Hvítur súkkulaðiís, af því að febrúar er stuttur

Þessi janúar er búinn að vera ótrúlega fljótur að líða, finnst mér. Og svo kemur febrúar sem verður sennilega ennþá fljótari (hlýtur að vera, hann er jú styttri) og þá er kominn mars og þá á ég afmæli og verð 57 ára og það fer að styttast í sextugt og fyrr en varir er ég orðin gömul og stendur til boða að mæta á samkomur með Gylfa Ægissyni sem veislustjóra. Vei.

En það er semsagt eiginlega kominn mánuður síðan ég bar fram þennan eftirrétt sem ég ætla að setja hér, því það var á nýársdag. Hann er semsagt sparilegur og dýr og fitandi og allt það og á ekki við í aðhaldsmánuðinum janúar en passar miklu frekar í febrúar. Það eru svo fáir dagar í febrúar, eins og gamall vinnufélagi minn sagði þegar yfirmaður tók hann á beinið fyrir lélega mætingu í þeim mánuði. Alveg rétt, það eru færri dagar svo að auðvitað mætir maður færri daga í þeim mánuði – og eyðir minni peningum og borðar færri hitaeiningar en í janúar svo það er allt í lagi að láta eitthvað eftir sér … er það ekki?

Allavega, á nýársdag átti ég hvítt súkkulaði sem hún Hildigunnur hafði fært mér á Þorláksmessu, sérstaklega til að gera eitthvað úr handa einkasyninum, sem er sérstakur aðdáandi eftirrétta úr hvítu súkkulaði og hafði gefið vægast sagt sterklega til kynna að honum þætti maklegt að hann fengi hvítan súkkulaðiís. Ég ákvað að láta það eftir honum. Af því að ég á nú til að vera góð mamma einstöku sinnum.

IMG_8143

 

Það voru semsagt til 200 g af hvítu úrvalssúkkulaði (Amadei, fæst í Frú Laugu) og ég byrjaði á að ná í það ásamt 100 ml af rjóma.

IMG_8146

 

Setti þetta í súkkulaðipottinn minn og bræddi gætilega. Það má líka setja þetta í skál sem höfð er yfir potti með sjóðandi vatni (súkkulaðipotturinn er tvöfaldur og er því í raun vatnsbað); aðalatriðið er að bræða þetta rólega, hvítt súkkulaði er enn viðkvæmara fyrir hita en dökkt. Ég hrærði á meðan súkkulaðið var að bráðna í rjómanum og tók pottinn af hitanum á meðan enn voru dálitlir klumpar eftir og hrærði þar til það var alveg slétt. Lét súkkulaðið svo hálfkólna.

IMG_8170

 

Á meðan setti ég 3 egg og 75 g af flórsykri í hrærivélarskálina.

IMG_8171

 

Ég þeytti eggin og flórsykurinn mjög vel saman. Ef notað er gæðasúkkulaði á ekkert að þurfa að bæta neinu við, það er alveg nógu bragðmikið (en þó milt) og gott en það má bæta smávegis vanillu við ef maður vill. En það verður að vera ekta vanilla. Korn úr svona hálfri vanillustöng eða smávegis ekta vanilluessens. En ég gerði það semsagt ekki, súkkulaðið var of gott til þess.

Þegar eggjablandan var orðin vel þeytt, ljós og loftmikil, var súkkulaðið líka orðið hálfkalt og ég þeytti því saman við. Kældi svo blönduna vel – setti skálina ofan í aðra skál með ísköldu vatni til að flýta fyrir.

IMG_8182

Svo stífþeytti ég 250 ml af rjóma og blandaði gætilega saman við með sleikju.

IMG_8189

Hellti svo blöndunni í ísvélina og lét hana ganga þar til ísinn var þykkur og hálffrosinn. Ef maður á ekki ísvél er blöndunni bara hellt beint í skál eða form og sett í frysti en þá er gott að hræra upp í ísnum tvisvar sinnum eða svo á meðan hann er að frjósa til að koma í veg fyrir kristallamyndun.

IMG_8193

 

En svona var ísblandan þegar ég tók hana úr ísvélinni og setti í box. Stakk því svo í frysti og lét frjósa. Svo þarf bara að muna að taka ísinn úr frysti með smáfyrirvara svo að hann mýkist aðeins áður en hann er borinn fram.

IMG_8330

 

Ég bar ísinn fram með ferskum ávöxtum – í þessu tilfelli bláberjum, hindberjum, apríkósu, kirsiberjum og kakí. Auðvitað má hafa einhverja sósu líka en mér fannst einhvernveginn að allar sósur mundu yfirgnæfa milt og ljúft bragðið af hvíta súkkulaðinu svo ég lét ávextina duga.

IMG_8345

 

Sonurinn kvartaði  ekkert. Neinei.

 

Hvítur súkkulaðiís

200 g gott, hvítt súkkulaði

350 ml rjómi

3 egg

75 g flórsykur, eða eftir smekk

e.t.v. ögn af (ekta) vanillu

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s