Kaka með kaffinu

Ég er búin að vera að baka í dag, ekki af því að ég sé að fara að halda barnaafmæli eða eitthvað, þeir dagar eru löngu liðnir, heldur aðallega af því að ég komst að þeirri niðurstöðu að mig vamtaði aðeins fleiri myndir til að velja úr fyrir kökukaflann í Icelandic Food and Cookery – það verða nefnilega einhverjar myndir í henni, sem ekki voru í upphaflegu útgáfunni – svo að ég bakaði vínartertu og hunangsrúllutertu og svo steikti ég kleinur, en það var nú líka fyrir hana tengdadóttur mína (já, og soninn og dótturdótturina líka). Þau fengu kleinurnar sjóðheitar beint úr pottinum, það þótti nú ekki slæmt.

En þetta er nú engin af þeim uppskriftum þótt þetta sé kökuuppskrift, engin íslensk klassík sko. Bara alveg ágæt eplakaka með salthnetum. Ég bakaði hana í haust fyrir MAN og fór svo með hana í vinnuna eins og ég geri nú gjarna og man ekki betur en hún hafi fallið alveg ágætlega í kramið þar.

Þetta er skúffukaka, afskaplega einföld og frekar fljótleg.

IMG_3336

Ég byrjaði á að  stilla ofninn á 180°C og tók svo 3 epli, meðalstór – minnir að þetta hafi verið Pink Lady en það má nota ýmsar aðrar tegundir, t.d. Fuji, Gala, Jonagold (en þau eru náttúrlega stærri) eða jafnvel Granny Smith en þau eru súrari og þá væri e.t.v. betra að nota aðeins meiri sykur.

Ég flysjaði eplin, kjarnhreinsaði þau og skar í fremur litla bita. Setti bitana í skál, kreisti safa úr einni sítrónu yfir og blandaði vel.

IMG_3339

Svo tók ég mína ágætu hrærivél og setti í skálina 225 g af linu smjöri og 200 g af hrásykri. Það má líka alveg nota venjulegan sykur en mér finnst samt hrásykurinn gefa betra bragð og fallegri lit í hana. (Nei, hann er ekkert hollari.) Hrærði þetta vel saman.

IMG_3349

Svo tók ég 4 egg og hrærði þeim saman við, einu í einu, áasmt 1 tsk af vanilluessens.

IMG_3354

Svo blandaði ég saman 350 g af hveiti og 3½ teskeið af lyftidufti, setti út í og hrærði rólega saman við. Um að gera að hræra sem minnst eftir að hveitið er komið út í, bara rétt eins og þarf til að blanda því saman við blautefnin.

IMG_3357

Svo tók ég 200 g af salthnetum, tók 3-4 matskeiðar frá en blandaði hinu saman við deigið (notaði reyndar ekki hrærarann tl þess, heldur blandaði þessu með sleikju.

IMG_3362

Að lokum blandaði ég eplabitunum saman við með sleikju.

IMG_3365

Ég klæddi stórt, ferkantað form (eða litla ofnskúffu) innan með bökunarpappír og jafnaði deiginu í formið. Stráði svo salthnetunum sem ég hafði tekið frá yfir deigið.

IMG_3367

Svo setti ég skúffukökuna neðarlega í ofninn og bakaði hana í um  25 mínútur.

IMG_3414

Ég lét kökuna kólna í forminu og skar hana svo í bita.

IMG_3425

Þetta urðu svona 20-24 bitar.

Eplaskúffukaka með salthnetum

3 epli

1 sítróna

225 g smjör, lint

200 g hrásykur

4 egg

1 tsk vanilluessens

350 g hveiti

3½ tsk lyftiduft

200 g salthnetur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s