Fiskur fyrir laumu-gúrme

Ég er eiginlega búin að elda fisk upp á kvurn dag að undanförnu og það er nú ekki slæmt. Sumar af þeim uppskriftum koma kannski hér einhverntíma seinna en ég var að semja/elda/mynda þær fyrir blöð og bækur og það verður þess vegna ekki strax. En þetta voru alveg ágætis réttir.

Hér er aftur á móti einn fiskréttur sem var alveg ljómandi góður líka en ég hætti við að nota því ég var ekki sátt við myndirnar, sá ekki að þær mundu gera sig á prenti. Þær duga samt alveg fyrir blogg sko … eða þær sleppa allavega. Nokkurn veginn. En þær eru reyndar ekki margar.

Í þetta skipti notaði ég þorsk, sem ég geri nú oft. Mundi líklega flokkast til þorskhnakka, nánar til tekið. Svona gúrme, eins og afgreiðslumaðurinn í fiskborðinu ætlaði ekki að vilja selja mér einu sinni, líklega af því að honum fannst ég ekkki nógu gúrme-leg. En ég sigli undir fölsku flaggi og er soldið gúrme inn við beinið þótt ég líti ekki út fyrir það svo að á endanum seldi hann mér nú þorskinn. En þennan þorsk átti ég reyndar í frysti og þótt ég reyni helst að kaupa fisk ferskan er ég líka að reyna að grynna á birgðunum í frystinum svo ég tók hann út og lét þiðna. Tveir bitar, reyndar hef ég séð þá fallegri en það var ekkert að bragðinu.

 

Og ég ákvað að hafa beikonkartöflustöppu með. Langt síðan ég hef búið til beikonkartöflustöppu. Ég byrjaði þess vegna á að taka stóra bökunarkartöflu, flysja hana, skera í bita og sjóða hana þar til hún var vel meyr. Á meðan tók ég svona 4 beikonsneiðar, steikti þær þar til þær voru stökkar og pressaði þær svo á milli eldhúsrúllublaða. Með minni ágætu beikonpressu, náttúrlega.

Á meðan hitaði ég ofninn í 200°C og hitaði lítið, eldfast mót með honum. – Það má líka alveg klára fiskinn á pönnunni en ég gerði þetta svona (enda var ég að fara að nota ofninn í annað, hefði kannski ekki hitað hann fyrir þorskinn einan).

IMG_9412

Svo skar ég eða muldi beikonið í litla bita og saxaði grænu blöðin af einum vorlauk og smávegis flatblaða steinselju (hefði kannski notað aðrar kryddjurtir ef ég hefði átt þær. Hellti vatninu af kartöflubitunum þegar þeir voru meyrir, stappaði þá með dálítilli smjörklípu – kannski svona 2 msk – kryddaði með pipar og svolitlu salti (ekki miklu, beikonið er jú salt) og hrærði beikoninu og kryddjurtunum saman við. Þynnti örlítið með mjólk en ég vildi hafa stöppuna þykka.

IMG_9406

Lét stöppuna bíða í pottinum og hitaði 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu. Kryddaði þorskinn með pipar og salti og steikti hann við góðan hita í 1-2 mínútur á hvorri hlið. Setti hann svo í eldfasta mótið og stakk í ofninn í 5 mínútur, eða þangað til fiskurinn var rétt steiktur í gegn. En eins og ég sagði má líka lækka hitann og klára hann á pönnunni.

IMG_9418

Á meðan léttsauð ég nokkra spergilkálskvisti í saltvatni og skar nokkra sítrónubáta.

IMG_9425

Svo bar ég fiskinn fram með stöppunni og spergilkálinu, kreisti sítrónusafa yfir og bar fram með ögn af brúnuðu smjöri. Ekki slæmt fyrir fiskimanneskju.

Uppskrift fyrir 1 1/2 (þá meina ég nóg fyrir mig í kvöldmat og í nesti daginn eftir):

Steiktur þorskur með beikonkartöflustöppu

300 g þ0rskhnakki

pipar

salt

1 msk ólífuolía

1 msk smjör

Beikonkartöflustappa:

1 væn bökunarkartafla

4-5 beikonsneiðar

grænu blöðin af 1 vorlauk

nokkrar steinseljugreinar

pipar

salt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s