Ég var að átta mig á því að þetta er líklega fyrsta helgin síðan einhverntíma í nóvember þar sem ég er ekki með nein verkefni sem ég þarf að vinna. Engar kynningar sem þarf að undirbúa, engir blaðamenn í heimsókn, engin skrif og myndatökur fyrir tímarit og vefsíður, engar myndatökur fyrir bækur … Og þá veit ég náttúrlega ekkert hvað ég á að gera. Slappa af og gera ekki neitt er augljósa svarið og ég hugsa að ég reyni en ég er voða hrædd um að það muni klúðrast. Kemur í ljós.
En ég byrjaði allavega í morgun á því að baka mér skonsulummur með morgunkaffinu. Eða jæja, eiginlega næstum því hádegiskaffinu, því mér tókst líka að sofa fram eftir aldrei þessu vant. Skonsulummur, segi ég af því að þetta er einhvers konar millistig. Eiginlega eru þetta lummur en af því að ég baka þær í málmhringjum og get þar af leiðandi haft þær vel þykkar verða þær dálítið skonsulegar.
Þær eru sykurlausar og því fínar með smjöri eða bara eintómar en svo má líka setja sultu á þær, eða þá síróp, hunang eða annað sætt. Þetta ættu að verða sirka 8 lummur en svo er ekkert mál að minnka eða stækka uppskriftina.
Ég átti vel þroskaða peru sem var aðeins farin að skemmast og ákvað að nota það sem nýtilegt væri af henni í deigið. Það má líka nota maukað epli eða banana en bananinn breytir bragðinu töluvert, allavega ef hann er vel þroskaður.
En semsagt: Ég notaði 100 g af vel þroskaðri peru (flysjaðri, kjarnhreinsaðri og í bitum), 2 egg, 150 g af hveiti, 1 tsk af lyftiduft,i, 1/8 tsk af matarsóda, 50 g af smjöri, 100 ml af mjólk, 2-3 msk af rúsínum og nokkrar pekanhnetur (svona 6-8). Og 1/4 tsk af kanel sem er ekki á myndinni því ég var ekki búin að ákveða að nota hann þegar hún var tekin.
Það má alveg nota aðrar hnetur (eða sleppa þeim). Og auðvitað má sleppa rúsínunum líka eða nota aðra þurrkaða ávexti, smátt skorna.
Ég byrjaði á að setja perur, egg og helminginn af smjörinu í matvinnsluvélina og þeyta vel saman. Það þarf ekkert að nota matvinnsluvél en þá er gott að stappa peruna vel og bræða smjörið svo þetta blandist almennilega saman.
Svo setti ég hveiti, lyftiduft, matarsóda og mjólk út í, hrærði þar til blandan var slétt, horfði á hana, dýfði fingurgómnum í hana og smakkaði og það var þá sem ég ákvað að bæta við 1/4 tsk af kanel. En það mætti líka vel bragðbæta soppuna með vanillu eða sítrónusafa, til dæmis.
Hellti soppunni svo í skál og blandaði rúsínum og grófsöxuðum pekanhnetum saman við með sleikju.
Ég bræddi svona 2 tsk af smjöri á pönnu og tók svo þessa ágætu málmhringi sem ég átti (4 stk) og setti á hana. Það þarf semsagt ekkert að nota svona hringi en lummurnar verða flottari í laginu og þykkari ef þeir eru notaðir. – Ég bleytti pensil í bráðnu smjörinu og renndi honum um innanverðan neðri kantinn á hverjum hring en það er ekkert bráðnauðsynlegt heldur.
Svo setti ég dálítið af soppu í hvern hring – 2-3 msk, kannski svona 1 cm þykkt lag ef hringir eru notaðir en ef það er ekki gert renna lummurnar auðvitað meira út og verða heldur þynnri – og steikti við fremur vægan hita í svona 4 mínútur. Þá voru byrjuð að koma loftbólugöt á yfirborðið.
Þá renndi ég hnífsoddi meðfram hringnum til að losa um lummuna (ekki víst að þess þurfi ef hann er vel smurður) og fjarlægði hringinn – hann hafði auðvitað hitnað svo ég tók um hann með samanbrotnum eldhúspappír (nú, eða pottalepp) og lyfti honum.
Svo sneri ég lummunum og steikti þær í 1-2 mínútur á hinni hliðinni. Ef ekki er notaður hringur styttist steikingartíminn eitthvað. Tók þær af pönnunni, bræddi afganginn af smjörinu og steikti 4 lummur í viðbót – þá var deigið uppurið.
Þetta urðu semsagt átta þykkar lummur/skonsur. Þær eru auðvitað bestar volgar …
… en alveg ágætar kaldar líka, ekki síst með smjöri.
Svo eru þær ósætar (fyrir utan sykurinn í ávöxtunum auðvitað) en það er líka hægt að smyrja sultu eða einhverju öðru sætmeti á þær …
Hnetu- og rúsínulummur
2 egg
100 g vel þroskuð pera (eða epli eða banani)
50 g smjör, lint
150 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/4 tsk kanell
100 ml mjólk
2-3 msk rúsínur
nokkrar pekanhnetur
hvar fær ég skonu-lummuhringir? Eða væri hægt að baka þessu í silkonmuffuformunum mínum?
Þessir voru reyndar keyptir erlendis en ég hef séð svona hringi í búsáhaldabúðum, t.d. Pipar og salt og víðar. Áður en ég eignaðist þá hafði ég stundum notað hringi sem ég bjó til úr litlum niðursuðudósum (t.d. undan túnfiski eða ananasbitum), skar bara úr þeim bæði lokið og botninn með dósahníf.
Múffuformin mundu held ég ekki virka, allavega ekki á pönnu, en það væri kannski hægt að nota sama deigið í litlar múffur.