Túrmerik er allra meina bót …

Það er nú ekki beint grillveður í dag, ekki hér á suðvesturhorninu allavega. Enda ætla ég ekki að grilla. Ég á bita af lambahrygg – líklega svona þriðjung – sem ég ætla að elda handa okkur einkasyninum, en hann fer nú líklega bara í ofninn. Ég er reyndar ekki alveg búin að ákveða hvað ég hef með honum en það er ekkert útilokað að það verði einhvers konar hrísgrjónapílaf og túrmerik-sinneps-skyrsósa, ég á nefnilega dálítinn afgang af túrmeriksinnepi sem ég gerði um daginn og notaði þá út í svona sósu.

Túrmerik er voða mikið í tísku núna, allt í einu búið að upgötva að það er svoddan ofurlækningajurt og allra meina bót og ég veit ekki hvað. Það er örugglega alveg meinhollt en ég notað það nú samt sem áður bara af því að mér þykir það oft eiga vel við sem krydd. Ég hef svosem ekkert pælt sérstakelga í því hvort ég hef verið eitthvað hraustari á túrmeriktímabilum á ævi minni en ella (það koma semsagt oft hjá mér tímabil þar sem ég nota eitthvert krydd oft og mikið, eitt af þeim er einmitt túrmerik). En það getur vel verið. Kannski kemst ég í túrmerikstuð núna, moka í mig túrmeriki næstu vikur og mánuði og verð eins og tvítug á ný.

Ef þið hafið áhuga á túrmeriki og vantar túrmerikuppskriftir, þá mæli ég með bók eftir tvær kunningjakonur mínar, þær Helen Saberi og Colleen Taylor Sen. Bókin er reyndar bara til sem rafbók, hún heitir Turmeric: Great Recipes Featuring the Wonder Spice that Fights Inflammation and Protects Against Disease. Colleen hefur skrifað mikið um indverskan mat og matargerð og Helen um afganskan, en hún bjó um árabil í Afghanistan. Í þessum heimshluta er túrmerik eitt algengasta kryddið og mikið notað í alls konar mat og drykk.

_MG_3436

 

Viðvörun: þetta er líklega of fjölmenningarlegt fyrir framsókarmenn.

_MG_3634

 

Ég byrjaði á að búa til sinnepið. Auðvitað er hægt að nota keypt sinnep í sósuna og hræra dálitlu túrmeriki saman við það til að fá gula litinn og bragðið. En það er afar lítið mál að gera eigið sinnep – svo má líka smakka sig áfram með ýmislegt krydd og aðra bragðgjafa.

Ég notaði 3 msk af sinnepsdufti, 1 msk af gulum sinnepsfræjum (en það má líka nota bara 1 msk í viðbót af duftinu), 1 msk af hlynsírópi, 1 tsk af túrmeriki, 1/2 tsk af salti, 2 msk af hvítvínsediki, má vera eplaedik, og svo kalt vatn eftir þörfum.

_MG_3636

Ég byrjaði á að setja sinnepsfræin í mortél og steyta þau en það má líka mala þau í kvörn, eða eins og ég sagði hér ofar, nota bara meira af duftinu.

_MG_3639

 

Svo setti ég sinnepsduftið út í mortélið, hrærði hlynsírópi, túrmeriki, salti og ediki saman við (ég notaði stautinn en auðvitað má líka setja þetta í skál og hræra með písk eða skeið) og þynnti með dálitlu köldu vatni.

_MG_3641

Sinnepið kann að virðast of þunnt fyrst en það þykknar dálítið þegar það stendur. Ég setti það svo í litla krukku og geymdi í kæli …

_MG_3643

… nema þann part sem ég notaði í skyrsósuna. Ég setti 150 g af hreinu skyri í skál ásamt 1 msk af sinnepinu (eða eftir smekk).

_MG_3644

Ég hrærði þetta vel saman og bætti svo við 1 msk af hlynsírópi (má líka nota t.d. hunang).

_MG_3648

Bætti svo við svona 2 msk af ólífuolíu og hrærði vel. Smakkaði og bætti við ögn af pipar og salti.

IMG_4418

 

Ég endaði svo á að strá örlitlu túrmeriki yfir til skrauts.

IMG_4417

 

Sósan er góð með ýmsum grillmat, bæði kjöti og fiski, og sem ídýfa, t.d með grænmeti eða grillpinnum. Og örugglega rosalega holl …

IMG_4473

 

Og svo má líka nota afganginn af sinnepinu á ýmsan hátt (þið sem komuð til mín á síðustu Þorláksmessu hafið kannski smakkað það með skinkunni).

 

Túrmerik-sinneps-skyrsósa

Túrmerik-sinnep:

3 msk sinnepsduft

1 msk gul sinnepsfræ (eða 1 msk í viðbót af dufti)

1 msk hlynsíróp

1 tsk túrmerik

½ tsk salt

2 msk hvítvínsedik

kalt vatn eftir þörfum

 

Sinneps-skyrsósa:

150 g hreint skyr

1 msk sinnep, eða eftir smekk

2 msk ólífuolía

1 msk hlynsíróp eða hunang

 

3 comments

  1. sá túrmerikrót í borði í fyrsta sinn í dag. Keypti reyndar ekki þar sem á matseðli vikunnar var ekkert sem kallaði á túrmerik. Ætla samt að prófa fljótlega.

    • Passaðu bara að nota hanska og ekki skera hana á hvaða bretti sem er, hún er litsterk og það getur verið mjög erfitt eða ómögulegt að ná litnum t.d. úr fötum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s