Tortillur eru ekki allar úr hveiti eða maísmjöli

Kannski hefði ég átt að finna til uppskrift með eldgosatengingu – þær eru alveg til – af þvi að allir eru að bíða eftir að Bárðarbunga ákveði sig og af því að mín ágæta tengdadóttir er aftur farin þarna austur eftir að setja upp mælitæki og fylgjast með jarðskjálftum. Það vill nefnilega svo til að doktorsverkefnið sem hún er að vinna að snýst einmitt um jarðskjálftamælingar og eldgosaspár. En ég vona nú að það fari allavea ekki að gjósa akkúrat á meðan hún er stödd uppi á Bárðarbungu.

En semsagt engin eldgosauppskrift núna, þess í stað ætla ég að setja hér uppskrift að kartöflutortillu með chorizo, sem ég gerði fyrir MAN fyrr í sumar. Hún passar fínt á síðsumardegi en það er líka upplagt að nota hana sem nesti í skóla eða vinnu því hún er ekki síður góð köld en heit.

Flestir þekkja tortillabrauð en tortilla er líka kartöflueggjakaka sem er afar vinsæl á Spáni og víðar. Þessi er reyndar ekki alveg spænsk því að þar í landi er henni oftast snúið, jafnvel nokkrum sinnum, á pönnunni til að hún steikist jafnt. Hér er hins vegar notuð aðferðin sem Ítalir hafa og eggjakökunni ekki snúið, heldur er hún kláruð í heitum ofni.

Hér er kryddjurtabætt tómatsósa höfð með tortillunni en það má sleppa sósunni og hafa bara tómatsalat eða annað gott grænmetissalat.

_MG_6099

Þetta er uppskrift fyrir fjóra, sirkabát, og ég notaði 600-700 g af kartöflum. Best finnst mér að nota fremur stórar, aflangar kartöflur en þó ekki mjölmiklar bökunarkartöflur. Ég flysjaði þær og skar í bita, um 2 cm á kant, og tók svo 1 lauk og saxaði hann fremur smátt. Kveikti svo á ofninum og hitaði hann í 200°C.

_MG_6101

Kartöflurnar verða bestar ef byrjað er á að sjóða þær í olíu. Sjóða, ekki steikja. Auðvitað er líka hægt að sjóða kartöflubitana í vatni og steikja svo e.t.v. smástund á pönnu en þær verða betri svona.  Svo að ég setti 150 ml af ólífuolíu á pönnu og hitaði. Setti svo kartöflur og lauk út í og lét krauma við fremur vægan hita í 10-12 mínútur, eða þar til kartöflurnar voru vel meyrar en ekki mjög brúnar – þær eiga eins og ég sagði að sjóða í olíunni fremur en steikjast. Hrærði oft á meðan.

_MG_6102

Ég tók svo kartöflurnar og laukinn upp með gataspaða og setti á disk. Hellti mestallri olíunni af pönnunni í litla skál og geymdi – það má steikja úr henni seinna. Skildi þó 1 -2 msk eftir og hækkaði hitann dálíitið. Svo tók ég 100 g af chorizopylsu og skar í bita, ½ – 1 cm þykka, og setti þá á pönnuna.

Ef þetta á að vera ekta spænskt notar maður chorizo en ef 50 kílómetrar eru í næstu búð sem selur það má alveg nota pepperóní. Eða bara beikon. Eða sleppa öllu kjöti og krydda bara eggjakökuna aðeins meira.

_MG_6103

Ég steikti pylsubitana í 2-3 mínútur eða þar til þeir eru farnir að brúnast og fitan að renna úr þeim. Ég átti svolítið rósmarín svo að ég saxaði nálarnar af 2 greinum og setti út á rétt í lokin en það er ekki nauðsynlegt.

_MG_6106

Ég setti svo svo kartöflurnar og laukinn aftur á pönnuna með pylsubitunum.

_MG_6109

Svo tók ég 6 egg og brauð þau í skál, þeytti þau létt saman með gaffli og kryddaði með dáliltum pipar og salti. Hellti þeim svo á pönnuna.

_MG_6115

Ég hrærði vel og steikti þar til eggjakakan var farin að stífna við pönnubarmana en var enn vel blaut í miðju. Setti pönnuna í ofninn í 5 mínútur, eða þar til egggjakakan hafði stífnað.

_MG_6131

Það má auðvitað bera eggjakökuna einfaldlega fram í pönnunni (en það er þó ekki heppilegt ef á að hafa hana fyrir nesti, þá er betra að láta hana kólna í pönnunni og losa hana svo úr).

_MG_6138

En annars er best að taka pönnuna út, renna spaða eða hníf meðfram börmunum, leggja svo disk ofan á eggjakökuna og hvolfa pönnunni. Ef eggjakakan losnar ekki má reyna að snúa pönnunni aftur, renna spaða undir eggjakökuna og hvolfa henni að nýju.

_MG_6160

Ég bar tortilluna fram með salati og fremur þykkri, kryddaðri tómatsósu – saxaði lauk og hvítlauk og lét krauma smástund í ólífuolíu, setti tómat-passata, þurrkaðar kryddjurtir, pipar, salt, balsamedik og ögn af sykri saman við og lét malla rólega í nokkrar mínútur.

*

Kartöflutortilla með chorizo og kryddaðri tómatsósu

600-700 g kartöflur

1 laukur

150 ml ólífuolía

100 g chorizopylsa eða (pepperóní)

lauf af 2 rósmaríngreinum (má sleppa)

6 egg, stór

pipar

salt

*

Krydduð tómatsósa

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

2 msk olía

400 ml tómatpassata eða maukaðir niðursoðnir tómatar

1 tsk herbes de provence eða ítölsk kryddjurtablanda

pipar

salt

1 msk balsamedik

1 tsk sykur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s