Hvolfkaka á réttum kili

Mig langaði í köku með kaffinu. Reyndar langaði mig bara í eina sneið svo það má alveg segja að það sé vel í lagt að baka þá heila köku, en ég átti nú líka von á fjölskyldunni í kvöldmat svo að ég ákvað að baka þá köku sem ég gæti gefið þeim með kaffinu á eftir líka. Það er að segja þeim hluta fjölskyldunnar sem ekki sneiðir algjörlega hjá sykri …

Ég gáði í ísskápinn. Þar var bakki með litlum perum sem ég keypti fyrir nokkrum dögum, upplagt að nota þær og baka einhvers konar peruköku. Mig langaði í eitthvert afbrigði af tarte tatin. Kannski ekki alveg hefðbundna samt. Svo að ég tíndi til eitt og annað sem ég vildi nota. Var ekki með uppskrift svo þetta breyttist aðeins á meðan ég var að undirbúa kökuna.

Ég hafði reyndar ætlað að baka kökuna á pönnu eins og maður gerir við tarte tatin en eftir að vera búin að horfa nokkra stund á pönnusafnið mitt (sem er allnokkuð að vöxtum) rann upp fyrir mér að ég á enga pönnu sem mér finnst ídeal fyrir svoleiðis. Sumar voru ekki af réttri stærð, aðrar ekki af réttri lögun eða ekki úr réttu efni … Spurning hvort þetta kallar á nýja fjárfestingu. En ég notaði þá bara kökuform. Meðalstórt springform.

IMG_0237

Ég byrjaði á að taka til perurnar og efni í karamelluna á botninum. Ég tók fimm litlar perur (bætti reyndar einni við seinna), 100 g af púðursykri, 40 g af smjöri og 50 g af valhnetum. (Svo bættist við þetta, meira um það rétt bráðum.)

IMG_0239

Ég setti púðursykurinn og smjörið í pott, hitaði rólega og hrærði oft á meðan þetta var að bráðna.

IMG_0240

Þegar karamellan var alveg slétt og farin að freyða vel blandaði ég grófsöxuðum valhnetum saman við.

IMG_0242

En svo áttaði ég mig á að karamellan var of dökk og þykk og ef ég hefði hellt henni á botninn á kökuforminu hefði hún aldrei runnið út og þakið hann, bara setið eftir í kekkjum. Svo að ég hrærði 4 msk af rjóma saman við, lét malla aðeins og hellti svo karamellunni í formið og dreifði úr henni. Reyndi að hafa hnetubitana fremur jafnt dreifða.

IMG_0248

Ég lét karamelluna svo bíða í forminu á meðan ég undirbjó perurnar og hrærði deigið  – það gerir ekkert til þótt hún storkni alveg, hún bráðnar aftur þegar hún fer í ofninn (já, ég kveikti á honum og hitaði í 175°C).

Svo flysjaði ég perurnar, skar þær í tvennt og stakk kjarnann úr þeim með kúlujárni (en það má líka nota teskeið).

IMG_0250

Svo raðaði ég peruhelmingunum ofan á karamelluna og hneturnar. Bætti einni peru við til að geta haft þær þéttar saman.

IMG_0253

 

Þá var það deigið: Ég hrærði fyrst saman 100 g sykur og 100 g smjör og þeytti svo þremur eggjum saman við, einu í einu, ásamt 1 tsk af vanilluessens. Blandaði saman 175 g af hveiti og 1 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af matarsóda, 1/4 tsk af salti og hrærði þessu saman við ásamt 100 ml af hreinni jógúrt. Deigið á að vera frekar þykkt.

IMG_0257

 

Svo setti ég deigið ofan á perurnar og karamelluna. Setti mest í miðjuna og dreifði því svo út á perurnar en lét það ekki ná alveg út að hliðum formsins. Setti kökuna svo í ofninn og bakaði í um hálftíma.
IMG_0259

Ég hafði sett formið á bökunarplötu klædda bökunarpappír, ekki beint á grindina. Það reyndist skynsamleg ákvörðun því formið var ekki alveg þétt og hluti af karamellunni rann út og brann – eins gott að það var ekki á ofnbotninum. Hmm, kannski verð ég að fá mér nýja pönnu …

IMG_0261

 

Ég losaði kökuna úr forminu og hvolfdi henni á rist. Ég hafði eiginlega ætlað að bera kökuna fram með ,,botninn upp“ en fannst hún ekki nógu falleg þannig – deigið hafði flætt undir sumar perurnar en aðrar ekki svo að kakan var of óregluleg. Ef ég geri hana aftur prófa ég kannski að blanda hnetunum ekki saman við karamelluna svo þær fari ekki undir perurnar, heldur dreifi þeim á milli þegar ég er búin að raða perunum í formið.

IMG_0266

 

Svo að ég hvolfdi henni aftur yfir á fat og bar hana fram á réttum kili.

IMG_0293

 

Góð volg eða köld með þeyttum rjóma.

_MG_0307

Peru-karamellukaka

5-6 litlar perur

100 g púðursykur

40 g smjör

50 g valhnetur

4 msk rjómi

 

100 g smjör

100 g sykur

3 egg

1 tsk vanilluessens

175 g hveiti

1 tsk lyftiduft

1/4 tsk matarsódi

1/4 tsk salt

100 ml hrein jógúrt eða súrmjólk

Bakað í um 30 mín. við 175°C.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s