Kótelettu-kerling

NB: Þessi færsla er ekki fyrir gamalreyndar húsmæður, þær vita allt um þetta.

Eins og ég hef sagt frá er ég búin að vera á kafi í matarnostalgíu að undanförnu af því að ég var að endurskoða og uppfæra Icelandic Food and Cookery; hef bæði verið að skrifa og rifja upp matarminningar og matarsögur og alls konar fróðleik og líka að elda heilmikið, bæði til að prófa uppskriftir með amerískum mælieiningum og svo hef ég verið að taka eitthvað af myndum líka. Sumt af þessu hefur glatt einkasoninn (sem er að hluta í fæði hjá mömmu gömlu þessa dagana) töluvert og hann segir stundum ,,þetta hef ég ekki fengið síðan ég veit ekki hvenær“ og hefur tekið hraustlega til matar síns.

Núna um helgina fékk hann til dæmis lærissneiðar í raspi og kvartaði bara ekkert yfir því. Ég tók reyndar engar myndir af því en ég hafði stuttu áður eldað lambakótelettur í raspi og þær koma hér, enda aðferðin svo til nákvæmlega sú sama. Kótelettur og lærissneiðar voru oft í sunnudagsmatinn þegar ég var barn og unglingur. Eftir að mamma eignaðist stóra ferkantaða rafmagnspönnu með loki – ég man ekki lengur hvaða gerð en hún var ekkert ósvipuð þessari hér:

Screen Shot 2014-01-27 at 8.49.11 PM

– þá var oftast steikt á henni, og á pönnu á eldavélarhellu líka ef margir voru í mat en það rúmaðist ansi hreint mikið á þessum rafmagnspönnum.

Ég geri þetta nú ekki alveg eins og mamma. Hún notaði lengi vel skærlitað Paxo-rasp og steikti allt upp úr smjörlíki eins og þá var gert – mig minnir að flestar uppskriftir að steiktum mat í Unga stúlkan og eldhússtörfin hafi byrjað á ,,100 grömm smjörlíki“ að minnsta kosti. En ég á gamla buffhamarinn hennar og byrjaði á að taka kóteletturnar/lærissneiðarnar og berja þær. Ekki kannski af alveg eins miklu offorsi og þegar ég tók að mér að berja þær hér á árum áður.

IMG_8480

Þetta voru nokkuð kjötmiklar og álitlegar kótelettur, búið að skera af þeim slagið, sem er ágætt. Ég var með þrjár svona sem er passlegt fyrir mig (tvær í matinn og ein í nestið daginn eftir) en mælieiningar skipta litlu hér svo að það er hægt að elda eins margar kótelettur eða lærissneiðar og komast á pönnuna með góðu móti. Og ég á ansi hreint stóra pönnu ef það hefði verið málið.

IMG_8476

Ég hef ekki keypt rasp síðan 1983 eða svo (þá eignaðist ég fyrst matvinnsluvél) og alls ekki Paxo. Bý það alltaf til sjálf. Reyndar kom tímabil þar sem ég átti ekki matvinnsluvél, hafði ekki efni á að kaupa nýja þegar sú fyrsta gaf upp öndina, og þá þurrkaði ég brauð í ofni, setti það í poka og muldi með kökukefli.

En núna ákvað ég að nota ferskt rasp (þ.e. ekki úr þurrkuðu brauði) og tók  enda af dagsgömlu baguettebrauði, skar hluta af skorpunni af, skar það í bita, setti í matvinnsluvélina og lét hana ganga góða stund til að mala brauðið. Setti það svo á djúpan disk og blandaði pipar og salti saman við. (Og þegar ég gerði lærissneiðarnar blandaði ég líka þurrkuðu timjani saman við og svo getur verið gott að hafa t.d. nýrifinn parmesanost – en ég ætlaði jú að halda mig við klassíkina að mestu.)

Stundum er raspið ekki kryddað, heldur hveitið sem kótelettunum er velt upp úr. Það er smekksatriði, ég vildi frekar hafa það svona. Finnst raspið sjálft betra fyrir vikið.

IMG_8478

Svo tók ég tvo aðra djúpa diska og setti hveiti á annan og braut eitt egg á hinn og sló það létt. Líklega var nú eggið oftar en ekki drýgt með mjólk, allavega þegar steikja þurfti mikið og eggin voru dýr, en ég er bruðlari og gerði það ekki.

IMG_8486

Svo velti ég kótelettunum fyrst upp úr hveitinu (og þrýsti þeim vel niður í það) …

IMG_8485

… og síðan upp úr egginu …

IMG_8484

… og þrýsti þeim að lokum vel ofan í brauðmylsnuna  til að þekja þær alveg.

IMG_8492

Svo hitaði ég pönnu, setti 1 1/2 msk af olíu og 1 msk af smjöri á hana og steikti svo kóteletturnar við meðalhita í svona 3 mínútur á hvorri hlið, eða þar til raspið hafði tekið góðan lit. Þá hellti ég smáskvettu af vatni (kannski 3-4 msk) á pönnuna, setti lok á hana (ekki þétt), lækkaði hitann og gufusteikti kóteletturnar þar til vatnið var alveg gufað upp. Þá voru þær líka vel meyrar. Sumir setja kóteletturnar í eldfast mót, breiða álpappír yfir og setja í ofn en þess á ekkert að þurfa og þessar urðu alveg mátulega eldaðar, meyrar og safaríkar.

IMG_8506

Ég var búin að ofnsteikja kartöflur og hafði þær með, annars voru yfirleitt bara soðnar kartöflur með kótelettum og lærissneiðum á míni bernskuheimili – og svo gulrætur og grænar baunir og auðvitað sulta. Nútíma-Nanna hefði nú sleppt dósagrænmetinu og sultutauinu og haft eitthvert gott salat með þessu – en þetta var Nostalgíu-Nanna. Rauðkál eða súrsaðar gúrkur hefði hins vegar alveg sloppið.

IMG_8517

En nostalgían var alveg á sínum stað …

One comment

  1. Takk fyrir mjg svo girnilegar uppskriftir, hef miki gaman af eim og essa g potttteftir a gera fljtlega og hugsa til unglingsra minna Hafnarfiri egar a var alltaf lambalri sunnudgum og stundum lrissneiar raspi 🙂 🙂 Add

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s