Ég er heima, hóstandi og bölvandi – jæja, bölva nú reyndar kannski ekki mikið en er ekki í sérlega góðu skapi því þetta er frekar vondur hósti og ég þarf frekar oft að hósta. Þegar ég er svona finns mér kaffi alveg svaðalega vont og get eiginlega ekkert drukkið nema heitt sítrónuvatn. Sem er svosem ágætt.
En þar sem ég sat og mjatlaði í mig sítrónuvatninu mínu datt mér í hug kaka sem ég bakaði fyrir páskana, þegar ég var með grískt páskaþema í MAN. Ég velti dálítið fyrir mér hver eftirrétturinn ætti að vera. Margir grískir eftirréttir eru dísætir og löðrandi í sírópi, oft gerðir úr blaðdeigi og hnetum. Ég ákvað að bjóða fremur upp á köku og sleppa blaðdeiginu, nóg að hafa það í spanakopitunni. Fyrir valinu varð grísk kaka sem kallast ravani. Hún er reyndar löðrandi í sírópi en þó ekki líkt því eins sæt og baklava og þess háttar eftirréttir og svo kemur sítrónan á móti, þannig að kakan verður bara býsna frískleg. Og góð er hún.
Ég er reyndar nýbúin að vera með sítrónueftirrétt en hann er nú allt allt öðruvísi og svo held ég mikið upp á sítrónur – þær eru eitt af þeim hráefnum sem ég reyni að eiga alltaf til því það er hægt að nota þær í svo ótalmargt, sætt og súrt.
Ravani er til er í ótal útgáfum. Oftast er semólínamjöl í henni en einnig eru til margar útgáfur með kókosmjöli og þetta er ein af þeim. Kakan sjálf er mjög einföld. Það er hægt að borða hana eins og hún kemur fyrir og setja e.t.v. krem á hana en yfirleitt er hún gegnvætt í sírópi, bragðbættu með sítrónu, appelsínu eða kanel. Stundum er hún líka skreytt með pistasíuhnetum.
Það er gott að hafa gríska jógúrt eða jafnvel hreint skyr með kökunni til mótvægis við sætuna en svo má líka hafa ís.
Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og hita hann í 175°C. Svo aðskildi ég tvö egg, setti eggjahvíturnar í hrærivélarskál og þeytti þær þar til þær voru hálfstífar, bætti 1 msk af sykri út í, stífþeytti þær svo og setti yfir í aðra skál.
Ég setti svo 225 g af linu smjöri í skálina ásamt 185 g af sykri (það eru semsagt 200 g af sykri í allt en ég var búin að nota 1 msk í hvíturnar). Hrærði sykur og smjör vel saman og hrærði svo eggjarauðunum saman við.
Svo blandaði ég saman 75 g af kókosmjöli, 100 g af hveiti og 1 tsk af lyftidufti í skál og reif gula börkinn af tveimur sítrónum fínt yfir.
Síðan blandaði ég eggjahvítunum og þurrefnunum gætilega saman við sykur-smjörblönduna með sleikju …
… setti deigið svo í smurt og pappírsklætt smelluform og jafnaði yfirborðið.
Svo bakaði ég kökuna á neðstu rim í ofninum í um 30 mínútur, eða þar til hún var orðin svampkennd og farin að losna frá börmunum. Lét hana kólna á rist. Þetta er reyndar ágætis kókossvampbotn og það má nota hann í ýmiss konar kökur. En ég var semsagt að gera ravani og á meðan kakan var í ofninum hafði ég gert sírópið.
Ég semsagt setti 100 g sykur, 100 ml vatn og safa úr 1 sítrónu í pott, hitaði rólega og lét malla þar til sykurinn var alveg uppleystur. Þá setti ég 50 g af pistasíuhnetum út í og lét malla í 1-2 mínútur í viðbót. Tók svo potitnn af hitanum og lét kólna.
Síðan setti ég kökuna á disk, jós sírópinu jafnt yfir hana með matskeið og reyndi að gæta þess að hún blotnaði öll og pistasíuhneturnar dreifðust sem jafnast.
Að lokum stráði ég dálitlu kókosmjöli yfir.
Mér finnst voða gott að hafa gríska jógúrt með þessari köku en það mætti líka vera t.d. sýrður rjómi, gjarna 36%.
Kókoskaka með sítrónusírópi og pistasíum – Ravani
2 egg, aðskilin
200 g sykur
225 g smjör, lint
75 g kókosmjöl og 1-2 tsk að auki ofan á kökuna
100 g hveiti
1 tsk lyftiduft
börkur af 2 sítrónum (eða appelsínum)
Sítrónusíróp með pistasíum
100 g sykur
100 ml vatn
safi úr 1 sítrónu
50 g pistasíuhnetur
[…] spanakopitu, ofnsteiktum kartöflum með fenniku, rauðrófusalati með jógúrt-skyrsósu og ravani (kókosköku með sítrónusírópi og pistasíum), en gríska páskabrauðið var eftir, það kemur sennilega einhvern næstu daga, og svo […]