Gott án sykurs

Ég var eiginlega búin að plana að setja hér inn uppskriftina að lambalærinu sem ég grillaði í gærkvöldi og var alveg ljómandi gott, ykkur að segja. En svo sá ég veðurspána og hún er bara ekkert sérstaklega grillvæn, ekki fyrir næstu daga allavega, svo ég held ég geymi mér það aðeins.

Kannski má segja að spáin sé ekkert sérlega ísvæn heldur. En kosturinn við ís fram yfir grillað læri hvað þetta varðar er að veðurfarið hefur engin áhrif á matargerðina sem slíka og svo getur maður bara gætt sér á ísnum inni við og ímyndað sér að það sé sól og blíða og hiti og ég veit ekki hvað. Það er einhvernveginn erfiðara með grillmatinn. Jú, það er alveg hægt að grilla í roki og rigningu, þannig séð. En stemmningin verður bara ekki sú sama.

En ég fékk alltsvo fjölskylduna í kvöldmat í gær. Mínus dóttursoninn sem var að keppa á Gautaborgarleikunum í frjálsíþróttum og stóð sig svona líka ljómandi vel, náði besta eða næstbesta árangri íslensku 13 ára strákanna í öllum sex greinunum sem hann lauk keppni í (að vísu skal tekið fram að allir íslensku strákarnir klúðruðu hástökkinu rojallí og röðuðu sér í neðstu sætin) en þurfti að hætta keppni í 1500 m (þar sem hann þykir efnilegur) vegna meiðsla; var sjúkraþjálfaður svo rækilega um kvöldið að hann keppti í þremur greinum daginn eftir, stóð sig vel í öllum og bætti m.a. fyrri árangur sinn í langstökki um hvorki meira né minna en 63 cm.

Þetta var nú smávegis ömmumont. Ég get því miður ekki þakkað mér neitt af þessu, allavega hefur hann ekki erft íþróttagen eða -áhuga frá mér. En ég hef nú gefið honum mat af og til, það hefur kannski hjálpað. Kannski má þakka árangurinn hjónabandssælunni sem við bökuðum saman skömmu áður en hann fór út, hann át hana nokkur veginn einn og var ekki lengi að.

En þetta var útúrdúr því ég ætlaði að tala um ís. Ég er stundum að vandræðast með eftirrétti af því að hluti af fjölskyldunni er hættur að borða sykur – það er að segja viðbættan sykur, hverju nafni sem nefnist – og vill ekki sjá nein sætuefni (sem ég skil mjög vel, finnst alltaf eitthvert aukabragð og stundum óbragð af þeim) – en ávextir, ávaxtasafi án viðbætts sykurs og þess háttar er í fínu lagi. Mér finnst þetta mjög gott en gleymi því hins vegar stundum þegar ég er að plana hvað ég ætla að gefa þeim að borða og þá verður þrautalendingin að bjóða þeim bara upp á ber og ávexti. Ekkert að því auðvitað en stundum langar mig að gera eitthvað annað.

Og nú langaði mig að búa til ís og mundi eftir því nógu snemma. Svo að ég skrapp í Bónus og keypti eina flösku af bláberja- og hindberjasmoothie frá Froosh (enginn viðbættur sykur eða sætuefni), eina krukku af jarðarberjasultu frá Dalfour (enginn viðbættur sykur eða sætuefni) og 250 ml af rjóma. Og 450 g öskju af bláberjum. Heima átti ég egg og fleira þarf nú ekki til. Jú, eina teskeið af maizenamjöli reyndar en það átti ég líka heima.

_MG_6630

 

Ég byrjaði á að brjóta þrjú egg í skál og þeyta þau  vel.

_MG_6631

 

Svo setti ég 100 ml af jarðarberjasultunni út í og þeytti saman við.

_MG_6640

 

Stífþeytti 250 ml af rjóma í annarri skál, setti út í eggjablönduna og blandaði gætilega saman við með sleikju.

_MG_6642

 

Svo náði ég í ísvélina (sem er sjálfsögð eign á hverju menningarheimili eins og ég hef oft sagt), kveikti á henni og hellti ísblöndunni í hana.

_MG_6649

 

Ég lét vélina ganga í 1-2 mínútur og svo hellti ég 150 ml af berja-smoothie hægt og rólega út í. Ef notuð er ísvél sem ekki er hægt að bæta neinu við í á meðan hún er í gangi er betra að setja þetta í nokkrum skömmtum en allt í einu.

_MG_6652

 

Ég lét vélina ganga þar til ísinn var orðinn þykkur, það tók 15-20 mínútur (tekur styttri tíma ef allt hráefnið er vel kalt þegar byrjað er að vinna með það).

_MG_6658

 

Setti svo allt í box, lokaði og setti í frysti í a.m.k. 2 klst. Tók ísinn svo út svona 10 mínútum áður en ég ætlaði að bera hann fram.

Ég setti afganginn af smoothie-inu (100 ml) í pott ásamt svona 4 msk af sultu og hitaði að suðu. Hrærði 1 tsk af maizenamjöli út í 4 msk af vatni eða svo og hrærði saman við. Svo hellti ég þessu í litla könnu og lét kólna (best volgt eða hálfkalt, ekki ískalt).

_MG_6710

 

Svo losaði ég ísinn úr forminu og hvolfdi honum á fat, hrúgaði bláberjum ofan á eins og komust og dreifði afganginum í kring, hellti svolitlu af volgri sósunni yfir, skreytti með basilíkublöðum (af því að ég átti þau, en það er algjör óþarfi) og bar afganginn fram með.

Þetta var bara ansi góður ís. Bæði fyrir þá sem vilja forðast sykur og sykuræturnar. Og svo má örugglega nota aðrar bragðtegundir líka.

Sykurlaus? Það er skilgreiningaratriði. En enginn viðbættur sykur (hvorki hvítur sykur, hrásykur, hunang, agavesíróp né neitt annað) og engin sætuefni eða gervisykur.

 

Berjaís án sykurs

3 egg

100 ml jarðarberjasulta (eða önnur berjasulta) án viðbætts sykurs (Dalfour)

250 ml rjómi

150 ml bláberja- og hindberjasmoothie (Froosh)

 

Berjasósa

100 ml bláberja- og hindberjasmoothie (afgangurinn úr flöskunni)

4 msk berjasulta

1 tsk maizenamjöl

4 msk kalt vatn (sirka, mældi það reyndar ekki)

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s