Fyrst ég kláraði loksins lárperusilungstríóið – og setti inn uppskriftina að lárperumajónesinuy – er líklega kominn tími á þessa færslu hér, þar sem ég ætla að gefa uppskrift að tveimur köldum sósum og vísa á fjórar aðrar sem ég hef gefið uppskriftir að á undanförnum vikum – þetta eru semsagt sex kaldar sósur sem henta vel til dæmis með grillmatnum – já, við skulum gefa okkur að það verði grillveður, eða þá að fólk grilli nú samt – ég hef allavega fundið ansi mikla grilllykt undanfarin kvöld. En sósurnar henta líka í ýmislegt fleira, sem ídýfur með pinnamat, út á salöt, á snittur (eins og sást í gær) og sumar t.d. með steiktu kjöti eða kjúklingi, aðrar með fiski eða grænmeti.
Þarna er semsagt jarðarberja-basilíksósa, sataysósa, gráðaostssósa, lárperumajónesið frá í gær, basilíkusósa og sinnepssósa.
Fyrst er það jarðarberja-basilíkusósan.
Jarðarberja-basilíkusósa
100 g jarðarber
lófafylli af basilíkublöðum
1 msk balsamedik
2 msk ólífuolía
nýmalaður pipar
salt
Ég skar jarðarberin í bita, fjarlægði stilkana af basilíkunni og setti hvorttveggja í matvinnsluvél og maukaði gróft. Bætti balsamediki, ólífuolíu, pipar og salti út í og þeytti snöggt saman við. Vélin ætti þó ekki að ganga lengi, maukið á ekki að vera of slétt.
Þessi sósa hentar til dæmis vel með grilluðu lamba- og svínakjöti og líka með laxi eða silungi. Svo má þynna hana dálítið með meiri olíu og ediki og nota út á salöt.
Næst kemur sataysósan en uppskrift að henni er hér:
Svo er það gráðaostssósan en uppskrift að henni var með jöklasalatsgeirunum.
Og svo er það lárperumajónesið úr síðustu færslu.
Uppskrift að basilíkusósunni var hins vegar ekki komin áður. Sósan minnir á pestó en inniheldur þó hvorki hnetur né ost.
Basilíkusósa
væn lófafylli af basilíkublöðum
lófafylli af fjallasteinselju eða klettasalati
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
¼ rauðlaukur, saxaður (má vera venjulegur)
½-1 tsk rautt chilialdin, saxað smátt
nýmalaður pipar
salt
1 msk nýkreistur sítrónusafi
100 ml ólífuolía
Ég setti basilíku, steinselju (mætti líka vera klettasalat), hvítlauk, rauðlauk og chili í matvinnsluvél og lét ganga þar til allt var saxað smátt. Kryddaði með pipar, salti og sítrónusafa og þeytti ólífuolíunni saman við smátt og smátt. Smakkaði svo og bragðbætti eftir þörfum.
Þessa sósu má nota með ýmsum grillmat en líka út á pasta, kartöflur, salöt og ýmislegt grænmeti, eða sem ídýfu með pinnamat.
Og að lokum er það svo túrmerik-sinnepssósan.
Þessi sósa er góð með grilluðum fiski og ýmsu kjöti, svo og sem ídýfa með grænmeti og pinnamat.
Og hér eru þær svo allar aftur.