Bíð ekki lengur eftir grillveðri …

Ég ætlaði að bíða með þessa uppskrift þar til kæmi betra veður – skemmtilegra grillveður og svona – en það er bara ekkert útlit fyrir að það gerist á næstunni svo að ég nenni ekki að bíða lengur, það er svosem alveg hægt að grilla þótt veðrið sé ekki ídealt til þess og mig minnir að ég hafi séð einhvers staðar frétt um að það hefði ekkert dregið úr sölu á grillkjöti þrátt fyrir veðurfarið. Ég veit reyndar ekkert um það, hef ekki keypt svokallað ,,grillkjöt“ í mörg ár.

Ég fór annars að hugsa um það áðan – sumarveðrið kom jú um hvítasunnuna og fór fljótt aftur. Ég var í Barcelona um hvítasunnuna og missti af því svo að kannski endar þetta með því að ég get sagt með réttu ,,ég var í útlöndum í allt sumar“. En við skulum nú vona að það verði ekki alveg svo slæmt.

Allavega, um síðustu helgi var nú heldur skárra veður en núna, sólarlaust að vísu og frekar dimmt yfir en ekki kalt og ekki hvasst. Svo að það var vel hægt að grilla en kannski ekki borða úti (en ég er nú ekki með aðstöðu til þess hvort eð er svo það skiptir engu máli). Og þá komu börn, tengdabörn og annað barnabarnið í mat – hitt var í Svíþjóð -og ég grillaði læri.

Þetta var ykkur að segja afskaplega vel heppnað læri og ég var ekki síst ánægð með útlitið á því, fyrir minn smekk var það alveg sérlega girnilegt (og bragðið reyndar alveg eftir því, það vantaði ekki). Ég setti mynd af því á Facebook og fékk læk á hana frá ýmsum Facebookvinum mínum, þar á meðal fyrrverandi veitingahúsagagnrýnanda New York Times – maður fær nú varla virðulegri meðmæli en það, er það nokkuð? Allavega, hér er uppskriftin.

_MG_6668

 

Ég kaupi alltaf ef ég get lambalæri sem eru þverskorin, ekki með þessum hefðbundna íslenska skurði þar sem hluti af mjaðmarbeininu fylgir með – finnst þau miklu þægilegri, auðveldara að skera þau og líta betur út. Þetta þarna var 2,2 kg og ég tók það úr kæli svona einum og hálfum tíma áður en það átti að fara á grillið.

Ég kveiksi svo á á grillinu, hafði það lokað og hitaði það vel. Á meðan kryddaði ég lærið á öllum hliðum með söxuðum nálum af 2-3 rósmaríngreinum, 1 tsk af kummini, pipar og salti (flögusalti, en það er svosem ekki nauðsynlegt). Enginn hvítlaukur, ekki í þetta skipti.

_MG_6677

 

Þegar grillið var orðið heitt (hitamælirinn í lokinu sýndi rúmlega 200°C) slökkti ég á brennaranum í miðjunni, setti lærið þar yfir, lokaði grillinu og grillaði kjötið við óbeinan hita. Ég er með lítið (en þó furðu stórt) Webergrill sem hentar einstaklega vel fyrir grillsteikingu af þessu tagi, það er einn beinn brennari í miðjunni og annar sem er svo allan hringinn.  Á grilli með þremur brennurum hlið við hlið má slökkva á miðbrennaranum, ef grillið er bara með tveimur brennurum er slökkt á öðrum og lærið sett þar yfir en þá gæti þurft að snúa því einu sinni svo að báðar hliðar grillist jafnt.

_MG_6684

 

Ég leit aðeins á lærið eftir hálftíma en annars er best að hafa grillið sem allra mest lokað og vera ekkert að hreyfa við lærinu. Í hvert skipti sem grillið er opnað tapast hiti og grilltíminn lengist aðeins. Tíminn fer annars eftir ýmsu, gerð grillsins og ekki síst loksins á þvi (lokið endurkastar hita niður á lærið svo það steikist ekki síður að ofan og maður þarf ekkert að snúa því), lofthita, vindi og fleiru. Ég fylgdist með hitamælinum á lokinu og passaði að hitinn væri  yfir 200°C allan tímann, hann var oftast í kringum 215

_MG_6686

 

En á meðan lærið var á grillinu hitaði ég ofninn í 200°C, skar svona 800 g af kartöflum (frönskum ratte-kartöflum en það má auðvitað nota aðrar tegundir, gjarna aflangar) í tvennt eftir endilöngu, skar 3-4 nípur í fjórðunga og setti þetta í eldfast mót ásamt ólífuolíu, 2-3 rósmaríngreinum, 2-3 timjangreinum, pipar og salti. Og mig minnir endilega að ég hafi stungið nokkrum hvítlauksflísum með en er ekki alveg viss og sé það ekki á myndinni  – en það sakar allavega ekki.

Svo ýrði ég 3-4 msk af ólífuolíu jafnt yfir, hrærði í og bakaði þetta svo í 435-40 mínútur, eða þar til kartöflurnar og nípurnar voru meyrar og farnar að taka lit.

_MG_6691

 

Ég grillaði lærið í rúman klukkutíma, eða þangað til hitamælir sem ég stakk í vöðvann þar sem hann var þykkastur sýndi rúmar 55°C – þá var lærið líka orðið regulega fallega brúnað, fannst mér. En hvergi brunnið. Tók það af grillinu og setti á bretti, fór með það inn, breiddi álpappír lauslega yfir og lét standa í svona 10 mínútur.

Á meðan gerði ég sósu – bara úr léttsteiktum lauk, smjöri, vatni, kjötkrafti (notaði blöndu af nauta- og villibráðarkrafti), púrtvínsskvettu og rjóma.

_MG_6700

 

Grænmetið var einmitt orðið vel meyrt og ég bar það fram með, ásamt sósunni og grænu salati.

_MG_6695

 

Þetta er nú bara frekar girnilegt læri, er það ekki? En fjölskyldan var orðin frekar svöng og mér gafst ekki tími til að mynda kjötið niðurskorið á diski. Það var vel bleikt og safaríkt í miðju, meyrt og mjúkt, eins og ég vil hafa það, og hvergi þurrt. En svo má auðvitað hafa það aðeins lengur á grillinu ef maður vill meira steikt.

 

Grillað lambalæri

1 lambalæri, 2,2-3 kg

2-3 rósmaríngreinar

1 tsk kummin

pipar

flögusalt

 

Bakaðar kartöflur og nípur

800 g kartöflur, helst aflangar

3-4 nípur (má sleppa)

rósmarín- og/eða timjangreinar

pipar

salt

e.t.v. 2-3 hvítlauksgeirar

3-4 msk ólífuolía

3 comments

  1. Ég er alveg sammála New York Times vini þínum. Þetta er nú með girnilegri lambalærum sem ég hef augum litið, maður verður bara næstum feiminn. Get rétt svo ímyndað mér að bragðið hafi verið eftir því gott! 🙂

  2. það mætti halda að himnanir hefðu ákveðið að hreinsa sig til svo við kæmumst nu ut að grilla þetta dásemdar læri

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s