Nanna á jútjúb og marokkóskur kjúklingur

Það vita nú líklega flestir að ég sendi frá mér litla kjúklingamatreiðslubók fyrr í haust. Hún heitir Kjúklingaréttir Nönnu. Það er nú ekkert rosalega frumlegt, satt að segja, en hefur hins vegar þann kost að skýra nákvæmlega hvað er í bókinni, þið eruð allavega ekki að kaupa köttinn í sekknum, heldur kjúklinginn á pönnunni. Eða þannig. Ég meina, Maturinn hennar Nönnu eða Ljúfmeti með lítilli fyrirhöfn og allt slíkt eru fínir titlar en segja manni ekki mikið. Nema í fyrra tilvikinu að þetta er matur sem ég hef eldað og í hinu væntanlega að einhverjum þótti þetta gott og fannst lítið mál að elda það. En það er samt frekar óljóst.

Og til að það fari nú ekki framhjá neinum um hvað bókin er, þá eru myndir af sex kjúklingaréttum framan á kápunni. Engin af mér, enda er ég gamaldags og vil frekar hafa mynd af mat en sjálfri mér. Og er auk þess kona. Ég var að rifja upp í dag erlenda könnun þar sem kom fram að af ,,chef books“, þ.e. matreiðslubókum sem eru eftir tiltekinn höfund og nafn hans er hluti af markaðssetningunni (það er samt ekki (endilega) átt við bækur eftir atvinnukokka) voru árið 2012 58% með mynd af höfundi framan á kápu – ef hann var karlmaður; sambærileg tala fyrir bækur eftir konur var 26%.

Hjá Forlaginu koma út þrjár matreiðslubækur þetta haustið, mín og svo Fagur fiskur og LKL2 – Lágkolvetnalífsstíllinn. Þær eru báðar með höfundunum (körlum) framan á. Ég var um daginn að horfa á uppstillingu á þessum þremur bókum, mín var í miðjunni, og þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar verið var að hanna kápuna vildi hönnuðurinn (snillingurinn hún Alex) hafa svarta skuggamynd af hænu í staðinn fyrir svarta borðann sem er í miðjunni. Það hefði nú verið athyglisverð uppstilling, tveir karlar og ein hæna …

En í staðinn fyrir að vera á bókakápu er ég hér í kynningarmyndbandi, þar sem ég er að elda marokkóskan kjúklingarétt en samt aðallega að tala um bókina. Og þar sem þetta er ekki matreiðsluþáttur og uppskriftin er ekkert í þættinum, þá kemur hún hér á eftir.

Hmm, ég skal alveg játa að kjúklingurinn er aðeins of dökkur þarna – reynar ekki brunninn, það er kryddið sem lítur út fyrir að vera ögn brunnið en var það nú ekki, en myndatökumaðurinn átti í einhverjum vandræðum með þrífótinn og bað mig alltaf að bíða með að snúa kjúklingnum svo að hann var aðeins of lengi á þessari hliðinni – en svo þegar hann var búinn að malla undir loki um tíma hafði þetta nú allt jafnast út og hann var ekki líkt því svona dökkur. Samt ekki eins flottur og á myndinni í bókinni og þannig verður hann ef maður snýr honum þegar á að snúa honum en þarf ekki að bíða eftir myndatökumanninum.

(Þetta sama gerðist reyndar þegar ég var í upptökum fyrir kóreskan sjónvarpsþátt í vor, þeir þurftu svo mikið að mynda mig við að steikja hrossalundina sem ég var að elda að hún varð á endanum aðeins meira steikt en ég hefði viljað. Það er vandlifað.)

Þegar ég var að elda kjúklingaréttina og mynda þá í vor tók ég sjaldnast myndir af ferlinu eins og ég er annars vön að gera, bara af fullbúnum réttum. Þannig að hér eru engar slíkar myndir. Ég eldaði reyndar útfærslu af þessum rétti áðan fyrir mig og soninn en myndaði það ekki heldur.

Það sem til þarf (miðað við 4, en ég notaði reyndar bara 5 kjúklingalæri  núna því þannig eru þau oftast seld) voru 4 kjúklingalæri (án leggs), 2 msk olía, 1 tsk kanell, 1 tsk kummin, 1 tsk engifer (duft), 1/2 tsk paprikuduft, 1/2 tsk túrmerik, pipar og salt, 2 laukar, saxaðir, 2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt, 200 ml vatn, 80 g apríkósur, grófsaxaðar og 50 g heilar möndlur. Og ögn af vorlauk en hann er ekkert nauðsynlegur.

719_10151569914129810_157834183_n

Ég byrjaði á að þerra lærin og hitaði olíuna á pönnu. Blandaði öllu kryddinu saman og núði því vel inn í lærin. Svo setti ég þau á pönnuna með haminn niður og snöggbrúnaði þau; sneri þeim svo, lækkaði hitann og dreifði lauk og hvítlauk í kring. Lét þetta krauma í nokkrar mínútur, eða þar til laukurinn var farinn að mýkjast og verða glær, og hrærði oft í honum á meðan.

Síðan hellti ég vatni á pönnuna, bætti við apríkósum og möndlum, lagði lok yfir og lét malla við vægan hita í um hálftíma, eða þar til lærin voru meyr og elduð í gegn.

578626_10151569914239810_918330418_n

Ég hafði perlukúskús með þessu í vor og það var mjög gott en þegar ég eldaði réttinn núna áðan (auðvitað ekki eins og í bókinni, það geri ég nú aldrei, en hann var samt mjög svipaður, breytti aðallega krydduninni), þá hafði ég bara venjulegt kúskús með og notaði heldur meira vatn því að ég vildi hafa þunna kryddsósu eða soð til að ausa yfir kúskúsið. Það var alveg hreint ágætt líka.

Apríkósu- og möndlukjúklingur

8 kjúklingalæri

2 msk olía

1 tsk kanell

1 tsk kummin

1 tsk engifer

½ tsk paprikuduft

½ tsk túrmerik

pipar

salt

2 laukar, saxaðir

2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

200 ml vatn

80 g apríkósur, grófsaxaðar

50 g heilar möndlur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s