Blankheitabuff

Eins og ég hef áður sagt, það er stór kostur við febrúar hvað hann er stuttur. Ekki síst vegna þess að maður er gjarna skítblankur í febrúar – ég er það reyndar ekki aldrei þessu vant en það er ekki vegna óvenjulegrar hagsýni minnar – og það er ágætt að hafa nokkrar hræódýrar uppskriftir á takteinum. Þessi hér er í ódýrari kantinum og hægt að hafa hana enn ódýrari, til dæmis er ekki bráðnauðsynlegt að nota ferska steinselju, þetta bragðast alveg ágætlega án hennar. En ég notaði hana af því að ég átti hana til.

Það er nefnilega gott að geta sniðið sér stakk eftir vexti – eða öllu heldur, valið sér uppskriftir og lagað þær til eftir efnahag eða því sem maður á. Og stundum alveg nauðsynlegt. Ég hef einhverntíma sagt að til þess að geta skrifað alminlega um sparnað í matargerð og ódýrar uppskriftir þurfi maður eiginlega að hafa upplifað það að eiga þúsundkall í veskinu þegar tíu dagar eru eftir af mánuðinum. Það er ástæða til þess að ég man enn að hrefnukjöt kostaði 600 krónur kílóið á útmánuðum 1979; það var þrefalt ódýrara en til dæmis nautahakk og var í matinn hjá okkur mæðgunum þrjá daga í viku. Og gjarna svartfugl á sunnudögum, hann kostaði litlu meira. Hina dagana var oft bara skyr og brauð. En ég vildi að ég hefði kunnað fleiri aðferðir þá til að elda hrefnukjöt og svartfugl, Ég missti lystina á því í mörg ár á eftir. Hrefnunni allavega.

En þetta hér er fljótlegur og auðveldur réttur og líklegt að mestallt hráefnið sé til í skápunum. Ja, mínum allavega. Skammturinn ætti alveg að duga fyrir tvo ef höfð eru t.d. hrísgrjón með, eða þá soðnar kartöflur eða bakaðar sætar kartöflur. Uppskriftin var í janúarblaði MAN.

IMG_7064

Þetta eru semsagt túnfiskbuff og ég notaði eina dós af túnfiski (í olíu; það má alveg nota túnfisk í vatni en mér þykir sá í olíunni betri). Svo átti ég til 1 lauk, 1 sæmilega stóra soðna kartöflu, ½ rautt chilialdin, 1 egg, lófafylli af steinselju (en það má alltsvo sleppa henni), 1 límónu (má líka nota 1/2 sítrónu), pipar, salt, 100 ml af raspi (ég notaði panko, er með dellu fyrir því þessa dagana, en það má bara nota venjulegt þurrt brauðrasp), 4-5 msk af maískornum (ég notaði frosinn maís sem ég á nú oftast til en það má líka nota niðursoðinn) og svo átti ég til 200 g af kokkteiltómötum sem ekki eru á myndinni; þeir eru reyndar eiginlega meðlæti og það má alveg nota venjulega tómata – þurfa að vera vel þroskaðir – eða bara eitthvað annað grænmeti. Eða sleppa því.

Jú, og svo olíu að steikja úr.

IMG_7066

Ég byrjaði á að saxa laukinn gróft og fræhreinsa chilialdinið og saxa það. Setti þetta í matvinnsluvélina ásmat steinseljunni, reif börkinn af límónunni yfir og lét vélina mauka þetta saman.

IMG_7069

Ég hellti olíunni af túnfiskinum (það má nota hana til að steikja úr en ég geri það þó yfirleitt ekki) og flysjaði soðnu kartöfluna og skar hana í bita. Setti túnfisk og kartöflu í matvinnsluvélina ásamt eggi, pipar og salti  og maukaði vel saman.

IMG_7075

Svo hrærði ég raspinu saman við. Smakkaði og bætti við pipar og salti eftir þörfum. Það mætti líka bragðbæta með safa úr límónunni ef manni sýnist svo. Blandaði að lokum maísnum saman við með sleikju (ekki láta matvinnsluvélina gera það, maískornin eiga helst að vera heil).

IMG_7077

Ég mótaði svo fremur lítil en þykk buff úr farsinu – 6-7 er hæfilegt, þetta urðu sjö buff hjá mér. Hitaði svo dálitla olíu á pönnu og setti buffin á hana.

IMG_7084

Ég steikti buffin við meðalhita þar til þau voru fallega brún á báðum hliðum og heit í gegn. Skar kokkteiltómatana í tvennt (stærri tómata í báta) og setti á pönnuna þegar ég var búin að snúa buffunum. Ég tók svo buffin af pönnunni þegar þau eru tilbúin og hélt þeim heitum en steikti tómatana ögn lengur, þar til þeir voru vel meyrir.

IMG_7095

Ég hafði nú bara salatblöð með, auk tómatanna, en það má líka hafa t.d. soðin hrísgrjón, kúskús, kartöflur eða soðið eða steikt grænmeti.

IMG_7138

Svo mætti líka hafa með þessu kalda sósu úr hreinni jógúrt eða sýrðum rjóma, söxuðum kryddjurtum, pipar, salti og e.t.v. hvítlauk.

Þessi buff eru ágæt köld eða upphituð og henta því vel sem nesti í vinnuna.

 

Krydduð túnfiskbuff

1 dós túnfiskur

1 laukur

1 soðin kartafla

½ rautt chilialdin (má vera minna)

1 egg

3-4 msk söxuð steinselja (má sleppa)

rifinn börkur af ½ límónu eða sítrónu

pipar

salt

100 ml rasp (panko eða þurrt brauðrasp)

4-5 msk maís, frosinn eða úr dós

200 g kokkteiltómatar eða 2-3 vel þroskaðir tómatar,

olía til steikingar

One comment

  1. Takk fyrir þessa uppskrift kæra Nanna. Er að fara að elda hana í annað sinn í kvöld… eða hugmyndafræðilega séð 🙂 Endilega meira af svona snilldar blankheitaruppskriftum. Er klár á að það hjálpar mörgum að gera gott og girnilegt úr litlu.

    Kveðja
    Ágústa

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s