Ég baka oft kökur af ýmsum tilefnum. Stundum er tilefnið reyndar bara það að mig langar í köku, það er út af fyrir sig alveg fullgilt. En ég fór nú að hugsa um það eftirá að það hefði vissulega verið heilmikið tilefni til að baka köku í gær því þá var í fyrsta skipti opnuð sýning á verkum mínum – nei, ég hef nú ekki verið að mála málverk eða neitt svoleiðis, þetta var semsagt sýning á matreiðslubókunum mínum – öllum fimmtán – sem er búið að setja upp á veitingahúsinu Friðrik V á Laugavegi. Aldrei hafði mér nu dottið í hug að þær mundu duga í sýningu en viti menn, þær taka sig ljómandi vel út þarna á veggjunum. Finnst mér allavega. Gaman að þessu.
Þannig að nú er um að gera að fara og fá sér kræsingar hjá Friðrik V og dást að matreiðslubókunum mínum í leiðinni …
Eins og ég segi, þetta hefði alveg verið tilefni til kökubaksturs. En ég bakaði ekkert, Friðrik sá um veitingarnar í opnunarteitinu. Ég aftur á móti bakaði köku í dag, algjörlega að tilefnislausu.
Það falla stundum til gulrætur í vinnunni. Nei, þær eru ekki aukaafurð í bókaútgáfu en við fáum sendingu frá Ávaxtabílnum vikulega og einhvernveginn vill svo til að gulrætur eru ekki mjög vinsælar, ekki þessar stóru. Annað mál með litlu snakkgulræturnar, þær klárast venjulega, en þessar stærri verða gjarna eftir og skemmast stundum eða verða svo ljótar að það vill örugglega enginn líta við þeim. Ég ætlaði að taka með mér gulrætur úr vinnunni á föstudaginn og gera eitthvað við þær en steingleymdi þeim svo – það var tiltektardagur og pítsur og bingó á eftir og ég steingleymdi að taka gulræturnar þegar ég fór heim.
En svo áttaði ég mig á því í dag að ég átti sjálf gulrætur sem ég þurfti að fara að nota. Svo að ég ákvað að baka bara samt gulrótaköku.
Þessi er alls ekki sykurlaus en þó ekki sérlega sæt og ég setti ekkert krem á hana. En ef þið viljið sætari köku má auðvitað setja eitthvað á hana – kannski bara glassúr úr flórsykri hrærðum út með mandarínu- eða appelsínusafa, eða þá krem úr rjómaosti, smjöri, flórsykri og rifnum mandarínu- eða appelsínuberki (og e.t.v. safa) eða kannski bara vanillu.
Þetta var allt rosalega appelsínugult/gulbrúnt. Nema hveitið og lyftiefnin; ég hefði kannski notað heilhveiti ef ég hefði átt það til. En í staðinn notaði ég 275 g hveiti, 1 ½ tsk lyftiduft, 1 tsk matarsóda, 175 ml af olíu, 200 g af gulrótum (vigtaðar eftir að ég var búin að snyrta þær og flysja), 150 g af púðursykri, 1 tsk af kanel, 1/2 tsk af engiferdufti, 1/4 tsk af negul, 3 egg, 2 mandarínur (eða 1 litla appelsínu) og 125 g af þurrkuðum apríkósum.
Ég byrjaði á að stilla ofninn á 165°C og rífa gulræturnar fremur fínt. Svo setti ég egg, olíu og púðursykur í hrærivélarskál og þeytti þetta vel saman.
Svo setti ég hveiti, lyftiefni, krydd og gulrætur út í …
… og reif svo börkinn af mandarínunum út í (bara ysta, gula lagið).
Ég skar svo mandarínurnar í tvennt og kreisti safann í skálina. Þær voru ekki mjög safaríkar en ef svo hefði verið hefði ég kannski látið safann úr annarri duga. Deigið á þó að vera fremur blautt. Ég hrærði það svo rólega saman. Best að hræra sem minnst, bara rétt eins og þarf til að allt blandist nokkur veginn.
Ég tók svo meðalstórt jólakökuform, klippti til bút af eldhúspappír og setti á botninn (ég geri þetta alltaf, líka þótt ég sé með húðað form, þau eru ekki alltaf eins viðloðunarfrí og þau eiga að vera, en mér finnst yfirleitt óþarfi að klæða eða smyrja hliðarnar á forminu). Ég hellti deiginu í formið og jafnaði því út með sleikju.
Ég setti svo kökuna á neðstu rim í ofninum og bakaði hana í um 45 mínútur, eða þar til prjónn sem ég stakk í hana kom hreinn út. Lét hana kólna í nokkrar mínútur í forminu.
Losaði hana svo úr og lét hana kólna á grind. Síðan hefði ég getað sett glassúr eða krem á hana en gerði það semsagt ekki.
Mér finnst hún nefnilega alveg ágæt bara eins og hún kemur fyrir.
Gulrótakaka með apríkósum
3 egg
150 g púðursykur
175 ml olía
200 g rifnar gulrætur
275 g hveiti
1 ½ tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk kanell
½ tsk engiferduft
¼ tsk negull
2 mandarínur (eða 1 lítil appelsína)
100 g þurrkaðar apríkósur, saxaðar
165°C í 45 mínútur.