Hún er sko spænsk …

Sko, hér er svolítið móralskt vandamál: ég var langt komin að skrifa þessa uppskrift þegar það rann upp fyrir mér að það er svínakjöt í henni. Í chorizopylsunni alltsvo. Og á ég þá nokkuð að vera að birta hana? En reyndar er þetta spænsk chorizopylsa svo það er kannski í lagi. Ég veit reyndar ekkert um meðferðina á spænskum svínum. En aðalhráefnið er reyndar lamb svo að það kannski sleppur. Íslensk lömb fá nú tiltölulega góða meðferð. Nema þegar þau eru flutt mjög langar leiðir til slátrunar kannski …

Annars er líklega orðið nokkuð langt síðan ég var með svínakjötsuppskrift hér (að frátöldu villisvíni), það er að segja fyrir utan beikon, skinku og ýmislegt unnið svínakjöt sem er þá oftast lítill hluti af einhverjum rétti. Það er samt tilviljun, ég hef nokkrum sinnum eldað svínakjöt á síðustu mánuðum en bara ekki verið að mynda það eða skrifa niður uppskriftir. En kannski verður nú bið á því. Þó held ég nú ekki að svínabændur séu nein illmenni. Eða kannski, eins og maður nokkur orðaði það í mín eyru um daginn ,,jafnslæmir og hjólreiðamenn“. Og það var ekki hrós. Og ekki grín heldur.

Allavega, ég er búin að ákveða að spænsk chorizopylsa sleppi.

En sem sagt, um helgina langaði mig í lambahrygg. En við vorum bara tvö í mat mæðginin og þótt við séum átvögl er heill hryggur dálítið mikið fyrir okkur.

_MG_3257

 

En svo átti ég leið í Bónus og þar voru til hálfir hryggir. Eða líklega bara þriðjungar, þessi var rétt rúmlega 700 grömm. Svo að ég keypti hann.

Þerraði hann ögn með eldhúspappír og hitaði ofninn í 220°C.

_MG_3261

 

Ég tók beittan hníf og skar þrjár nokkuð stórar og djúpar raufar í kjötið hvorum megin.

_MG_3264

 

Svo skar ég svona 7-8 cm bút af spænskri chorizopylsu og skar hann svo í litla bita. Tók líka góðan slatta af timjani – það má nota ferskt eða þurrkað (og þá töluvert minna) en þarna var ég með hálfþurrkað – það er að segja, ég hafði keypt timjanplöntu í potti og notað hana mestalla á meðan blöðin voru fersk og falleg en það sem eftir stóð var farið að þorna og sölna en er jafngott krydd fyrir því. Svo að ég saxaði það og blandaði saman við.

_MG_3267

 

Ég kryddaði neðri hliðina á hryggnum með pipar og salti og setti líka smávegis í hverja rauf. Svo skipti ég chorizopylsunni og timjaninu í sex hluta og tróð einum hluta í hverja rauf.

_MG_3271

 

Svona. Svo stráði ég meiri pipar og salti yfir hrygginn.

_MG_3281

 

Setti hann svo í eldfast mót. Skar tvær bökunarkartöflur og þrjár nípur í geira – það mætti líka nota t.d. gulrætur eða annað rótargrænmeti – dreifði í kringum hrygginn, ýrði dálítilli ólífuolíu yfir og kryddaði grænmetið með pipar, salti og ögn meira af timjani. Setti þetta svo í ofninn og steikti í svona 35 mínútur …

_MG_3286

 

… eða þar til grænmetið var orðið vel meyrt og hryggurinn fallega brúnaður. Ég tók fatið út, breiddi álpappír yfir og lét standa í 8-10 mínútur. Á meðan væri örugglega upplagt að gera sósu en ég sleppti því reyndar, mér fannst nóg að hafa soðið úr fatinu með.

_MG_3309

 

Ég bar svo hrygginn fram með ofnbakaða grænmetinu, ásamt salati með tómötum og fetaosti.

Ekki slæmt.

 

Chorizofylltur lambahryggur

hluti af lambahrygg (700 g fyrir tvo)

biti af chorizopylsu

timjan

nýmalaður pipar

salt

2 bökunarkartöflur

2-3 nípur (eða annað rótargrænmeti)

2 msk ólífuolía

 

35 mínútur við 220°C.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s