Einhvers konar fjúsjon …

Eitt af því sem mér finnst skemmtilegt við matargerð (ókei, reyndar finnst mér flest skemmtilegt við matargerð en þetta er með því skemmtilegra) er að gera tilraunir með að blanda saman einhverju gömlu og hefðbundnu og einhverju öllu nýstárlegra, eða nota nýjar aðferðir við að elda eitthvað gamalkunnugt (grilluð svið og svoleiðis). Kvöldmaturinn minn núna í kvöld var einmitt dæmi um blöndun af þessu tagi, steikt slátur með salati úr léttsýrðum grænmetisræmum, chili, sölvum og rauðrófuspírum. Mér fannst það fara bara býsna vel saman.

En þetta er nú ekki uppskrift að því (aldrei að vita samt nema salatið komi einhverntíma seinna), heldur að annarri svona blöndu sem ég útbjó nýlega handa mér – nota bene, flest sem ég geri af þessu tagi er bara handa mér, ég er ekkert að bjóða fjölskyldunni upp á tilraunastarfsemi af þessu tagi. Þau eru nú ekkert endilega hrifin af ýmsu þessu gamla og hefðbundna og það af því sem þau borða vilja þau oftast helst hafa eins og það hefur alltaf verið, enga tilraunastarfsemi, takk.

En ég nefndi það um daginn að mér áskotnaðist saltkjöt og fleira frá Skjöldólfsstöðum á Jökuldal. Þar á meðal voru heimagerð kindabjúgu. Nú hafa bjúgu fengið á sig fremur neikvætt orð á seinni árum og vissulega á mikið af þeim bjúgum sem seld eru í verslunum það fullkomlega skilið. En svo þarf nú alls ekki að vera. Mér þóttu bjúgun sem framleidd voru í kjötvinnslu Kaupfélags Skagfirðinga hér áður fyrr ágæt (veit reyndar ekkert hvort ég kynni að meta þau núna) en sperðlarnir sem mamma gerði voru mun betri. Þetta var ekki sama vara og hét heldur ekki sama nafni; bjúgu voru keypt, sperðlar heimagerðir.

Bjúgun frá Skjöldólfsstöðum líkjast reyndar bjúgum meira en sperðlum hvað útlitið varðar en þetta er meiri gæðavara en það sem almennt fæst í búðum núna. Hér ætla ég að vísu að slá þann varnagla að ég hef ekki smakkað allar bjugnasortir á markaðnum og sumt er vafalaust betra en annað. Og svo má líka nota ýmsar útlenskar og innlendar pylsur (t.d. ýmislegt frá Pylsumeistaranum) í þessari uppskrift. En þessi eru semsagt alveg ágæt.

Það þarf að byrja á að sjóða þau, ég lét þau malla við mjög hægan hita í svona 45 mínútur, fannst það hæfilegt. Reyndar sauð ég tvö og borðaði annað heitt, alveg hefðbundið, með kartöfluuppstúfi og grænmeti:

_MG_2572

 

Hitt bjúgað kældi ég og geymdi svo í ísskápnum í tvo eða þrjá daga.

_MG_3448

 

Svo ákvað ég að útbúa salat. Tók bjúgað, væna lúkufylli af blönduðum salatblöðum, tvær hálfa paprikur (rauða og gula), 10 ólífur, steinselju – og fyrir sósuna hreint skyr (svona 150 g), grófkorna sinnep (var ekki viss hvað ég ætlaði að nota mikið), 1 tsk af hlynsírópi, 2 msk af ólífuolíu, pipar og salt.

_MG_3450

 

Ég byrjaði á að fræhreinsa paprikurnar og skera þær í litla bita.

_MG_3451

 

Svo blandaði ég paprikubitum, salatblöðum, steinselju og ólífum (skornum í tvennt) saman á diski.

_MG_3454

 

Svo tók ég bjúgað, skar það í fjórðunga eftir endilöngu og síðan í sneiðar.

_MG_3459

 

Svo bjó ég til sósuna: hrærði hlynsírópinu saman við ásamt pipar og salti. Byrjaði á að hræra einni kúfaðri teskeið af sinnepinu saman við, smakkaði og ákvað að þetta þyldi alveg aðra teskeið.

_MG_3462

 

Svo hrærði ég ólífuolíunni saman við og þynnti aðeins með köldu vatni.

_MG_3476

 

Svo bar ég salatið fram með sósunni.

_MG_3495

 

Þetta var nú alveg ágætt bara.

Svo má auðvitað setja ýmislegt annað út í salatið, t.d. gulrætur, vorlauk, soðnar kartöflur í teningum, kjúklingabaunir eða aðrar baunir, kryddjurtir og margt fleira.

 

Bjúgnasalat með sinneps-skyrsósu

1 gott bjúga, soðið

1/2 rauð og 1/2 gul paprika

væn lúkufylli af blönduðum salatblöðum

10 ólífur

lófafylli af fjallasteinselju, grófsaxaðri

150 g hreint skyr

1-2 tsk grófkorna sinnep, eða eftir smekk

1 tsk hlynsíróp

2 msk ólífuolía

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s