Súpa sem yljar oní tær

Það er ansi hreint napurt hér í 101 í dag og ég geri ráð fyrir að það sama gildi um úthverfin (ég er svo mikil miðborgarrotta að fyrir mér er allt utan 101 úthverfi, enda hef ég búið í því póstnúmeri í 35 ár og unnið hér næstum jafnlengi, að frátöldu þessu eina og hálfa ári sem ég neyddist til að fara upp á Höfða í vinnu og hálfu ári sem ég vann í Síðumúlanum, ótilneydd), Stór-Reykjavíkursvæðið og sennilega landið allt. Næðingur og skítakuldi, semsagt.

Og þá er nú gott að fá heita og nærandi súpu. Súpan sem ég ætla að setja uppskrift að hér er reyndar ekki ættuð frá köldu norrænu landi, þvert á móti, hún á rætur að rekja til Portúgal – en það getur nú líklega orðið kalt þar líka svosem og þar er þetta aðallega vetrarsúpa. Afskaplega einföld en góð og næringarrík. Súpan er upprunnin í Norður-Portúgal en er nú borðuð um allt land og oft talin þjóðarréttur Portúgala. Þessi uppskrift birtist í janúarblaði MAN en nú er nýtt blað einmitt að koma í búðir á morgun. Ég hef reyndar verið með uppskrift að caldo verde áður en hún var dálítið öðruvísi og meðal annars notaði ég grænkál.

Í Portúgal er notað ýmiss konar kál, gjarna græn kálblöð sem kallast ,,collard greens“ á ensku og ég veit ekki alveg hvað á að kalla á íslensku en líka grænkál og svo blöðrukál (savoykál). Og það vildi einmitt svo til að ég átti blöðrukálshöfuð sem ég ákvað að nota. Annað sem er alltaf í súpunni er kartöflur og laukur og gjarna hvítlaukur og kryddpylsa. Í Portúgal er líklega oftast notuð pylsa sem heitir linguiça (eða þá chouriço) en ég átti engar portúgalskar pylsur en átti aftur á móti spænska chorizopylsu og hún dugir alveg. Og i mangel af bedre má nota pepperóní.

grænkál

Blöðrukál er hvítkálsafbrigði sem stundum fæst hér í búðum, einkum að vetrarlagi því þetta er vetrarkál, er algengast á norðurslóðum á tímabilinu frá nóvember fram í mars eða apríl. Blöðin eru hrokkin og þau ytri eru dökk- eða fagurgræn en innri blöðin ljósari. Blöðrukál geymist ekki eins vel og hvítkál og það er mikilvægt að láta það halda ystu blöðunum, jafnvel þótt ekki sé ætlunin að nota þau, því þau hlífa innri blöðunum gegn vökvatapi. Blöðin eru mun mýkri og meyrari en þau líta út fyrir og það má borða kálið hrátt  í salötum ef það er fínsneitt. Blöðrukál, bæði hrátt og eldað, er bragðmildara og bragðbetra en hvítkál.

Það má sjóða kálið – en ekki of lengi – fimm mínútur eru yfirleitt kappnógur tími – gufusjóða það, gufusteikja og ofnsteikja, skera í ræmur og pönnusteikja eða veltisteikja í wok. Það hentar vel í kálböggla eða til að vefja um hrísgrjón og annað grænmeti fyrir eldun.

IMG_7173

Ég notaði þó ekki allan kálhausinn, heldur svona 200-250 g. Fjarlægði ystu blöðin og kjarnann. Svo notaði ég eina stóra bökunarkartöflu, 2 lauka, 2 hvítlauksgeira, svona 100 g af chorizopylsu (líklega helminginn af pylsunni á myndinni), 1 1/2 msk af ólífuolíu, 2 lárviðarlauf, pipar, salt, 2 tsk af grænmetiskrafti og 1 l af vatni. Jú, og svo notaði ég smávegis af steinselju af því að ég átti hana til en hún er mjög langt frá því að vera nauðsynleg.

IMG_7175

Ég byrjaði á að saxa laukinn og fínsaxa hvítlaukinn. Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu í potti og lét lauk og hvítlauk krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var glær og farinn að mýkjast.

IMG_7177

Á meðan laukurinn kraumaði hafði ég flysjað kartöfluna og skorið hana í fremur litla teninga og nú setti ég þá í pottinn ásamt lárviðarlaufum, pipar og salti. Hellti vatninu yfir, hrærði grænmetiskrafti saman við, hitaði að suðu og lét  malla í um 10 mínútur, eða þar til kartöflurnar voru meyrar.

IMG_7187

Á meðan kartöflurnar mölluðu skar ég pylsuna í sneiðar – svona ½ cm þykkar – og hitaði svo ½ msk af olíu á pönnu, raðaði pylsusneiðarnar á hana og brúnaði þær á báðum hliðum.

IMG_7180

 

Svo skar ég kálið í mjóar ræmur. Best að hafa þær ekki of langar, kannski 5-7 cm.

IMG_7190

Þegar kartöflurnar voru orðnar meyrar notaði ég töfrasprota til að mauka þær að hluta og þykkja þannig súpuna dálítið en best er að það séu líka kartöflubitar í henni. Það má líka nota kartöflustappara. Svo má auðvitað láta hana kólna örlítið, mauka hana í matvinnsluvél og hita hana upp aftur en þá er hætt við að hún verði of fín (sumir vilja samt hafa hana þannig, en ég vil hafa hana grófa).

IMG_7193

Svo setti ég kálræmurnar og pylsubitana út í og lét malla rólega í 5 mínútur. Alls ekki lengur, það er ekki gott að ofsjóða kálið.

IMG_7226

Svo er bara að bera súpuna fram rjúkandi heita með góðu brauði.

IMG_7270

Þetta er sko almennileg vetrarsúpa.

 

Portúgölsk kálsúpa með kryddpylsu

Fyrir 4

2 laukar

2 hvítlauksgeirar

1½  msk ólífuolía

2 lárviðarlauf

1 stór bökunarkartafla

pipar

salt

1 l vatn

2 tsk grænmetiskraftur

100 g chorizopylsa, mild pepperóní eða önnur kryddpylsa

200 g blöðrukál (einnig má nota grænkál)

e.t.v. steinselja

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s