Og hér er sú síðasta (rímlaus)

Það rifjaðist upp fyrir mér allt í einu að ég átti víst eftir að birta síðustu uppskriftina úr lárperu- og reyksilungsseríunni og það er best að drífa það af (þótt ég hafi ekki fundið rím sem ég er ánægð með, það verður víst að hafa það). Annars hef ég í allt vor og sumar verið frekar upptekin í ýmsum verkefnum (jú, rétt til getið, tengjast flest mat) og hef ekki haft mikinn tíma til að sinna blogginu en það þýðir líka að ég á núna heilmikið af óbirtu efni að grípa í þegar ég hef tíma til að skrifa eitthvað hér.

En allavega, þetta er semsagt framhald af færslunni um snittur með lárperumauki og silungi og þeirri um silungs- og lárperusalsa á rúgbrauði, þar sem ég hef verið að leika mér við að gera ólíkar snittur en nota sömu grunnhráefni, semsagt lárperur og reyktan silung (nú, eða lax):

IMG_4263

Og nú er komið að snittunni sem er þarna lengst til hægri. Hún er ekki á brauði, heldur gúrkusneið og hentar því til dæmis fyrir þá sem vilja forðast brauðmeti. Auðvitað má líka nota gúrkusneið í staðinn fyrir brauð í hinar snitturnar – eða bera þessa fram á brauði.

IMG_4146

En ég byrjaði semsagt á því að búa til lárperumajónesið. Setti eina eggjarauðu í míní-matvinnsluvélina mína (það er að segja skálina sem fylgir töfrasprotanum, en það má líka nota sprotann bara beint, blandara eða venjulega matvinnsluvél, það er þó misjafnt hvað matvinnsluvélar ráða vel við svona litla skammta – svo er líka hægt að nota handþeytara en þá þarf að stappa lárperuna mjög vel áður en hún er sett út í), bætti við svona teskeið af nýkreistum sítrónusafa, pipar og salti og mældi 100 ml af olíu. Það má nota ýmsar tegundir af olíu en ég átti avókadóolíu og notaði hana til helminga á móti repjuolíu.

IMG_4148

Ég þeytti fyrst saman eggjarauðu, sítrónusafa, pipar og salt og þeytti svo olíunni saman við smátt og smátt, þar til majónesið þykknaði. (Yfirleitt geri ég allt mitt majónes sjálf , það er afskaplega auðvelt, svo ég hefði nú ekkert farið í mikinn mínus þótt Gunnar hefði rúllað endanlega).

IMG_4150

 

Ég tók svo eina vel þroskaða og mjúka lárperu (eða hálfa stærri, aðalatriðið er bara að hún sé vel þroskuð), skar hana í tvennt, flysjaði hana, fjarlægði steininn, skar hana í bita (nema eins og sést gleymdi ég mér og henti bara helmingunum út í og hún var svo mjúk að það kom ekkert að sök en það er nú samt betra að skera hana niður) og maukaði hana saman við.

Ef notaður er handþeytari þarf að byrja á að setja lárperubitana á disk og stappa þá mjög vel með gaffli, jafnvel pressa svo maukið gegnum sigti ef maður vill hafa það alveg slétt.

IMG_4152

Svo setti ég 1-2 skvettur af tabascosósu út í og bragðbætti með aðeins meiri sítrónusafa – um að gera að smakka sig áfram.

IMG_4154

 

Þá var komið að gúrkunum. Það má auðvitað hafa sneiðarnar bara alveg plein en mig langaði að skreyta þær aðeins svo að ég flysjaði ræmur af hýðinu með grænmetisflysjara.

IMG_4155

Svo skar ég þær í svona 3-4 mm þykkar sneiðar, setti svolítið af majónesinu á hverja til að festa áleggið, skar þunnar sneiðar af reyktum silungi, braut þær saman og setti ofan á …

_MG_4286

 

… setti væna doppu (kannski svona hálfa teskeið) af lárperumajónesinu ofan á og skreytti með steinselju (má nota aðrar kryddjurtir, t.d. kóríander eða dill).

 

Silungur og lárperumajónes á gúrkusneiðum

 

1 eggjarauða

½ sítróna

pipar

salt

100 ml olía (ég notaði blöndu af avókadó- og repjuolíu)

1 lítil lárpera, vel þroskuð

væn skvetta af tabascosósu eða annarri chilisósu

1 gúrka

100 g reyktur silungur eða lax

steinselju- eða kóríanderlauf

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s