Það líður að páskum og þá er kannski kominn tími fyrir hátíðamat af einhverju tagi. Reyndar er ég ekkert búin að ákveða hvað ég hef í páskamatinn, það hefur aldrei verið neitt fast hja mer og getur alveg farið eftir veðri – kannski eitthvað grillað ef það brestur á rjómablíða um páskana en reyndar sýnist mér ekkert í veðurspánni sem gefur nokkra minnstu von um það, líklega frekar þvert á móti.
Þannig að líklega verður nú eldað inni við þessa páskana. Ég er reyndar heldur ekki búin að kanna hverjir koma í páskamatinn og ef það verða til dæmis bara ég og sonurinn er ekkert ólíklegt að það verði einhver steik í minni kantinum, kannski til dæmis kalkúni – það er að segja kalkúnabringa.
Heill kalkúni er ekki hátíðamatur sem hentar fyrir lítil heimili – það er annaðhvort að bjóða stórfjölskyldunni í mat eða safna saman öllum uppskriftum sem finnast að réttum úr kalkúnaafgöngum og lifa á þeim fram á næsta ár – en þá er upplagt að hafa kalkúnabringu, heila eða bara annan bringuhelminginn, og það er heldur ekki sérlega dýr matur, gæti alveg verið sunnudagsmatur.
Þetta dugir fyrir þrjá til fjóra – eða tvo ef maður vill hafa afganga. Og það er alveg hægt að hafa fyllingu ef maður vill en og það er þá best að baka hana sér í formi. Sem ég geri reyndar líka þegar ég er með heilan kalkúna og hafði með þessari bringu þegar ég eldaði hana fyrir jólablað MAN – uppskriftin að fyllingunni sem ég notaði þá hefur komið hér áður og hana má finna hér.
En ég var semsagt með kalkúnabringuhelming, 1,2 kg eða svo, nokkar rósmaríngreinar, nokkrar timjangreinar, 4 hvítlauksgeira, 1 tsk af svörtum piparkornum, 1 tsk af flögusalti, 1 tsk af kummini (má sleppa) og 2 1/2 msk af olíu.
Ég byrjaði á að taka nálarnar af rósmaríninu og laufin af timjaninu, saxaði hvítlauksgeirana, setti þetta í matvinnsluvél með kryddinu og 2 msk af olíu og bjó til mauk.
Ég smurði svo maukinu vel á allar hliðar kalkúnabringunnar og lét hana standa í kæli í nokkra klukkutíma (a.m.k. 1 klst., en má alveg vera í 6−12 klst.).
Ég tók svo bringuna úr kæli og lét hana standa við stofuhita í svona hálftíma. Hitaði svo ofninn í 160°C. Síðan tók ég pönnu, setti ½ msk af olíu á hana og hitaði og brúnaðu bringuna á öllum hliðum við meðalhita.
Síðan setti ég bringuna í eldfast mót og setti hana í ofninn í um 50 mínútur, eða þar til kjöthitamælir sem stungið var í miðja bringuna sýndi 72°C.
Ég tók bringuna svo út og lét hana standa í um 10 mínútur, á meðan ég bjó til sósuna. Ég hellti 350 ml af heitu vatni í steikarfatið og skafðu botninn til að losa um skófir. Síaði soðið svo í pott og hrærði 2-3 tsk af kjúklingakrafti, 2 msk af púrtvíni og 150 ml af rjóma saman við. Lét malla í nokkrar mínútur, smakkaði og bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum. Ég þykkti sósuna örlítið með sósujafnara en hún á að vera þunn.
Hér er bringan bara með sósu, fyllingu (sérbakaðri) og grænu salati en auðvitað má hafa alls konar meðlæti með henni.
Kalkúnabringa með kryddjurtahjúpi
1−1,2 kg kalkúnabringa
nokkrar rósmaríngreinar
nokkrar timjangreinar
4 hvítlauksgeirar
1 tsk piparkorn, möluð
1 tsk saltflögur
1 tsk kummin (má sleppa)
2½ msk olía
Kalkúnasósan
350 ml vatn, heitt
2-3 tsk kjúklingakraftur
2 msk púrtvín (má sleppa)
150 ml rjómi
pipar og salt