Hún Hekla dótturdóttir mín er komin heim eftir að hafa eytt miklum hluta sumarsins í Berlín. Sem er akkúrat það sem maður á að gera þegar maður er tvítugur, ef maður getur. En amman var samt ósköp fegin að fá hana heim og það var gott að fá hana í mat um helgina, þegar foreldrarnir fóru norður.
Við fórum saman í Nóatún að kaupa í matinn og hún vildi fisk – hafði ekki borðað mikið af honum í Berlín og er mun jákvæðari gagnvart fiski en margir jafnaldrar hennar – og þegar við stóðum við fiskborðið rak ég augun í bleikjuflök sem merkt voru Heklubleikja en eru frá Galtalæk. Það lá nú eiginlega alveg beint við að fóðra Heklu á þeim. Svo að ég keypti tvö flök. Mundi hins vegar að ég átti ýmislegt grænmeti heima sem örugglega væri hægt að hafa með.
Í þessari uppskrift nota ég þrjár pönnur (og tvo potta) og það er vissulega hægt að komast af með minna. Til dæmis má alveg setja kartöflurnar á pönnuna með blómkálinu og hella svo öllu á disk þegar það er tilbúið, halda heitu og steikja bleikjuna á blómkálspönnunni – en ég á margar pönnur og vil endilega nota þær sem mest. Ég á samt enga teflon- eða keramikhúðaða pönnu eða eitthvert fansí dót; þær af pönnunum mínum sem ekki eru Lodge-steypujárnspönnur, pantaðar frá Bandaríkjunum fyrir slikk, eru flestar keyptar í Góða hirðinum; semsagt munaðarlausar pönnur sem einhver vildi ekki eiga en hafa eignast stað í eldhúsinu hjá mér og fá að vera fyrirsætur á myndum. Gamlar pönnur taka sig nefnilega almennt mun betur út á mynd en splunkunýjar húðaðar pönnur. Meiri karakter.
En nóg um pönnurnar.
Ég byrjaði á því að setja upp nokkrar kartöflur, frekar litlar, og sjóða þær og svo stráði ég dálitlu flögusalti yfir bleikjuflökin og malaði pipar yfir og lét standa smástund.
Ég tók svo hluta af blómkálshaus sem ég átti – svona 200 grömm – og skar í frekar litla bita. Skar líka 3-4 frekar stóra vorlauka í bita og saxaði einn hvítlauksgeira. Hitaði svona 2 msk af olíu á pönnu – ég var með jarðhnetuolíu en það má nota aðra olíu – setti vorlaukinn, hvítlaukinn og blómkálið á hana og lét krauma við tæplega meðalhita …
… líklega í svona 10-12 mínútur, eða þar til blómkálið var orðið meyrt og farið að taka lit. Kryddaði með ögn af pipar og salti.
Ég setti svo 100 g af sykurbaunum á pönnuna og lét krauma áfram í 2-3 mínútur en tók svo pönnuna af hitanum. – Ég notaði baunirnar af því að ég átti þær til en það má sleppa þeim eða nota annað grænmeti.
Kartöflurnar voru orðnar meyrar og ég hitaði 1 msk af olíu á pönnu, skar kartöflurnar í 2-4 hluta eftir stærð og steikti þær við góðan hita þar til þær voru farnar að brúnast og hýðið var orðið stökkt.
Svo hitaði ég 2 tsk af jarðhnetuolíu (eða annarri olíu) og 2 tsk af smjöri á þriðju pönnunni, sem er sporöskjulaga og hentar einmitt sérlega vel fyrir tvö til þrjú bleikjuflök. Setti bleikjuna á hana með roðhliðina upp og steikti við ríflega meðalhita í svona 2 mínútur.
Sneri þeim svo (ég nota yfirleitt pönnukökuspaða í svoleiðis) og steikti í 2-3 mínútur á roðhliðinni, eða þar til bleikjan var rétt steikt í gegn (eða næstum því). Þegar ég var búin að snúa henni stráði ég fínrifnum berki af einni límónu yfir.
Á meðan bjó ég til límónu-hollandaise-sósu: Ég bræddi 125 g af smjöri og lét standa smástund (ef smjörið er of heitt getur sósan skilið sig). Kreisti safa úr hálfri límónu í skál sem ég setti yfir pott með sjóðandi (en ekki bullsjóðandi) vatni, Skálin þarf að vera heldur stærri en potturinn svo hún fari ekki ofan í hann og vatnið í pottinum á ekki að ná upp að skálarbotninum, þá er hætt við að sósan skilji sig. Svo þeytti ég tveimur eggjarauðum saman við, ásamt ögn af pipar og salti. Það þarf að þeyta stöðugt og hitinn má ekki verða of mikið, þá hlaupa eggjarauðurnar og maður situr uppi með eggjahræru en ekki sósu.
Þegar eggjarauðurnar voru aðeins byrjaðar að þykkna byrjaði ég að þeyta smjörinu smátt og smátt saman við, fyrst bara teskeið í einu eða svo; þegar sósan fer að þykkna má hella afganginum saman við í mjóum taumi og þeyta stöðugt. Þegar allt smjörið var komi út í og sósan hæfilega þykk tók ég hana strax af hitanum, bragðbætti hana með ögn af cayennepipar og þegar ég var búin að smakka hana ákvað ég að bæta við svolítið meiri límónusafa.
(Heimurinn ferst ekki þótt sósan skilji sig. Ef það gerist má sía hana í gegnum sigti. Byrja svo aftur með eina eggarauðu og ögn af límónusafa í skál yfir potti og þeyta sósunni smátt og smátt saman við aftur.)
Það er hægt að halda sósunni heitri dálitla stund en best að gera það ekki of lengi og það er ekki hægt (eða allavega ekki heppilegt) að hita hana upp ef hún kólnar.
Svo setti ég allt saman á fat: Bleikjuflökin, svo kartöflurnar og síðan hitt grænmetið. Stráði dálítilli steinselju yfir og bar sósuna fram með.
(Engin mynd af bleikjunni á diski því við Hekla vorum orðnar svo svangar.)
*
Pönnusteikt bleikja með grænmeti og límónu-hollandaise
fyrir 2
2 bleikjuflök
pipar
salt
250 g kartöflur, frekar litlar
4 msk olía
200 g blómkál
3-4 vorlaukar
1 hvítlauksgeiri
100 g sykurbaunir (má sleppa)
2 tsk smjör
rifinn börkur af 1 límónu
*
Límónu-hollandaise
125 g smjör, bráðið
2 eggjarauður
safi úr 1/2-1 límónu
pipar
salt
cayennepipar á hnífsoddi