Ég lenti á spjalli um krydd og einkum og sér í lagi kryddnotkun við sunnanvert Miðjarðarhaf og í Miðausturlöndum í vinnunni í gær og þá kom mér í hug þetta gómsæta salat sem ég gerði í vor fyrir MAN. Ekki vegna þess að það sé svo sterkkryddað, alls ekki, en það ber dálítið persneskan eða arabískan svip, bæði vegna kryddsins sem notað er á kjúklinginn, ristuðu mandlanna og ekki síst granateplafræjanna en granatepli eru mikið notuð til matargerðar í Íran og nálægum löndum. Mér finnst það best volgt en það má einnig borða það kalt.
Salatið er sett saman úr þremur þáttum; í fyrsta lagi er það bakaða grænmetið, síðan kjúklingurinn og í þriðja lagi – ja, það mætti kannski kalla það ,,útákástið“ eða eitthvað slíkt, þ.e. möndlurnar, granateplafræin, steinseljan og salatsósan. En það er best að byrja á að setja kjúklinginn í maríneringu.
Kryddlögurinn sem ég notaði var 3 msk ólífuolía, rifinn börkur og safi af 1 límónu, 1 tsk kummin, 1 tsk möluð kóríanderfræ, 1 tsk paprikuduft, pipar og salt. Ég blandaði þessu saman í eldföstu móti.
Ég var með þrjár kjúklingabringur og setti þær út í og velti þeim upp úr leginum. Lét þær standa í a.m.k. 1 klst. í kæli. Tók þær svo út og lét standa við stofuhita á meðan ég hitaði grillið. Ég kveikti líka á ofninum og stillti hann á 200°C.
Svo tók ég til 200 g af gulrótum, fremur litlum, 3-4 nípur (parsnips) (en það mætti líka nota t.d. sætar kartöflur, skornar í ræmur, eða bara meiri gulrætur), 4-5 vorlauka, 2 msk af olíu og pipar og salt.
Ég skar nípurnar eftir endilöngu í 6-8 hluta hverja, eftir stærð, gulræturnar í 2-4 hluta eftir stærð (ef þær eru mjög litlar og mjóar má hafa þær heilar). Ég tók um 10 cm bút neðan af hverjum vorlauk, skar rótina af og skar laukana (þ.e. neðri hlutann) svo í tvennt eftir endilöngu.
Ég setti svo grænmetið í eldfast mót, dreypti olíunni yfir og kryddaði með pipar og salti. Setti svo mótið í ofninn.
Ég hafði grillið lokað. Slökkti á einum/öðrum brennaranum þegar kominn var góður hiti, setti bringurnar á grillið þar sem enginn eldur var undir og lokaði grillinu.
Ég grillaði bringurnar í 10 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær voru steiktar í gegn – það gæti verið ráðlegt að skera í eina þeirra til að athuga hvort hún er gegnsteikt. Best er að opna grillið sem minnst svo að hitinn haldist.
Þá var kominn tími til að huga að grænmetinu. Ég bakaði þaðí um 35 mínútur, eða þar til það var vel meyrt og farið að brúnast; hreyfði við því með spaða einu sinni eða tvisvar svo það brynni ekki við. Svo tók ég það út og lét mesta hitann rjúka úr því.
Ég tók svo bringurnar af grillinu þegar þær voru tilbúnar og lét þær standa í a.m.k. 5 mínútur áður en ég skar þær í 3-5 mm þykkar sneiðar.
Ég blandaði svo kjúklingasneiðum, grænmeti, möndlum og steinselju saman á fati, dreypti olíu-ediksblöndunni yfir og stráði granateplafræjum yfir allt saman.
Salat með grilluðum kjúklingi, grænmeti og granateplafræjum
*
Kryddkjúklingur
2-3 kjúklingabringur
3 msk ólífuolía
rifinn börkur og safi af 1 límónu
1 tsk kummin
1 tsk möluð kóríanderfræ
1 tsk paprikuduft
pipar
salt
Bakað grænmeti
3-4 nípur (parsnips)
200 g gulrætur, helst litlar
4-5 vorlaukar, hvíti hlutinn
2 msk olía
pipar
salt
Salatið
50 g möndlur, heilar
1 granatepli
1 knippi steinselja, helst fjallasteinselja
3 msk ólífuolía
1 msk balsamedik
pipar
salt