Eine kleine …

Einhverntíma fyrir löngu síðan var ég búin að lofa að koma með kleinur í vinnuna. Nýsteiktar alltsvo. Og þegar ég var að steikja og mynda kleinur á dögunum og sagði frá því á Facebook var ég minnt á þetta loforð og gat náttúrlega ekki annað en staðið við það. Var nú búin að segja að ég yrði þá að vakna snemma eða gera þetta á frídegi ef ég ætti að koma með þær volgar í vinnuna.

En svo lét ég verða af þessu í morgun, vaknaði reyndar bara á venjulegum tíma. (Kl. 7:22. Af einhverri ástæðu hefur vekjaraklukkan mín árum saman verið stillt á 7:22. Og svo las ég í einhverri bók í fyrra að vísindamenn hefðu komist að því að 7:22 væri einmitt heppilegasti tíminn til að vakna á samkvæmt líkamsklukku eða lífsryþma eða einhverju. Merkilegt. Nema klukkan á Íslandi er náttúrlega kolvitlaust stillt svo ég er samt ekkert að vakna á réttum tíma …)

Allavega, ég klæddi mig og svona og fór svo fram í eldhús, kveikti undir potti með feiti sem stóð þar síðan ég var að steikja kleinur fyrir myndatöku á dögunum (þá var klukkan 7.34), steytti kardimommur, bjó til deig, flatti það út, skar kleinur og sneri þeim; þá var feitin einmitt orðin heit og ég steikti eitthvað rúmlega 40 kleinur. Þá var klukkan orðin 8:07 og ég akkúrat að missa af strætóinum sem ég er vön að taka. Svo að ég kom korteri of seint í vinnuna í morgun. Þannig að þetta tók samtals 33 mínútur, frá upphafi til enda. Svo að ef þið haldið að kleinubakstur sé mjög tímafrekur, þá þarf það ekki að vera.

Kleinurnar gerðu töluverða lukku og einhverjir vildu fá uppskrift. Sjálfsagt að verða við því. Þetta er engin fansí uppskrift, bara hversdagskleinur. Svolítið stökkar að utan en mjúkar innan í, ekki seigar eða deigkenndar eins og sumar eru. Ég vil helst hafa þær frekar litlar og ekki allt of bústnar en það er smekksatriði. Stundum hef ég þær ennþá stökkari og meira krispí, þá hef ég deigið dálítið stífara og þurrara, set hjartarsalt í staðinn fyrir matarsóda og flet þær e.t.v. aðeins þynnra út. Þannig verða þær mjög góðar alveg nýsteiktar en geymast illa. En svo má líka fletja deigið þykkara út og fá bústnari kleinur.

IMG_0106 Ég bragðbæti kleinur yfirleitt með nýsteyttum kardimommum. Þið getið notað kardimommuduft ef þið viljið en það er ekki eins gott og kardimommudropar eru uppfinning andskotans (mín skoðun). Og svo má nota önnur bragðefni, eins og rifinn sítrónubörk eða vanillu, til dæmis.

IMG_0109

Ég byrjaði þess vegna á að steyta heilar kardimommur – svona eina matskeið, úr því kom sirka teskeið af kardimommudufti.

IMG_0112

 

Svo setti ég þær í hrærivélarskálina ásamt 125 g af linu smjöri, 125 g af sykri, 175 ml af hreinni jógúrt, 50 ml af mjólk, 1 eggi, 475 g af hveiti (gæti þurft aðeins minna eða meira svo ég setti ekki alveg allt hveitið strax), 3 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda og 1/4 tsk af salti. Hrærði þetta allt saman. (Ef smjörið er ekki mjög lint er kannski betra að byrja á að hræra saman smjör og sykur, bæta svo við eggi og síðan afganginum af hráefninu.)

IMG_0114

 

Áferðin á kleinunum fer dálítið eftir því hvað deigið er þétt í sér. Ég vildi hafa það meðfærilegt en ekki stíft, þannig að auðvelt væri að hnoða það og fletja en án þess að það klesstist við hendur eða borðið þegar það er flatt út. Ég hafði skilið svolítið hveiti eftir en bætti því við þegar ég var búin að prófa deigið. Þá varð það mátulegt.

IMG_0121

 

Ég skipti deiginu í tvennt  og flatti helminginn út í einu. Ekki mjög þunnt, kannski 4-5 mm eða svo, en það fer eftir hvernig maður vill hafa kleinurnar (þær sem ég fór með í vinnuna í morgun voru heldur þynnri en þessar).

IMG_0125

 

Ég eignaðist nýlega þetta gamla kleinujárn – mamma átti það en ég hugsa að það sé komið frá langömmu í Dal eða enn eldra. Ákvað að prófa það að gamni. Það gerir mun breiðara og meira takkamynstur en önnur kleinujárn og það kom skemmtilega út en hentar líklega betur fyrir heldur þynnra deig.

IMG_0131

 

Svo að fyrir meirihlutann af kleinunum notaði ég hefðbundið kleinujárn, að vísu nokkurra áratuga gamalt. Skar deigið í ræmur, síðan í búta á ská og gerði loks skurð á ská í miðjuna á hverjum bút.

IMG_0141

 

Svo sneri ég kleinunum við, opnaði rifuna í miðjunni …

IMG_0142

 

… stakk öðru hvassa horninu í gegn …

IMG_0145

 

… og togaði hann svo alveg í gegn þannig að snúningur kom á kleinuna.

IMG_0133

 

Á meðan ég gerði deigið, flatti það út, skar og sneri kleinunum hafði ég hitað feitina (Kristjáns steikingarfeiti) í potti og nú var hún einmitt komin í 180°C (ef maður á ekki hitamæli, þá er hún mátulega heit þegar maður setur deigbita út í og hann sekkur til botns en stígur svo upp og það sýður hressilega í kringum hann).

IMG_0135

 

Og svo steikti ég kleinurnar, 8-10 í einu, eða eftir því hvað potturinn er stór. Sneri þeim einu sinni á meðan en þær eru fljótar að steikjast, 2-3 mínútur hver skammtur, eftir stærð og þykkt.

IMG_0147

Ég færði þær upp með gataspaða og lét renna af þeim á eldhúspappír.

IMG_0226

 

Og svo er um að gera að borða sem mest af þeim á meðan þær eru heitar. Eða volgar allavega.

IMG_0192

 

Með kaffi eða með kaldri mjólk, til dæmis. En þessar voru reyndar ágætar daginn eftir líka. Það reynir hins vegar ekkert á það með þessar sem ég steikti í morgun, þær voru fljótar að klárast.

Kardimommubragðið var alveg hæfilegt, ekki sérlega sterkt, en eftirbragðið mjög gott.

 

Kleinur

125 g smjör

125 g sykur

1 egg

175 g hrein jógúrt (eða súrmjólk)

50 ml mjólk

1 tsk kardimommur, helst nýmalaðar

475 g hveiti, eða eftir þörfum

3 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1/4 tsk salt

5 comments

 1. Sæl og blessuð!

  Nú var ég að prófa að steikja kleinur í fyrsta sinn og þær urðu fínar á bragðið. Byrjendamistökin voru hins vegar þessi: Ég álpaðist hins vegar til að nota olíu til að steikja upp úr (átti hana til) og þær drógu of mikla olíu í sig fannst mér og deigið var sjálfsagt of mjúkt hjá mér líka, gæti það ekki líka valdið því að þær dragi of mikið í sig? Ég prófa aftur við tækifæri og vil því gjarna gera betur næst 🙂 Áttu góð ráð til að tryggja skotheldar kleinur?

 2. Sæl.
  Er mögulegt að hitinn hafi ekki verið alveg nógu hár? 180°C eða svo finnst mér rétti hitinn fyrir kleinur og þess háttar; ef feitin er ekki alveg nógu heit draga kleinurnar meira í sig af henni (en ef hann er of hár brúnast þær auðvitað of mikið að utan áður en þær eru steiktar í gegn). Það þarf líka að reyna að halda hitanum frekar jöfnum og þess vegna best að setja ekki of margar kleinur í pottinn í einu því þá lækkar hitinn dálítið.

  Feitin skiptir auðvitað máli líka og það verður að segjast að mér finnst mettuð fita gefa betra bragð en ómettuð, svona heilt yfir … En þetta er smekksatriði.

  Mér finnst betra að hafa deigið frekar mjúkt en það er allt í lagi að bæta við svolitlu hveiti og hafa það ögn stífara.

 3. Takk kærlega. Ég reyndi að halda feitinni við 180 gráðurnar, var með mæli ofan í. Vona að hann hafi verið réttur, því maðurinn minn prófaði að hita feitina í 200 gráður og þá drógu þær ekki nærri eins mikið í sig og urðu betri. En mér fannst það svakalegur hiti! Ég prófa í það minnsta næst með harðri feiti, ögn stífara deigi og hærri hita.

  • 200°C getur alveg verið í lagi ef kleinurnar eru ekki mjög þykkar og ná að steikjast í gegn áður en þær verða of dökkar. En 190°C væri kannski best.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s