt þetta væri nú ekki merkileg matreiðsla. Fyrst barnabörnin voru nú svona ánægð.

Þegar ég gerði samlokuna um daginn átti ég kalda, pönnusteikta kjúklingabringu sem ég notaði. En núna tók ég bringur, kryddaði þær með pipar, salti og þurrkuðu timjani og steikti þær á pönnu í dálitlu af ólífuolíu og smjöri við meðalhita i í um 10 mínútur á hvorri hlið. Þessar bringur voru í minna lagi en stórar bringur þurfa auðvitað heldur lengri tíma til að steikjast í gegn. Ein bringa af þessari stærð er hæfileg fyrir mig á samlokuna en það má auðvitað nota minna eða meira eftir smekk. Ég lét svo bringurnar kólna dálítið en þær geta verið heitar, volgar eða kaldar, eftir smekk.

_MG_0282

 

Svo var það brauðið. Hér er maður ekkert að nota eitthvert samlokubrauð eða annað brauð sem keypt er niðurskorið, það þarf að vera þokkalegt brauð, skorið í svona 2 cm þykkar sneiðar. Ég notaði Baskabrauð sem fékkst í Nóatúni, það hentaði ágætlega. Skar það þykkt og smurði sneiðarnar á báðum hliðum með dálitlu linu smjöri.

Svo tók ég litla grillpönnu (eða stærri, ef maður er að gera fleiri en eina samloku) og hitaði hana vel.

_MG_0346

Á meðan pannan hitnaði bjó ég til majónes. (Þetta var ekki á samlokunum sem barnabörnin fengu, ég treysti ekki á að þeim mundi líka það.) Já, það þarf ekki lengri tíma en á meðan pannan hitnar … Ég setti 1 eggjarauðu, 1 tsk af nýkreistum sítrónusafa og 1/2 tsk af dijonsinnepi í matvinnsluvélina ásamt dálitlum pipar og salti. Setti svo vélina af stað og hellti 200-250 ml af bragðmildri olíu (notaði blöndu af repju- og jarðhnetuolíu) hægt og rólega út í. Hætti þegar majónesið var orðið hæfilega þykkt. Og þá var pannan líka heit.

(Þetta er auðvitað miklu miklu meira majónes en þarf en það geymist nú alveg í nokkra daga í ísskápnum.)

_MG_0284

 

Ég setti brauðsneiðarnar á pönnuna og grillaði þær á báðum hliðum við frekar háan hita þar til þær voru orðnar flott röndóttar og yfirborðið stökkt – það tekur 1-2 mínútur á hvorri hlið.

_MG_0285

 

Tók brauðsneiðarnar svo af pönnunni, lækkaði hitann aðeins, setti nokkrar sneiðar af þykkt skornu beikoni á hana (2-3 fyrir hverja samloku) og steikti þar til þær voru stökkar á báðum hliðum.

_MG_0287

 

Svo smurði ég aðra brauðsneiðina með dálitlu majónesi og setti slatta af salatblöðum ofan á ásamt nokkrum basilíkublöðum og grófmuldum fetaosti. En fyrir barnabörnin lét ég basilíkublöðin duga, dóttursonurinn lítur salat sömu augum og flestir aðrir 13 ára drengir sem ég hef kynnst og dótturdóttirin vill helst bara spínat. Ég hafði því salatið bara með og bætti við það kirsiberjatómötum, grófmuldum fetaostskubbi, ólífum, ólífuolíu, sítrónusafa, óreganói, nýmölum pipar og salti – sem sagt, næstum því grískt sveitasalat.

Svo skar ég kjúklingabringuna í frekar þykkar sneiðar og raðaði þeim ofan á.

_MG_0292

Endaði svo á að setja hina brauðsneiðina efst  – það má auðvitað smyrja hana með majónesi líka ef maður er þannig stemmdur.

Barnabörnin voru vel sátt. En hefðu líklega ekki verið eins hress ef þau hefðu þurft að bíða eftir að amma kláraði myndatökuna.

*

Kjúklingasamloka

(fyrir einn)

1 kjúklingabringa

klípa af þurrkuðu timjani

pipar

salt

1 msk ólífuolía til steikingar

1 msk smjör til steikingar

*

2 þykkar sneiðar af góðu brauði

smjör

2-3 þykkar beikonsneiðar

blönduð salatblöð

nokkur basilíkublöð (má sleppa)

dálítið af grófmuldum fetaosti (má sleppa)

*

Majónes

1 eggjarauða

1 tsk sítrónusafi

1/2 tsk dijonsinnep

pipar

salt

200-250 ml bragðmild olía

 

3 comments

  1. Ég er hjartanlega sammála þér. Fæ það ekki af mér að mynda mat eftir að gestir koma, hvað þá að mynda gestina borða matinn. Finnst það bara of mikil truflun og óþægilegt, bæði fyrir mig og gestina. Myndataka á sér oftast stað þegar ég er helst ein heima eða þá í flýti í fámennum félagsskap heimilisfólksins.

    • Nei, einmitt. En það hefur nú samt komið fyrir tvisvar eða þrisvar að ég hafi sett inn mynd af syninum eða dóttursyninum að háma í sig. Þeir eru eitthvað svo matarlegir …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s