Það mun verða veislunni martí …

Þetta er framhald á færslunni frá í gær, hér kemur annað tilbrigði við þemað lárpera – reyktur silungur (eða lax). Þriðja útgáfan kemur svo á morgun og nú fatta ég að ég hefði auðvitað átt að geyma titilinn Pinnamatur í partí og nota einn frasa sem heiti á hverja af þessum þremur færslum – en jæja, það er auðvelt að vera vitur eftir á, ég verð bara að finna eitthvað annað á síðustu lárperureyksilungsfærsluna.

IMG_4190

Þrátt fyrir að aðalhráefnin séu þau sömu eru þessar snittur býsna frábrugðnar þeim í gær, í fyrsta lagi er grunnurinn rúgbrauð – en reyndar má auðvitað alveg nota snittubrauð eða annað brauð. Eða bera þetta fram á litlum salatblöðum, til dæmis. Og í stað þess að mauka lárperuna og hafa silunginn í sneiðum gerði ég eins konar salsa, skar allt í litla teninga. Úr þessu verður verulega litrík og falleg samsetning. Finnst mér allavega.

IMG_4130

Ég byrjaði á að taka svona 150 g af reyktum silungi og skera niður í litla teninga, kannski 1/2 cm á kant. Setti svo teningana í skál.

IMG_4136

Síðan fínreif ég börkinn af hálfri sítrónu og einni límónu yfir silungsbitana og kreisti svo safann úr báðum yfir og blandaði saman.

IMG_4138

Ég flysjaði svo eina litla, vel þroskaða lárperu (eða 1/2 stóra), skar hana í litla teninga og setti út í. Tók svo um það bil fjórðung af rauðlauk, saxaði smátt og blandaði saman við ásamt 1 1/2 tsk af kapers, sem ég var búin að skola úr köldu vatni, og kryddaði þetta með pipar og salti.

IMG_4145

Svo tók ég rúgbrauð (þetta er heimabakað, sjá hér, en það er auðvitað engin nauðsyn), skar það  í þunnar sneiðar og stakk svo tvær kringlóttar snittur úr hverri sneið. Ég notaði kökujárn en það má líka nota lítið glas eða eitthvað ámóta. Eða skera bara brauðsneiðarnar með hníf og hafa snitturnar ferkantaðar.

_MG_4226

Ég smurði hverja snittu með svolitlum sýrðum rjóma og hrúgaði svo laxablöndunni á þær. Það má auðvitað líka smyrja þær með smjöri eða kannski majónesi en mér finnst sýrði rjóminn passa best.

IMG_4268

Ég treysti mér ekki alveg til að segja hvað fást margar snittur úr þessu, það fer eftir því hvað þær eru stórar og þó enn frekar eftir því hvað maður hrúgar miklu á þær – mér finnst best að hafa vænan kúf.

 

Silungs- og lárperusalsa á rúgbrauði

150 g reyktur silungur eða lax

½ sítróna

1 límóna

1 lárpera, lítil, eða ½ stór

¼ rauðlaukur

1½ tsk kapers

pipar

salt

seytt rúgbrauð, skorið í þunnar sneiðar

sýrður rjómi

 

 

 

 

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s