Vel bakað …

Ég rakst á rúllu af smjördeigi í ísskápnum í dag, sem ég hafði alveg gleymt að ég ætti. Leit á dagstimpilinn og sá að það var útrunnið fyrir nokkrum dögum – reyndar þónokkrum en ég hef reynslu af því að dagsetningu á smjördeigi þarf nú ekkert að taka rosalega alvarlega. En ég ákvað samt að gera eitthvað úr því. Ég var fyrst að hugsa um að gera bara pekanhnetuvínarbrauð eða eplaböku eða eitthvað hefðbundið en svo mundi ég allt í einu eftir hugmynd sem mig langaði að prófa – þetta er afbrigði af enskri Bakewell-böku og svona kökur heita örugglega eitthvað á íslensku en hugsunin hjá mér er ekki alveg í lagi því ég er svo kvefuðu og ég man ekki nokkurn skapaðan hlut þessa dagana …

Bakewell-baka, eða Bakewell tart, er eiginlega sambland af böku og köku, með bökubotni, sultu (eða ávaxtamauki) og svo er svampkökudeig sem inniheldur möndlur sett ofan á og þetta bakað. Þetta er mjög þekkt baka og til í alls konar útgáfum sem eru þó yfirleitt ekkert mjög ólíkar. Nú orðið er reyndar eiginlega alltaf notað bökudeig (mördeig) í botninn en upphaflega var notað smjördeig og það var einmitt það sem mig langaði að prófa fyrst ég átti það nú til.

Nafnið Bakewell hefur reyndar ekkert með bakstur að gera, bakan er kennd við smábæinn Bakewell í Derbyshire, sem upphaflega mun hafa heitið Beadeca’s Well eða Brunnur Beadecu (hver sem hún var nú). En þetta bakast allavega ágætlega.

Ég notaði heimatilbúið hindberjamauk en það ma líka nota önnur ber, eða þá tilbúna sultu.

 

_MG_2682

Ég byrjaði á því að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C. Svo rúllaði ég sundur smjördeiginu og náði í meðalstórt bökumót. Sennilega hefði nú verið enn betra að nota lausbotna bökumót en ég finn ekki botninn úr mínu … _MG_2686

Ég lagði deigið yfir mótið og snyrti kantana með hníf. Rúllan er ekki nógu breið til að deigið nái alveg yfir mótið en er hins vegar lengri en þarf svo ég skar ræmur af endunum, lagði þær á kantana þar sem á vantaði og þrýsti þeim saman við hitt deigið. Svo klippti ég út hring úr bökunarpappír sem passaði á botninn og setti botn úr bökuformi (nei, ekki þann sem ég finn ekki, þótt það væri nú eftir mér) ofan á til að halda deiginu niðri meðan ég forbakaði bökuskelina. Ef slíkt er ekki til má reyna að pikka botninn vel með gaffli og leggja svo bara pappír ofan á. Setti þetta svo í ofninn og stillti klukkuna á 12 mínútur. _MG_2687

Á meðan setti ég 250 g af frosnum hindberjum í pott með 25 g af sykri, safa úr 1/2 sítrónu og 1 msk af vatni, hitaði að suðu og lét malla í 10-12 mínútur. Það má alveg nota aðeins meiri sykur en ég vildi ekki hafa hindberjamaukið dísætt. _MG_2689

Þegar ofnklukkan hringdi tók ég bökuskelina út, fjarlægði fargið og bökunarpappírinn og setti bökuskelina svo aftur í ofninn í 5 mínútur. _MG_2693

Ég tók svo 80 g af sykri og 100 g af smjöri og hrærði vel saman. Það hefði verið betra ef smjörið hefði verið lint en ég hafði gleymt að taka það úr kæli (kvef og minnisleysi, sjáið til) svo ég skar það í bita til að það hrærðist betur. Svo þeytti ég tveimur eggjum saman við deigið.   _MG_2713

Ég fínmalaði svo 60 g af möndlum og blandaði saman við 100 g af hveiti, 3/4 tsk af lyftidufti og fínrifinn börk af 1 sítrónu. Hrærði þessu saman við deigið.

_MG_2718

Svo tók ég bökuskelina úr ofninum, hellti hindberjamaukinu í hana og drefið henni jafnt.

_MG_2724

 

Svo setti ég deigið ofan á í smáslettum (notaði sleikju en það má líka nota skeið). Það þarf alls ekki að þekja maukið, reyndar væri það svolítið erfitt af því að maukið var frekar þunnt en ef maður notar sultu er líklega auðveldara að smyrja því.

Svo setti ég bökuna í ofninn og bakaði hana í 22 mínútur eða svo.

_MG_2736

 

Deigið rennur meira og minna saman í bakstrinum en sumstaðar getur alveg skinið í ávaxtamaukið og það myndar þá mynstur í kökunni.

_MG_2774

 

Þetta var nú bara ekkert slæm baka.

 

Bakewell-baka

1 rúlla smjördeig (Wewalka)

250 g frosin hindber

25 g sykur

safi úr 1/2 sítrónu

1 msk vatn

100 g smjör

80 g sykur

2 egg

100 g hveiti

60 g möndlur, fínmalaðar

3/4 tsk lyftiduft

fínrifinn börkur af 1/2 sítrónu

 

22 mínútur við 180°C.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s