Ég er enn ekki búin að ákveða hvað verður í eftirrétt á aðfangadagskvöld en hef nú engar áhyggjur af því – einu sinni ákvað ég það ekki fyrr en eftir hádegi á aðfangadag og það reddaðist nú alveg. En því miður verður það örugglega ekki þessi hér þótt ég væri alveg til með það sjálf því þetta eru svoddan gikkir í minni fjölskyldu, sumir vilja ekki sjá sveskjur og aðrir ekki sykur … Eða kannski geri ég svona ís bara handa mér og eitthvað annað handa gikkjunum. Kemur í ljós.
Þegar ég var í Oxford í sumar fór ég á Gee’s, eitt af þekktari veitingahúsunum þar, og fékk meðal annars afar góðan sveskjuís. Með Pedro Ximenes-sérríi en það er nú ekki alveg bráðnauðsynlegt. Mig langaði í meira af þessum ís og fór því að gera tilraunir þegar ég kom heim. Þetta er útkoman, býsna lík fyrirmyndinni.
Uppskriftin birtist fyrst í 3. tlb. MAN. – Þetta er skammtur fyrir svona sex, en sennilega færri ef ég er á staðnum.
Ég notaði 150 g af steinlausum, mjúkum sveskjum, 2 msk af Calvados (eða koníaki, en svo má líka nota 3-4 ms af eplasafa), 250 ml af rjóma, 250 ml af mjólk, 4 eggjarauður og 60 g af sykri. Líklega mætti alveg sleppa sykrinum og nota þá kannski svona 50 g af sveskjum í viðbót.
Ég byrjaði á að setja sveskjurnar í pott ásamt Calvadosinu og lét malla rólega þar til áfengisgufurnar voru farnar að stíga upp úr pottinum. Ef maður notar eplasafa er vökvinn einfaldlega látinn sjóða næstum alveg niður og sveskjurnar svo maukaðar.
En ég er líklega brennurvargur innst inni því mér finnst dálítið gaman að eldsteikja (flambera). Svo að ég kveikti í Calvadosinu og lét áfengið brenna úr því. (Reyndar getur verið, ef maður er með pottinn á gasloga, að það kvikni sjálfkrafa í þegar áfengisgufurnar fara að stíga upp úr pottinum. En ef maður ætlar ekki að flambera (eða gerir það óvart) er best að láta Calvadosið sjóða nokkuð vel niður. Ég tók svo pottinn af hitanum og lét sveskjurnar kólna.
Næst setti ég mjólk og rjóma í pott og hitaði að næstum að suðu en tók þá pottinn af hitanum og lét rjómablönduna kólna örlítið á meðan ég þeytti eggjarauður og sykur mjög vel saman.
Hellti svo heitri rjómablöndunni í mjórri bunu saman við eggjahræruna og þeytti stöðugt á meðan.
Svo hellti ég blöndunni aftur í pottinn og setti hann á mjög vægan hita (þetta má alls ekki sjóða eða nálgast suðu) og hrærði stöðugt þar til blandan þykknaði. Hún er hæfilega þykk þegar hægt er að strjúka fingurgómnum yfir sleifarbakið og farið sést greinilega og heldur sér – sjá myndina hér fyrir ofan.
Þá hellti ég blöndunni í skál í gegnum sigti og kældi hana svo vel. Það er fljótlegast að gera með því að láta skálina standa í annarri skál með klaka eða ísvatni og hræra oft í blöndunni.
Ég hrærði svo köldu sveskjumaukinu saman við kalda eggjablönduna, setti allt saman í ísvél og lét hana ganga þar til blandan var vel þykk. Þá setti ég hana í form og svo í frysti.
Ef ekki er til ísvél má setja blönduna beint í frysti en þá er gott að hræra í henni tvisvar eða þrisvar á meðan hún er að frjósa til að koma í veg fyrir kristallamyndun.
Ég tók svo ísinn út svona 15 mínútum áður en hann var borinn fram til að mýkja hann aðeins.
Ísinn er nú alveg ágætur eins og hann er en það er alveg gráupplagt að hella smáskvettu af sætu sérríi, helst Pedro Ximenes, eða púrtvíni yfir hann áður en hann er borinn fram.
Það má gera einfaldari útgáfu með því að nota 400 ml af rjóma en enga mjólk og stífþeyta hann. Maukaðu sveskjurnar með vökvanum. Þeyt.tu eggjarauður og sykur mjög vel saman og þeyttu sveskjumaukið saman við. Blandaðu rjómanum saman við með sleikju. Settu blönduna í ísvél eða frysti eins og áður er lýst.
Sveskjuís
150 g steinlausar, mjúkar sveskjur
2 msk Calvados eða koníak eða 3-4 msk eplasafi
250 ml rjómi
250 ml mjólk
4 eggjarauður
60 g sykur
Þetta finnst mér ótrúlega spennandi ís! Sennilega er samt fjölskyldan ekki sammála. Kveðja, Þorbjörg
[…] bara aðeins meira sérrí útá ísinn, þá var þetta fullkomið! Uppskriftin er komin frá meistara Nönnu Rögnvaldar sem að kann augljóslega til verka í þessum […]