Sítrónuleggir

Ég var búin að gera ráð fyrir syninum í mat og átti til kjúklingaleggi handa okkur, var reyndar ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera við þá en það átti allavega að vera slatti af bökuðu rótargrænmeti og einhver sósa sem ég ætlaði að setja saman og láta malla með kjúklingnum og grænmetinu í ofninum. En svo lét hann vita að hann kæmist ekki. Ég þurfti samt að elda leggina því þeir voru eiginlega komnir á tíma en ákvað að gera eitthvað einfaldara fyrst þetta var bara fyrir mig; sleppa grænmetinu og hafa bara salat og nota basilíkusósu sem ég átti í ísskápnum.

Þrátt fyrir það eru nú átta kjúklingaleggir fullmikið fyrir mig eina þótt ég sé átvagl og ein ástæðan til þess að ég eldaði leggina ekki í sósu var að ég ætla að nota afganginn í kjúklingasalat í hádeginu á morgun. Þá finnst mér betra að þeir séu ekki löðrandi í bragðsterkri sósu. Ég kryddaði þá hins vegar vel og miðaði við að þeir pössuðu í salat en ef manni finnst kryddið of sterkt þegar til kastanna kemur má bara taka haminn af þeim, það tekur nú töluvert af kryddinu.

_MG_0108

 

Ég byrjaði á að hita ofninn í 225°C. Svo tók ég lítið, eldfast mót, hellti 2 msk af ólífuolíu í það og raðaði kjúklingaleggjunum í það. Svo blandaði ég sama 1/2 tsk af kummini, 1/2 tsk af chilikryddi (ekki chilipipar, heldur kryddblöndunni, en mætti líka bara nota papriku), 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salti. Stráði helmingnum af blöndunni á kjúklingaleggina, sneri þeim og kryddaði hina hliðina.

Svo skar ég ég eina sítrónu í báta, kreisti safann úr tveimur þeirra yfir kjúklingaleggina en stakk hinum á milli þeirra. Tók líka hálfan rauðlauk af því að ég átti hann, skar í bita og dreifði á milli, en það er hreint ekki nauðsynlegt.

_MG_0151

 

Ég setti kjúklinginn svo í ofninn og steikti hann í um 35 mínútur.Þá var hann fallega brúnn og alveg gegnsteiktur en vel meyr og safaríkur.

_MG_0152

 

Vegna sítrónunnar (og rauðlauksins – og auðvitað safa úr kjúklingnum) ætti að vera slatti af bragðgóðu soði í fatinu og það má einfaldlega ausa því yfir kjúklingaleggina á diskinum og nota sem sósu …

IMG_4306

En ég átti dálítið af þessari sósu – þetta er einföld basilíku-steinseljusósa sem minnir á pestó en inniheldur þó hvorki hnetur né ost. Í henni er lófafylli (væn) af basilíku og önnur af steinselju, kannski ekki alveg eins væn, 2 hvítlauksgeirar, 1/4 rauðlaukur (eða vejulegur), 1/2 tsk rautt chilialdin, saxað smátt (má vera meira) – þetta er allt sett í matvinnsluvél eða blandara og saxað smátt, bragðbætt með 1 msk af sítrónusafa (eða eftir smekk), pipar og salti og svo er 100 ml af ólífuolíu þeytt saman við smátt og smátt.

_MG_0167

Geymist í nokkra daga í ísskáp og hentar sem sósa með ýmiss konar grillmat og steikum, sem ídýfa með grænmeti eða pinnamat og bara ofan á brauð.

_MG_0177

Þannig að ég hafði sósuna með kjúklingnum og svo bara gott salat og brauð. Og á nógan afgang í hádegismat á morgun eða hinn daginn.

 

Sítrónusteiktir kjúklingaleggir með basilíkusósu

8 kjúklingaleggir

2 msk ólífuolía

1/2 tsk kummin

1/2 tsk chilikrydd

1/2 tsk timjan

pipar

salt

1 sítróna

1/2 rauðlaukur (má sleppa)

35 mínútur við 225°C.

 

Basilíkusósa

væn lófafylli af basilíkublöðum

lófafylli af fjallasteinselju eða klettasalati

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

¼ rauðlaukur, saxaður (má vera venjulegur)

½-1 tsk rautt chilialdin, saxað smátt

nýmalaður pipar

salt

1 msk nýkreistur sítrónusafi

100 ml ólífuolía

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s