Spænskt verður danskt

Mér hefur meira og minna tekist sú fyrirætlun mín að gera ekki neitt þessa helgina og það er nú ágætt. Reyndar stóð ég mig svo vel að ég er ekkert byrjuð að lesa bókina sem ég ætlaði að lesa um helgina (Cuisine and Empire eftir Facebookvinkonu mína Rachel Laudan) en það kemur að því, ég er mjög spennt fyrir þessari bók og hún hefur fengið frábæra dóma.

Hún liggur samt á náttborðinu hjá mér og ég var að því komin að teygja mig í hana í m0rgun þegar ég fór allt í einu að hugsa um hvað ég ætti að fá mér í hádegismat. Svoleiðis hugsanir geta verið ærið truflandi og ég fór að reyna að rifja upp hvað væri í ísskápnum og hann er stór og rúmar mikið svo það tekur nú tíma fyrir ekki minnisbetri manneskju en mig. En ég þóttist muna að ég ætti spænska chorizopylsu, mundi reyndar ekki hvort hún var mild eða sterk, og jú, svo voru til kastaníusveppir og eitthvað af kryddjurtum og kartöfluafgangur (litlar kartöflur ofnsteiktar í andafeiti, það er nú ekki slæmur afgangur til að eiga) – jú, og svo voru náttúrlega til egg. Svo að eftir töluverða umhugsun fannst mér liggja beint við að elda ommelettu í hádeginu.

En við þessar hugleiðingar hafði ég náttúrlega gleymt bókinni og fór þess í stað að hanga á netinu eða eitthvað og svo var allt í einu kominn tími til að elda og ég svöng. Svo ég drattaðist á fætur og fór fram í eldhús að tína til allt í eggjakökuna. var búin að finna allt nema chorizopylsuna. Hún lét ekki finna sig og eftir nokkra leit rann upp fyrir mér að mig hafði misminnt, ég átti alls enga chorizopylsu, bara Pedersens salami. Sem er ágæt en kallar ekki ,,eggjakaka“ á sama hátt og chorizopylsan.

En ég ákvað að gera samt bara Pedersens-ommelettu í staðinn fyrir chorizo-ommelettu. Skipta Spáni út fyrir Danmörku. Annars hefði ég þurft að hugsa allt aftur frá grunni og ég var svöng …

IMG_0018

 

Ég tók semsagt til dálítinn bita af Pedersens-salami, kannski svona 6 cm, nokkrar kartöflur (steiktar, en má nota soðnar því þær eru hvort eð er steiktar aftur), 3 stóra kastaníusveppi, 3 egg, 2 vorlauka, dálítið af flatblaða steinselju, nokkar timjangreinar (en það má alveg sleppa þeim, ég átti þær bara til), 1 1/2 msk af ólífuolíu, pipar og salt.

Ég hitaði líka ofninn í 220°C. Best að byrja á að kveikja á honum því hann þarf að vera orðinn alveg heitur þegar eggjakakan fer inn í hann.

IMG_0020

 

Kartöflurnar voru í bitum en ég skar þær í minni bita. Skar pylsuna í teninga, sveppina í helminga og svo í sneiðar (þeir voru svo stórir) og skar hvíta og ljósgræna hlutann af vorlaukunum í bita en geymdi grænu blöðin.

IMG_0022

 

Ég hitaði svo helminginn af olíunni á pönnu. Það þarf að vera panna sem þolir að fara í ofninn á 220°C og ég notaði steypujárnspönnu. Setti sveppi, kartöflur, pylsu og vorlauk á pönnuna, steikti smástund og hrærði oft og svo strauk ég blöðin af timjaninu og stráði yfir. Lét þetta krauma við nokkuð góðan hita þar til allt var heitt í gegn og búið að taka góðan lit (en ekki brenna) og sveppirnir voru meyrir.

Þá hellti ég öllu af pönnunni í skál og setti til hliðar en setti pönnuna aftur á hitann og hellti afganginum af olíunni á hana.

IMG_0025

 

Ég var búin að brjóta eggin í skál og léttþeyta þau með pipar og salti. Svo saxaði ég kryddjurtirnar (þ.e. steinseljuna og grænu blöðin af vorlauknum, en það má nota hvaða kryddjurtir sem mann langar í og á til), tók smávegis frá en hrærði hinu saman við eggin og hellti þeim á pönnuna. Hrærði ekki í ommelettunni eða neitt, heldur dreifði  kartöflupylsusveppablöndunni strax jafnt yfir.

IMG_0027

 

Að lokum stráði ég kryddjurtunum sem ég hafði skilið eftir yfir allt saman og stakk svo pönnunni í miðjan ofninn í 5 mínútur.

IMG_0033

 

Eggjakakan ætti að blása upp í ofninum eins og soufflé en loftið sígur mjög fljótt úr henni, ég náði ekki einu sinni mynd …

IMG_0049

 

Ommelettan var það stutt í ofninum að kryddjurtirnar voru ennþá fagurgrænar.

IMG_0075

 

Ég bar eggjakökuna fram á pönnunni og hafði bara salatblöð og brauð með.

IMG_0084

 

Jújú, Pedersen var alveg í fínu lagi þarna.

 

Pylsu-, sveppa- og kartöflueggjakaka

Kryddpylsa (salami, chorizo eða annað), 60-100 g

200-300 g kartöflur, steiktar eða soðnar

150 g sveppir, gjarna kastaníusveppir

2 vorlaukar

1 1/2 msk ólífuolía

nokkrar timjangreinar (má sleppa)

3 egg

pipar

salt

steinselja (flatblaða) eða aðrar kryddjurtir eftir smekk

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s