Fiskur fyrir miðaldra konu

Ungt fólk er víst hætt að borða fisk. Ég er aftur á móti langt frá því að vera ung svo ég borða meiri og meiri fisk eftir því sem ég verð eldri.

Ég skal reyndar alveg játa að ég var ekki sérlega gefin fyrir fisk á unglingsárum og heldur ekki á fyrstu búskaparárum mínum. Ég kunni ekkert á hann og var satt að segja ekki vön góðum fiski. Alin upp lengst fram í sveit þar sem fiskurinn kom með mjólkurbílnum og var skilinn eftir á brúsapallinum þangað sem hann var svo sóttur. Ekki margir fiskréttir sem ég man eftir úr minni bernsku, soðin ýsa og steikt ýsa í raspi og fiskbollur og plokkfiskur – jú, og soðinn saltfiskur og siginn fiskur og fátt annað. Jú, stundum silungur, aðallega fyrir pabba, sem var alinn upp við silung sirka sex daga í viku á sumrin.

Eftir að við fluttum á Krókinn fjölgaði fisktegundum aðeins og mamma prófaði einhverjar fleiri uppskriftir, ofnbakaði fisk og svona. Mér fannst fiskur allt í lagi en ekkert meira en það. Og þegar við Gunna systir unnum í frystihúsinu á sumrin (og jólafríum og páskafríum, því við vorum í menntaskóla á Akureyri og borguðum fæði, húsnæði og annað sjálfar svo ekki veitti af) gerðum við samkomulag við mömmu um að það yrði ekki fiskur í hádegismatinn þá daga sem við vorum að vinna. Bara á kvöldin. Og frystihússvinnan varð svosem ekki til að auka áhuga manns fyrir fiskáti eða nýjum tegundum. Ég lýsti því einhverntíma yfir eftir heilmikla karfatörn að karfi sem búinn væri að vera dauður í þrjár vikur freistaði mín ekki.

Ég kunni lítið á fisk þegar ég byrjaði að búa og það breyttist ekki mikið fyrr en ég var komin yfir þrítugt. Hann var samt oft í matinn. En smám saman fór mér að finnast hann betri á bragðið og meira spennandi og ég lærði smám saman að elda hann. Meira að segja karfa. En hann var nú ferskari en sá sem Krókstogararnir komu með í land. Núna finnst mér fiskur yfirleitt afskaplega góður og hef hann oft í matinn.

Hér er uppskrift að fiskrétti sem ég var með í MAN í haust. Mér fannst hann einstaklega góður. YMMV.

IMG_3717

Ég notaði steinbít en það mætti nota aðra fiska líka, til dæmis blálöngu eða þorsk. Nú, eða ýsu ef maður endilega vill. Þessi biti var svona 300-350 grömm, þetta var fyrir mig eina með afgangi til að borða í hádeginu daginn eftir. Gæti alveg dugað fyrir tvo.

Svo átti ég hálfan poka af spínati, 150 g, 1 lítið blómkálshöfuð, 1 rauðlauk (má vera venjulegur), 1 rautt chili, 1 hvítlauksgeira, smábita af engifer (svona 2 cm), ½ tsk kóríanderfræ, möluð (má sleppa ef maður á þau ekki til), pipar og salt, 1 msk af smjöri og 1 msk af olíu, 1 tsk af karrídufti og 1 tsk af paprikudufti.

Ég byrjaði á undirbúningi. Skar fiskinn í bita, 3-4 cm á kant. Sleit grófustu stönglana af spínatinu. Skar miðjustöngulinn úr blómkálinu og skipti því í litla kvisti. Saxaið laukinn fremur smátt. Fræhreinsaði chilialdinið og saxaði það smátt, ásamt hvítlauk og engifer. Þetta tekur smátíma en svo er eldamennskan einföld og fljótleg.

IMG_3721

Ég bræddi svo smjörið á pönnu. Kryddaðui fiskbitana með kóríanderfræi, pipar og salti og brúnaði þá við góðan hita (passaði samt að smjörið brynni ekki) í um 1 ½ mínútu á hvorri hlið …
IMG_3723
eða þar til þeir höfðu tekið dálítinn lit. Þá tók ég þá af pönnunni og setti á disk.
IMG_3726
Svo bætti ég olíunni á pönnuna og lét rauðlauk, hvítlauk, chili og engifer krauma við meðalhita í nokkrar mínútur, þar til laukurinn var farinn að mýkjast.
IMG_3730
Þá stráði ég öllu kryddinu yfir og hrærði þar til eldhúsið var farið að ilma.
IMG_3736
Ég setti blómkálið á pönnuna, hellti 150 ml af vatni yfir, hitaði að suðu og lét malla í 8-10 mínútur, eða þar til blómkálið var nærri meyrt.
IMG_3742
Þá setti ég fiskinn aftur á pönnuna …
IMG_3744
… ásamt spínatinu, hrærði gætilega, lagði lok yfir og lét malla í 2-3 mínútur.
IMG_3761

Tilbúið.

IMG_3774

Og svo bara soðin hrísgrjón með. Alls ekki sem verst.

 

Karrífiskur með blómkáli

300-350 g fiskflak, t.d. blálanga, steinbítur eða þorskur

150 g spínat

1 lítið blómkálshöfuð

1 laukur (rauðlaukur eða venjulegur)

1 rautt chilialdin

1 hvítlauksgeiri

2 cm biti af engifer

½ tsk kóríanderfræ, möluð (má sleppa)

pipar

salt

1 msk smjör

1 msk olía

1 tsk karríduft

1 tsk paprikuduft

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s