Revenge is a dish best served cold er þekktur enskur málsháttur og mörgum finnst það sama eiga við um lárperur eða avókadó. Ég er voða lítið fyrir hefndir og þekki lítið til þeirra mála en það er vissulega nokkuð til í þessu með lárperurnar. Það á ekki að elda þær eða bera þær fram heitar. Það sem mér – og ég held flestum – finnst gott við lárperur (ef fólk kann að meta þær á annað borð) er mýktin og hún á helst að vera svalandi. Allavega ekki heit og smeðjuleg, það er ekki góð mýkt. Ekki í ósætum réttum að minnsta kosti. Og heitar lárperur tapa bragðinu og verða oft brúnar og afskaplega óspennandi.
Það eru samt til réttir þar sem er vel forsvaranlegt að blanda lárperum saman við eitthvað heitt og jafnvel hita þær dálítið (ef þær eru ekki bornar fram heitar). Það er til dæmis alveg í lagi að setja þær út á heita tex-mex-rétti eins og í tacos eða kássur. Út á, sagði ég, ekki út í. Ekki setja þær út í heita súpu, til dæmis, en fínt að bera þær fram með. Það má setja lárperusneiðar eða guacamole á ristað brauð en alls ekki setja lárperu á pítsu. Ég hef reyndar ekki prófað það sjálf en ég hef heyrt hryllingssögur.
En hér er samt uppskrift að steiktum eða grilluðum lárperum. Þær eru þó ekki bornar fram heitar og hitna raunar ekki í gegn þann stutta tíma sem þær eru á grillinu eða pönnunni, auk þess sem þær bíða svo í nokkrar mínútur á meðan tómatarnir eru steiktir. Þær eru því bara rétt volgar en fá í sig skemmtilegan grillkeim. Þetta gæti verið forréttur eða hádegismatur með góðu brauði og grænu salati. Ég bjó uppskriftina til i fyrir maíblað MAN og þar var hún fyrir fjóra en þessi er fyrir tvo (eða fjóra sem forréttur) því að það var sá skammtur sem ég útbjó fyrir myndatökuna, annars er ekkert mál að stækka hana eða minnka.
Upphaflega var meiningin að grilla þetta – ég var með grillþema í blaðinu – en svo var veðrið ekkert að leika við mig. Og ef maður er að gera eitthvað af þessu tagi eitt og sér, ekki t.d. sem forrétt fyrri grillmáltíð, þá er eiginlega út í hött að hita grillið fyrir lárperurnar einar, það er alveg eins hægt að setja þær bara á pönnuna – grillpönnu eða venjulega.
Ég tók sem sagt tvær litlar lárperur (þessar svörtu) en það mætti líka nota eina stærri og skera hana kannski í fjóra hluta. Aðalatriðið er bara að þær séu vel þroskaðar og mjúkar. Ég skar þær í tvennt og fjarlægði steinana en lét hýðið alveg vera. Svo penslaði ég skurðflötinn með dálítilli ólífuolíu og kryddaði með pipar og salti. Hitaði pönnuna (nú, eða grillið) vel, setti lárperurnar á það með skurðflötinn niður og steikti þær í 2-3 mínútur við háan hita. Sneri þeim ekki en ef þær eru skornar í fjórðunga eru auðvitað báðir skurðfletirnir steiktir.
Þá tók ég þær af pönnunni og setti þær á disk. Skar í sundur eina límónu og kreisti safann úr öðrum helmingnum yfir lárperurnar á meðan þær voru heitar.
Svo tók ég 3-4 vel þroskaða tómata og saxaði þá gróft. Ég notaði bara sömu pönnuna og ég hafði steikt tómatana á en ef ég hefði grillað þá hefði ég þurft að hita þykkbotna pönnu. Hellti 1-2 msk af ólífuolíu á pönnuna og hitaði, setti svo tómatana á hana og kryddaði með pipar og salti.
Ég steikti þá í 2-3 mínútur, eða þar til tómatarnir eru farnir að mýkjast, og hrærði oft á meðan. Svo saxaði ég lófafylli af steinselju, hrærði henni saman við og taktu af hitanum.
Svo er bara að setja 1-2 lárperuhelminga á hvern disk og ausa tómatblöndu í kring.
Og bera svo límónubáta fram með, ásamt góðu brauði og/eða grænu salati.
Grillaðar/steiktar lárperur með tómötum
2 litlar lárperur eða 1 stærri, vel þroskaðar
ólífuolía
pipar
salt
1 límóna
3-4 tómatar, vel þroskaðir
lófafylli af saxaðri steinselju