Sumar á matarborðinu, allavega …

Sko, það er ekki komið sumar, ekki einu sinni að nafninu til, og veðrið í dag er með geðklofa – eða líklega frekar geðhvörf – eða klofinn persónuleika? Nei, líklega ætti ég ekki að fara neitt lengra með þetta; rifja frekar upp söguna um hvernig apríl fékk veðrið sitt, sem var í Lesbók barnanna (minnir mig) einhverntíma um miðjan sjöunda áratuginn. Apríl nefnilega svaf yfir sig þegar veðrinu var úthlutað og fékk ekkert svo að hinir mánuðirnir gáfu honum nokkra daga hver og þess vegna er aprílveðrið svona.

Þetta hefur mér alltaf þótt mjög trúleg saga. En kannski gleymdist einn apríldagur og þurfti að fá sýnishorn af veðri hjá öllum hinum 29; það mundi útskýra veðrið eins og það hefur verið í dag.

En það sem ég ætlaði að segja var að líklega var sól og frábært gluggaveður akkúrat á þeirri stundu þegar ég ákvað hvað ég ætlaði að elda mér í hádegismat. Þetta er fljóteldaður matur en veðrið breyttist að minnsta kosti sex sinnum á meðan ég var að elda og akkúrat þegar maturinn var tilbúinn og ég smellti nokkrum myndum af honum var enn og aftur komin glampandi sól og þetta varð voða sumarlegt allt saman. Og litirnir, maður minn. Svo kom náttúrlega haglél á meðan ég var að borða. En maturinn varð nú ekkert verri við það.

En svona fyrir utan veðrið, þá réðist nú matseldin aðallega af því hvað til var því ekki fer maður í búðina. Og ég átti 300 g af steinbít, hálfa dós af smjörbaunum (sem ég hafði opnað og notað að hluta í gær því miðinn datt af henni og ég vissi að ef ég opnaði hana ekki strax myndi ég steingleyma hvað væri í henni – hefði þá að vísu getað notað hana í einhverri óvissumatargerð en samt …) og svo átti ég afgang af basilíkusósunni sem ég notaði  með kjúklingaleggjunum í fyrradag.

_MG_0361

Og svo átti ég einhverja afganga sem ég þurfti að nota. Allt í anda nýtni og ,,hættum að henda“-stefnunnar sko. Þarna eru semsagt þessi 300 g af steinbít (nokkuð þykkt flak), hálf dós af smjörbaunum (sem má náttúrlega sleppa ef maður er í einhverju LKL-dæmi), kannski svona fjórar matskeiðar af basilíkusósu (það má nota pestó), hálf gul paprika, hálf sítróna, radísuspírur sem ég átti og voru að komast á tíma (má sleppa en þær eru flottar á diski, nei, ég keypti þær nú ekki hollustunnar vegna), þrír kokkteiltómatar (átti fjóra en einn hafði rúllað á bak við hrærivélina og ég fann hann ekki fyrr en ég var búin að elda), ein lítil lárpera, væn lófafylli af salatblöðum, ein matskeið af smjöri, ein matskeið af ólífuolíu, pipar og salt.

Eins og ég sagði, þetta er afganganýting og það má sleppa ýmsu eða skipta því út, allt eftir hvað maður á til.

_MG_0367

 

Ég skar steinbítinn í fjóra bita, kryddaði hann með ögn af pipar og salti. Hrærði svo ólífuolíunni saman við basilíkusósuna til að þynna hana og smurði svona teskeið af blöndunni á aðra hliðina á hverjum bita um sig.

_MG_0370

 

Svo bræddi ég smjörið á pönnu, setti steinbítinn á hana með basilíkuhliðina niður, smurði meiri basilíku ofan á bitana og steikti þá við meðalhita í um 2 mínútur.

_MG_0372

 

Ég steikti fiskinn áfram í svona 2 mínútur á hinni hliðinni og á meðan skar ég paprikuna í litla bita og tómatana í báta …

_MG_0379

 

Svo dreifði ég papriku, tómötum og baunum á pönnuna á milli fiskbitanna og lét krauma áfram í 3-4 mínútur, eða þar til fiskurinn var rétt eldaður í gegn, grænmetið byrjað að mýkjast og baunirnar heitar. Eftir svona 2 mínútur dreypti ég afganginum af basilíkusósunni yfir og hrærði gætilega.

Ef fiskbitarnir eru þunnir og steikjast í gegn áður en hitt er tilbúið má taka þá af pönnunni og setja á disk (ég gerði það reyndar hvort eð var því ég vildi setja þá ofan á hitt á fatinu).

_MG_0399

 

Svo tók ég fat, dreifði salatblöðunum í hring en hafði eyðu í miðjunni, flysjaði lárperuna, skar hana í bita og dreifði þeim yfir, hellti baununum, grænmetinu og sósunni í miðjuna, setti fiskbitana ofan á og kórónaði allt með radísuspírunum.

Þetta er nú ansi hreint sumarlegt, er það ekki? En kannski of grænt fyrir suma. Ég er dálítið fyrir græna litinn.

_MG_0418

 

Og sólin skein … En þetta var nú bara býsna góður matur, skal ég segja ykkur.

_MG_0440

Þetta mundi passa fyrir tvo, held ég (kannski aðeins meiri fiskur þá). Eða fyrir einn og nóg í nestið daginn eftir. En reyndar er frídagur á morgun svo ég finn kannski eitthvert annað hlutverk fyrir afganginn – ekki er ég að fara að henda honum, allavega.

 

Basilíku-steinbítur með baunum og grænmeti

300-400 g steinbítur

pipar

salt

4 msk basilíkusósa (eða pestó úr krukku, en heimagerð sósa er betri)

1 msk ólífuolía

1 msk smjör

1/2 paprika

nokkrir vel þroskaðir kokkteiltómatar (eða 2 venjulegir)

1/2 dós smjörbaunir (eða aðrar baunir)

væn lófafylli af salatblöðum

1 lítil lárpera, vel þroskuð

smávegis af radísuspírum (má sleppa)

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s