Brakandi ferskt og sumarlegt (og með beikoni, ekki skaðar það nú)

Það er orðið ár og dagur – eða ef ég á að vera nákvæm, líklega einir níu dagar – síðan ég skrifaði eitthvað hér síðast og fyrir því eru að minnsta kosti þrjár ástæður; fyrst var ég veik, svo var ég í útlöndum og svo er ég að deyja úr leti og ómennsku þessa dagana.

En það er komið sumar – eða kom einmitt þegar ég fór til Barselóna og er vonandi ekki alveg búið – svo að nú er rétt að setja inn sumarlega uppskrift. Klassískt salat sem er upplagður hádegis- eða jafnvel kvöldverður á sólríkum degi. Og í þetta salat (uppskriftin birtist fyrst í maíblaði MAN) notaði ég jöklasalat, aldrei þessu vant.

Ég er yfirleitt ekki sérlega hrifin af jöklasalati (iceberg) og tek aðrar tegundir oftast fram yfir. Einkum finnst mér það óspennandi þegar það er selt niðurskorið í pokum, eitt sér eða í salatblöndum, því það missir þá þann stökkleika og frískleika sem er helsti kostur þess. Þó er einn réttur þar sem mér finnst jöklasalatið virkilega njóta sín en það er klassískt amerískt geirasalat (wedge salad), þar sem salatblöðin eru hvorki skorin niður né losuð í sundur og halda því stökkleika sínum alveg þar til í munninn er komið – það er að segja ef salathöfuðið er brakandi ferskt.

Geirasalatið hefur líklega orðið til í Bandaríkjunum á fyrstu áratugum aldarinnar og er jafnvel eldra en jöklasalatið sjálft (sem var ræktað upp með kynbótum laust fyrir aldamótin 1900 og sló í gegn á þriðja áratug aldarinnar, þótt nafnið iceberg kæmi ekki fram fyrr en 1948). Í bandarískum matreiðslubókum frá þeim tíma er tekið fram að salatið eigi ekki að saxa eða losa blöðin sundur, heldur eigi að skera það í geira og bera fram þannig.

Sósurnar sem notaðar voru á geirasalatið voru af ýmsu tagi en áttu það flestar sameiginlegt að vera þykkar og rjómakenndar. Einna algengust var þó gráðaostssósa.

Geirasalatið var geysilega vinsælt í Bandaríkjunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en vék svo fyrir nýtískulegri salötum, meðal annars vegna þess að jöklasalatið fékk á sig orð fyrir að vera næringarsnautt – sem er þó alls ekki rétt, það inniheldur töluvert af vítamínum og steinefnum auk trefja, en er hins vegar vatnsríkara en önnur salöt og í því eru fáar hitaeiningar. Á síðustu árum er þó eins og það hafi gengið í endurnýjun lífdaga og í Bandaríkjunum bregður því nú æ oftar fyrir á veitingahúsum og í matreiðsluþáttum, stundum í nútímalegum útfærslum.

Þessi útfærsla er nokkuð klassísk en ég notaði t.d. sýrðan rjóma í stað súrmjólkur, sem er í hefðbundinni gráðaostssósu, og sparaði ekki beikonið til að gera úr þessu fullkomna létta máltíð – en það má nota minna beikon eða sleppa því alveg og nota t.d. léttristaðar hnetur í staðinn.

Eftir því sem ég man best fékk ég svona salat fyrst fyrir mörgum árum sem hádegismat á veitingastað í Búdapest of all places. Held samt að það hafi ekki verið neitt beikon í því.

_MG_3649

Það sem ég notaði í salatið og sósuna var 1 jöklasalatshöfuð, 175 g magurt beikon í þykkum sneiðum, svona 10 bústnir, knallrauðir kokkteiltómatar, 1/2 rauðlaukur, 3-4 vorlaukar, 80-100 g gráðaostur (ég notaði reyndar Stiltonost), 200 g sýrður rjómi, 36% eða mögulega 18% en alls ekki fituminni en það, 1 1/2 msk hvítvínsedik, salt, pipar og steinselja. Jú, og 2-3 dropa af tabascosósu sem ég gleymdi að hafa með á myndinni.

_MG_3662

Ég byrjaði á að steikja beikonið á pönnu þar til það var gullinbrúnt og stökkt, setti það á eldhúspappír, lagði meiri eldhúspappír ofan á og setti létt farg yfir til að pressa sem mesta feiti úr. Ég notaði að sjálfsögðu mína ágætu beikonpressu en það eiga nú ekki allir svoleiðis. Það mætti til dæmis setja pott eða pönnu ofan á.

 

_MG_3654

 

Á meðan beikonið var að kólna gerði ég gráðaostssósuna á salatið. Ég tók svona ¾ af gráðaostinum og setti í matvinnsluvél (eða blandara) ásamt sýrðum rjóma, ediki, 1 vorlauk, 2 tabascosósudropum, pipar og salti …

_MG_3655

… og lét ganga þar til blandan var nokkuð slétt. Ég þynnti hana með dálitlu ísköldu vatni þar til komin var fremur þykk salatsósa. Smakkaði og bætti við ögn af pipar og salti og einum tabascosósudropa í viðbót.

IMG_4412

Ekki það að sósan væri neitt bragðdauf, öðru nær: Osturinn sem ég notaði var ekki bara vel þroskaður Stilton, heldur vel þroskaður Stilton sem var á Þorláksmessuhlaðborðinu hjá mér og svo hafði krukkan með afganginum lent á bak við í ísskápnum og ég var nýbúin að finna hana. Svo að þetta var nokkuð mögnuð sósa. En venjulegur gráðaostur dugir nú alveg.

Ég setti sósuna í skál og muldi örlítinn Stiltonost yfir.

 

_MG_3664

Síðan skar ég stöngulinn af salathöfðinu og skar það svo í sex geira (eða fjóra ef það er lítið)  en tók það ekki í sundur í blöð, heldur lét geirana halda sér. Ég setti svo hvern geira um sig á disk (eða reyndar gerði ég bara einn geira því þetta var fyrir myndatöku og engir gestir væntanlegir). Svo má líka raða öllum geirunum í hring á fat.

Svo dreypti ég 2-3 matskeiðum af sósunni yfir hvern salatgeira.

_MG_3687

Síðan skar ég kokkteiltómatana í fjórðunga (eða í áttundu parta ef notaðir eru stærri tómatar, aðalatriðið er bara að þeir séu vel þroskaðir). Saxaði rauðlaukinn smátt og grófsaxaði afganginn af vorlauknum. Skar svo stökkt beikonið í bita.

Ég dreifði tómatbátum í kringum salatgeirana og stráði beikoni, rauðlauk, muldum gráðaosti og dálítilli steinselju yfir og í kring.

_MG_3716

Svo bar ég afganginn af gráðaostssósunni fram með, ásamt góðu brauði. Sannkallað sólskinssalat. Langbest ef jöklasalatið er kalt en tómatarnir við stofuhita.

 

Jöklasalatsgeirar með beikoni og gráðaostssósu

1 jöklasalatshöfuð

175 g magurt beikon (helst í þykkum sneiðum)

8-12 kokkteiltómatar

½ rauðlaukur

2-3 vorlaukar

steinselja

 

Gráðaostssósan

80-100 g gráðaostur (ég notaði Stilton)

200 g sýrður rjómi, 36 eða 18%

1½ msk hvítvínsedik

salt

pipar

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s