Önnur gulrótauppskrift … Við fáum sendingar frá Ávaxtabílnum í vinnuna og ávextirnir eru nú yfirliett frekar fljótir að fara en í vetur hafa stundum verið að koma stórar gulrætur sem ekki hafa verið mjög vinsælar, þær hafa oft litið frekar illa út þótt bragðið sé í lagi og þótt þær séu í lagi þegar þær koma eru þær fljótar að láta á sjá. Þannig að þegar er útséð með að einhver borði þær kippi ég þeim stundum með heim, af því að mér er meinilla við að henda mat, og geri eitthvað úr þeim og kem svo kannski með það i vinnuna aftur. Allavega þegar það eru kökur.
Og einhverntíma í vetur var til góður slatti af gulrótum, ekkert sérlega snoppufríðum en í fínu lagi samt, sem enginn vildi líta við svo að ég sá fram á að þeim yrði hent ef ég gerði ekkert við þær. Fór með þær heim og gerði gulrótasúpu úr hluta af þeim en svo tók ég annan hluta og notaði í gulrótaköku. Eða döðlu-gulrótaköku, án viðbætts sykurs af því að ég baka dálítið af svoleiðis kökum nú orðið. Það var reyndar meira af gulrótum en ég er búin að gleyma hvað ég gerði við það.
Auðvitað kemur sætan í kökunni fyrst og fremst úr döðlunum, sem eru mjög sykurauðugir ávextir, en það er svolítill sykur í gulrótunum líka. Ekki samt mjög mikill; mig minnir að í 1 1/4 kg af gulrótum sé álíka mikill sykur og í hálfs líters kókflösku. Ég drekk ekki lengur gosdrykki nema í undatekningartilvikum og mundi því eiga í litlum vandræðum með að velja hvort ég kysi fremur – og svo eru gulræturnar stútfullar af hollefnum sem vega upp á móti, það verður víst ekki sagt um kókið. En jújú, fullt af ávaxtasykri í döðlunum. Og einhver hollefni þar til mótvægis … Hvað sem því líður er þetta ágætis kaka og alveg nógu sæt fyrir mig.
Jú, og svo er hún náttúrlega með heilhveiti og ólífuolíu, ekki dregur það nú úr hollustunni ef maður er í svoleiðis pælingum. Uppskriftin birtist fyrst í marsblaði MAN.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 165°C. Svo tók ég 400 g af döðlum, steinhreinsaði þær og maukaði þær í matvinnsluvél . Það mætti líka saxa þær mjög smátt með hníf ef maður á ekki matvinnsluvél eða blandara.
Svo braut ég þrjú egg og setti þau í skálina með döðlumaukinu, hellti síðan 150 ml af ólífuolíu yfir og þeytti þetta saman.
Síðan setti ég 225 g af heilhveiti, 1 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 1/4 tsk af salti, 1 1/2 tsk af kanel og 1/2 tsk af negul út í og hrærðu saman. Best er þó að hræra sem minnst, rétt til að blanda deiginu saman.
Að lokum flysjaði ég gulræturnar og reif þær síðan á rifjárni, fremur gróft, og blandaði þeim svo saman við deigið með sleikju. Þetta græna á myndinni er alltsvo sleikjan en ekki eitthvert dularfullt grænt jukk sem ég setti út í kökuna. Þótt mér hefði alveg verið trúandi til þess.
Ég setti svo deigið í meðalstórt jólakökumót og sléttaði yfirborðið. Ég smurði mótið ekki (það er húðað og á ekki að þurfa þótt þess þurfi víst stundum þegar eitthvað á að heita non-stick) en ég klippti til bökunarpappírsblað sem passaði á botninn og setti í mótið áður en ég hellti deiginu í það, finnst það alltaf vissara.
Svo setti ég kökuna í ofninn, á neðstu rim, og bakaði hana í um 45 mínútur, eða þar til prjónn sem stungið var í hana miðja kom hreinn út. Ég lét hana kólna í forminu smástund og hvolfdi henni svo úr …
… og lét hana kólna alveg á rist.
Kakan er ágæt ein og sér en ekki síðri með smjöri.
Döðlu-gulrótakaka (án viðbætts sykurs)
400 g döðlur
3 egg
150 ml ólífuolía
225 g heilhveiti
1½ tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
¼ tsk salt
1 ½ tsk kanell
½ tsk negull
250 g gulrætur
165°C í um 45 mínútur.
Notarðu blásturinn þegar þú bakar svona brauð á neðstu rim?
Nei, ég nota svo til aldrei blástur en mundi taka fram ef ég gerði það.
Mjög gott kökubrauð, setti epli í stað gulróta. Takk!