Litríkur fiskur

Tengdadóttirin var að koma frá Cambridge þar sem hún er í doktorsnámi og ég var búin að lofa henni góðum fiskrétti. Hún fær ekki mikið af svoleiðis þar um slóðir. Skoskur eldislax, stundum frosinn íslenskur þorskur sem hægt er að nota í plokkfisk, eitthvað svoleiðis. Og þar sem ég held töluvert upp á hana tengdadóttur mína (og þykir fiskur góður) finnst mér gott að geta gefið henni fisk þegar hún er heima.

Mér skildist að á leiðinni til mín hefðu hún og sonurinn verið á einu máli um að líklegast væri að þau fengju steinbít – sem var rétt. Kannski er ég svona fyrirsjáanleg. En ég held allavega mikið upp á steinbít.

Steinbíturinn var keyptur í Nóatúni og þar keypti ég líka vorlauksbúnt. Svo ákvað ég, af því að það er nú ekki á hverjum degi sem hún Tobba kemur heim, að punta upp á fiskinn með rækjum og ég keypti pakka af hráum risarækjum. Ég var nokkuð viss um að ég ætti ýmislegt heima sem mætti nota í góðan fiskrétt.

Það reyndist alveg rétt þegar ég skoðaði í ísskápinn; þar var ein gul og hálf rauð paprika, tæplega hálf krukka af piquillo-paprikumauki og dálítið af steinselju. Og smávegis rjómi í fernu. Og á eldhúsbekknum var bakki með kirsiberjatómötum sem voru búnir að standa þar í meira en viku og voru reglulega fallega rauðir og þroskaðir. Þetta var nú allt mjög litríkt og passaði ágætlega saman.

_MG_6597

 

Ég byrjaði á að fræhreinsa paprikurnar og skera þær í bita, ásamt hvíta og ljósgræna hlutanum af vorlauknum. Hitaði 1 1/2 msk af olíu á pönnu og lét þetta krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til paprikurnar voru farnar að mýkjast.

_MG_6598

 

Þá saxaði ég afganginn af vorlauknum og setti á pönnuna ásamt kirsiberjatómötunum. Kryddaði með pipar, salti og 1/2 tsk af þurrkuðu timjani og lét þetta krauma í nokkrar mínútur, þar til tómatarnir voru farnir að mýkjast upp.

_MG_6600

 

Þá hellti ég öllu af pönnunni á disk og setti til hliðar.

_MG_6602

 

Svo setti ég 2 msk af smjöri á pönnuna. Skar steinbítinn í stykki, kryddaði þau með pipar og salti og steikti við nokkuð góðan hita í um 3 mínútur. Þá sneri ég þeim og dreifði svo rækjunum á milli þeirra. Steikti fiskinn í 2-3 mínútur eftir þykkt og sneri á meðan rækjunum einu sinni til að steikja þær jafnt. Tók svo fiskinn og rækjurnar af pönnunni og setti á annan disk. Breiddi álpappír yfir.

_MG_6607

 

Svo setti ég grænmetið aftur á pönnuna og hrærði paprikumaukinu (um 75 g) saman við, ásamt 300 ml af vatni eða svo. Lét sjóða rösklega í 2-3 mínútur og hrærði svo rjómaskvettu saman við. Smakkaði og bragðbætti með pipar og salti og dreifði svo fiskinum og rækjunum yfir og bætti við smávegis steinselju fyrst ég átti hana.

_MG_6613

 

Hafði svo með þessu soðin hrísgrjón og grænt salat.

_MG_6616

 

Þetta var ykkur að segja alveg bara hreint ljómandi gott. (Og hefði sosum alveg verið það þótt ég hefði sleppt rækjunum.)

 

Steinbítur í paprikusósu

650 g steinbítur

1-2 paprikur

4-5 vorlaukar

1 1/2 msk olía

250 g kirsiberjatómatar, vel þroskaðir

1/2 tsk timjan, þurrkað

pipar

salt

2 msk smjör

200 g risarækjur (má sleppa)

75 g paprikumauk (piquillo eða annað)

300 ml vatn

skvetta af rjóma (svona 75 ml)

söxuð steinselja (má sleppa)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s