Nei, veðrið – og veðurútlitið – eru enn ekki þess eðlis að ég fari að koma með grilluppskriftir eða eitthvað slíkt, held ekki … En ég steikti dálítinn bita af grísahrygg á laugardaginn og átti afgang, svona 300 g bita. Þegar svínakjöt er steikt hér á bæ er alltaf miðað við að eiga góðan afgang því þá er nefnilega hægt að búa til kúbverskar samlokur. Og það gerði ég.
Þangað til mjög nýlega stóð ég alltaf í þeirri meiningu að kúbverskar samlokur (eða kúbanskar ef maður vill það heldur) væri sama og media noche (miðnætursamlokur) en þetta er víst ekki nákvæmlega það sama – eini munurinn er samt brauðið, í medianoche er notað mjúkt og svolítið sætt brauð en í kúbverskar samlokur er yfirleitt notað hveitibrauð ekki ósvipað ciabatta. Ég hef reyndar notað ýmiss konar brauð í þessar samlokur í áranna rás en í þetta skipti notaði ég nú bara hamborgarabrauð, það var ekkert svo slæmt. Ciabatta hefði nú samt verið betra.
Innihaldið í bæði kúbverskum samlokum og medianoche er nokkur veginn það sama: svínasteik, skinka, ostur, sinnep (og stundum majónes) og súrsaðar gúrkur. Sumir setja líka salami í þær en mér skilst að það sé helst á þeim stöðum í Florida þar sem mikið er um fólk af ítölskum ættum. Og stundum er notað beikon í staðinn fyrir skinkuna, þó helst utan Kúbu og Florida.
Og þá er annars komið að deilumálinu – ja, eða óvissunni allavega – um upprunann. Það er nefnilega ekki á hreinu hvort samlokurnar urðu fyrst til á Kúbu eða meðal kúbverskra innflytjenda/farandverkamann syðst í Flórída, líklega fyrir svona einni öld, en þá var stöðugt flæði fólks þar á milli. Þær voru sennilega upphaflega nesti fyrir verkafólk í vindlaverksmiðjunum á Kúbu eða Key West (þar var íka mikil vindlaframleiðsla). Nú orðið eru þær trúlega mun algengari í Flórída og víðar í Bandarikjunum en á Kúbu; að minnsta kosti átti sonur minn í einhverjum erfiðleikum með að finna þær þegar hann var í Havana fyrir nokkrum árum.
Þær sem ég gerði í gær eru ekki alveg ekta og það var ekki bara brauðið sem gerði það; ég sleppti nefnilega súrsuðu gúrkunum, sonurinn (sem var í mat) vill þær ekki og mér finnst þær ekkert ómissandi. Jú, og svo var nú kannski eitthvað fleira sem var ekki alveg kórrétt, svo að þetta eru hvorki kórréttar kúbverskar samlokur né miðnætursamlokur. Köllum þær kvöldlokur.
Á veitinga- og skyndibitastöðum eru samlokurnar ristaðar í samlokugrilli og ef maður á öflugt samlokugrill eða panini-grill er það auðvitað ídeal en venjulegt heimilis-samlokugrill dugir ekki til (eða hefur ekki dugað mér allavega) svo ég beiti öðrum ráðum, sjá hér á eftir.
Ég tók semsagt þennan sirka 300 g bita af svínasteik og skar í frekar þunnar sneiðar. Svo tók ég áíka mikið af partískinku og skar lika i sneiðar. Það má alveg nota einhverja aðra góða skinku en ekki einhverjar plastsneiðar. Í rauninni á að vera álíka mikið af öllu, svínasteik, skinku og osti, en ég átti bara sirka 200 g af osti svo ég lét það duga og skar niður í þykkar sneiðar. Og það er best að notao ost sem er ekki alveg bragðlaus, þetta er ,,sterkur“ gouda.
Ég vil hafa bæði sinnep og majónes og finnst best að blanda því saman svo að ég setti svona 4 msk af majónesi og 2 msk af dijonsinnepi í skál og hrærði saman. Það má hafa önnur hlutföll ef maður vill. Svo notaði ég fjögur stór hamborgarabrauð og 2 msk af smjöri, en sleppti sursuðu smágúrkunum sem venjulega eru notaðar. Fjórar samlokur alltsvo – ein handa mér og tvær handa syninum i kvöldmatinn og ein handa mér í nestið í hádeginu.
Ég notaði svo 2/3 af sinnepsmajónesinu til að smyrja neðri hlutann af hverju brauði ríflega.
Ég byrjaði á að raða ostsneiðunum á brauðin og svo kom skinkan – þetta er alltaf sett í sömu röð, ostur, skinka, svinasteik. Einhvers staðar þarna á milli hefðu átt að koma nokkrar sneiðar af súrsaðri smágúrku en ég sleppti því semsagt.
Og síðast steikin semsagt. Svo smurði ég efri brauðhelmingana með afganginum af sinnepsmajónesinu og setti ofan á.
Á meðan ég var að þessu hafði ég hitað grillpönnu vel og brætt 2 msk af smjöri í litlum potti. Það má nota venjulega þykkbotna pönnu í staðinn fyrir grillpönnu (og auðvitað öflugt samlokugrill ef það er til).
Ég penslaði botninn á samlokunum vel með bræddu smjöri og setti þær svo á grillpönnuna …
… og penslaði efri hlutann með meira smjöri.
En það þarf að pressa samlokurnar vel svo að þær verði ekta og ef þær eru ristaðar á pönnu þarf að setja gott farg á þær. Ég tók stóru níðþungu steypujárnspönnuna mína, setti ofan á og þrýsti vel niður en það mætti líka nota léttari pönnu eða pott og setja eitthvað þungt (sem má hitna) ofan á.
Ég ristaði samlokurnar við ríflega meðalhita í 5-6 mínútur. Þá sneri ég þeim, setti fargið aftur ofan á og ristaði þær í 3-4 mínútur í viðbót. Það má líka hafa hitann heldur lægri og tímann lengri. Og svo má alveg vefja þær í álpappír áður en þær eru ristaðar, það er kannski þrifalegra, en mér finnst þær betri svona. Reglulega stökkar og fínar.
Svo bar ég samlokurnar fram með léttu salati.
Ekki slæmt, hefði verið enn betra með meiri osti …
Kúbverskar samlokur
4 ciabattabrauð, hamborgarabrauð eða önnur smábrauð
300 g svínasteik
300 g góð skinka
300 g bragðmikill ostur
nokkrar súrsaðar smágúrkur (sem ég sleppti)
4 msk majónes
2 msk dijonsinnep (eða eftir smekk)
2 msk bráðið smjör
Þessar samlokur eru búnar að vera standard hér á bæ frá því þú birtir uppskrift af þeim á gamla blogginu þínu. Hrikalega góðar. Ég nota yfirleitt beikon og börnin mín myndu ekki vera sátt við að sleppa smágúrkunum. En er ekki hamborgarabrauð einmitt mjúkt og svolítið sætt brauð?
Já, ég hef gert ýmsar útgáfur í gegnum árin; bæði skinka og beikon hafa sína kosti og það má jafnvel nota hvorttveggja. Hamborgarabrauð er ekki sætt, allavega ekki þessi tegund sem ég notaði, og ekki nógu mjúk heldur; ég er að tala um brauð þar sem eru egg, smjör og mjólk í deiginu, dálítið brioche-legt.