Pinnamatur í partí …

Fyrir nokkrum árum gaf ég út smáréttabók með alls konar pinnamat, partíréttum og þess háttar. Ég er nokkuð ánægð með hana, allavega uppskriftirnar, en ef ég væri að gera hana núna myndi ég líklega setja hana dálítið öðruvísi upp. Ég áttaði mig í rauninni ekki á því fyrr en eftir á að ég hafði í raun verið að skrifa fyrir annað format en varð svo ofan á að nota. En ég er alltaf mikið fyrir girnilega smárétti og geri töluvert af svoleiðis, fyrir stærri veislur og minni partí og matarboð.

Bókin heitir – sörpræs – Smáréttir Nönnu. Það komu reyndar fram ýmsar tillögur um nafn en þessi varð ofan á, ætli markaðsdeild Forlagsins hafi ekki haft eitthvað um það að segja. Þau vilja hafa nafnið mitt, segja að ég sé vörumerki. Ég veit nú ekki hvað mér finnst um það … En ein af tillögunum um nafn sem kom fram var frá börnunum mínum, sem líta að vísu ekki á mig sem vörumerki (held ég) en bera hins vegar takmarkaða virðingu fyrir stöðu minni í íslenska matarheiminum og lögðu til að ég vitnaði bæði í Magga Mix og Heim í Búðardal og léti bókina heita ,,Pinnamatur í partí, eitthvað til að nartí, það mun verða veislunni martí“.

Ég bar þessa tillögu ekkert undir markaðsdeildina.

Nú er tími útskriftarpartíanna að vísu að mestu liðinn hjá en það verða nú einhverjar veislur í sumar og alltaf tilefni fyrir pinnamat og puttamat (eða hvað á nú að kalla það sem á ensku nefnist finger food). Ég var einmitt með slatta af svoleiðis í maíblaði MAN og á eftir að setja nokkrar af þeim uppskriftum hér á næstunni.

Og hér er sú fyrsta, að satay-kjúklingapinnum sem eru maríneraðir og grillaðir (eða steiktir á grillpönnu) og henta vel sem partíréttur en líka sem kvöldmatur. Úr þessum skammti ættu að verða 20–30 pinnar, fer eftir hvernig kjúklingabringurnar eru skornar.

Sataysósuna sem jafnframt er marínering má svo búa til og nota með ýmsum öðrum réttum, sem ídýfu, maríneringu eða sósu.

_MG_3727

Ég var með þrjár kjúklingabringur, frekar stórar, og byrjaði á að skera þær í tæplega 1 cm breiðar ræmur. Ég skar þær eftir endilöngu en það má líka skera þær þvert yfir, eftir því hvað maður vill hafa bitana stóra. Og ef bringan er þykk má líka skera hverja ræmu (eða þær þykkustu allavega) í tvennt eftir endilöngu. Svo kryddaði ég kjúklinginn með dálitlum pipar og salti.

_MG_3722

Síðan saxaði ég 2-3 hvítlauksgeira, 1 rautt chilialdin og 3-4 cm bút af engifer og setti í matvinnsluvél ásamt 300 g af hnetusmjöri og 150 g af jarðhnetum og lét ganga þar til þetta var orðið að grófu mauki. Þá kreisti ég safann úr 2 límónum út í og bætti við 2 msk af austurlenskri fiskisósu og 2 msk af hunangi, ásamt lófafylli af kóríanderlaufi.

_MG_3724

Svo endaði ég á að þeyta 400 ml af kókosmjólk smátt og smátt saman við.

_MG_3729

Ég tók um fjórðunginn af sósunni frá og setti í skál. Svo setti ég kjúklingaræmurnar út í, velti þeim vel upp úr blöndunni og lét standa í kæli í um 1 klst.
_MG_3734

Þá þræddi ég ræmurnar upp á teina (ef notaðir eru tréteinar og útigrill er best að láta teinana liggja í bleyti í hálftíma fyrir notkun). Það viðraði ekki alveg til útigrillunar daginn sem ég var að gera þetta svo að ég hitaði grillpönnuna mína, sem er mikið þarfaþing, en annars hefði ég kveikt á útigrillinu. Penslaði svo pönnuna (eða grillgrindina) með olíu og grillaði/steikti kjúklinginn við meðalhita í 8-10 mínútur, eða þar til hann var eldaður í gegn. Ég sneri pinnunum nokkrum sinnum á meðan.

Á myndinni sést í álpappír samhliða grillpönnunni. Ég legg oft samanbrotna álpappírsörk á grillgrindina eða við hlið pönnunnar (af því að ég er með gas) þegar ég grilla eitthvað á (tré)teinum til að hlífa teinunum við opnum eldi svo að minni hætta sé á að kvikni í þeim eða þeir sviðni illa.

IMG_3872

Svo eru pinnarnir bara bornir fram, heitir, volgir eða kaldir, ásamt sataysósunni. Og ef þetta á að vera meira en pinnamatur er upplagt að hafa soðin hrísgrjón og gott salat með.
IMG_4401
Sósan geymist svo í nokkra daga í kæli. Þessi er frekar mild en það má líka gera hana mun sterkari með meira chili og e.t.v. öðru kryddi eftir smekk. (Sósan á myndinni er reyndar ekki alveg sú sama og ídýfan, það er ívið minna af kókosmjólk í þessari og hún var því þykkari, en það er eini munurinn.)
.

Kjúklinga-sataypinnar og sataysósa

3-4 kjúklingabringur

pipar

salt

 

Sataysósan/maríneringin

300 g hnetusmjör

150 g jarðhnetur

2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir

1 rautt chilialdin, saxað

3-4 cm bútur af engifer, saxaður

safi úr 2 límónum

2 msk austurlensk fiskisósa

2 msk hunang, eða eftir smekk

lófafylli af kóríanderlaufi

400 ml kókosmjólk

 

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s