Á meðan aðrir horfa á fótbolta …

Þið eruð ábyggilega flest að horfa á þennan landsleik. Ekki ég samt, ég hef sko ekkert á móti fótbolta, mér finnst bara ekki gaman að honum og tekst bara ómögulega að hafa minnsta áhuga. Einu sinni kom fyrir að ég horfði með öðru auganu á leik í sjónvarpinu ef voru sætir strákar með löguleg læri í öðruhvoru liðinu en svo síkkuðu fótboltastuttbuxurnar og lærin hurfu og svo er ég núna eiginlega orðin of gömul til að slíkt höfði til mín, gæti næstum verið amma sumra þessara drengja – eða líklega gæti ég alveg verið amma þessara yngstu. Eldra barnabarnið mitt verður jú tvítugt eftir tæpar tvær vikur … (Ef ég væri 56 ára kall og segði eitthvað um lærin á fótboltastelpum væri ég gamall perri. En ég er kona svo það er allt í lagi og bara djók og enginn sérstakur perraskapur. Skrítið.)

Það náttúrlega les þetta ekki nokkur maður fyrr en leikurinn er búinn og þá er fólk nú ekkert að fara að baka sér með kvöldkaffinu. Enda eru lummurnar sem ég ætla að skrifa um hérna aðallega morgunverðarlummur og ég baka þær – eða aðrar svipaðar – stundum á helgarmorgnum. Eða jafnvel á virkum morgnum ef ég vakna óvenju snemma, þær eru fljótlegar og einfaldar.

Já, og svo eru þær ekkert voðalega óhollar heldur. Eða það fer náttúrlega eftir því á hvaða línu maður er, ég er alveg orðin ruguð í þessu en þær eru sykurlausar en ekki kolvetnasnauðar eða glútenfríar.

IMG_4802

Ég átti tvo verulega svarta og vel þroskaða banana. Þeir þurfa náttúrlega ekki að vera alveg svona svartir (en það er best) en það þarf allavega að vera komið bananabragð af þeim. Ef maður á bara stinna, ljósgula og jafnvel pínulítið græna banana er alveg eins hægt að nota kartöflur (eða reyndar ekki, en þeir gera ekkert meira fyrir bragðið en kartöflur mundu gera). Þessir bananar voru ríflega meðalstórir, ef þeir eru litlir væri betra að nota þrjá í þennan skammt.

Svo vigtaði ég 100 g af hveiti og 100 g af hafragrjónum (haframjöli alltsvo, fyrir ykkur sem ekki ólust upp við hafragrjónaheitið) og blandaði 1 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af kanel og ögn af salti saman við í skál. Og svo tók ég til svona 50 g af smjöri. Ég notaði líka eitt stórt egg en gleymdi að hafa það með á myndinni.

IMG_4804

Ég flysjaði bananana, setti þá í míní-matvinnsluvélina eða kvörnina sem er með töfrastafnum – fannst ekki taka því að nota matvinnsluvélina – og maukaði þá.

IMG_4807

Ég setti hveiti- og hafragrjónablönduna út í skálina og síðan eggið og hrærði þetta snöggt saman – það er best að hræra ekki meira en þarf til að blanda þessu saman.

IMG_4811

Ég bræddi svo smjörið á pönnu, hellti meirihlutanum af því saman við og hrærði lauslega en skildi svolítið bráðið smjör eftir á pönnunni til að steikja upp úr. Soppan á að vera þykk en ef hún er of þykk má þynna hana með ögn af mjólk eða köldu vatni.

IMG_4815

Ég setti svo deigið á pönnuna með lítilli ausu. Gerði úr þessu fjórar stórar og þykkar lummur en hefði líka getað haft þær minni og heldur þynnri.

IMG_4817

Steikti þær við frekar vægan hita í svona 4-5 mínútur á annarri hliðinni, eða þangað til voru farnar að sjást lítil loftbólugöt ofan á þeim, eins og sést á myndinni. Þá sneri ég þeim og steikti í kannski svona 2 mínútur á hinni hliðinni (þynnri og minni lummur þurfa auðvitað heldur styttri tíma).

IMG_4832

Þykkar og svolítið grófar lummur með miklu bananabragði. Mjög fínar eins og þær koma fyrir, þarf ekkert ofan á þær eða með þeim, en það er til dæmis hægt að setja smjörklípu á heitar lummurnar og borða þær með hálfbráðnu smjöri …

IMG_4840

… en svo er líka hægt að láta það eftir sér að hella ögn af hlynsírópi yfir, það er nú ekki verra.

IMG_4841

Jú, mér finnst betra að hafa þær þykkar.

Bananalummur

2 vel þroskaðir bananar, frekar stórir

100 g hveiti

100 g hafragrjón

1 tsk lyftiduft

1/2 tsk kanell

salt á hnífsoddi

1 stórt egg

50 g smjör

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s