Súpa sem lífgar upp á skammdegið

Á svona kuldakreistingsdegi er alveg tilvalið að gæða sér á heitri súpu. Það gerði ég reyndar ekki – ég eldaði alveg hreint ágæta löngu í tómat-ólífusósu handa mér og grasekklinum syni mínum en þar sem það var þegar eiginlega orðið dimmt þegar ég kom heim tók ég engar myndir af þeirri eldamennsku.

Aftur á móti hafði ég myndað þessa ágætu súpu sem ég eldaði í haust og var í MAN (2. tbl.) og þess vegna kemur hún hér. Þetta er súpa sem getur vel náð hrollinum úr manni, ég tala nú ekki um ef maður er ekkert að spara chili-ið svo að hún rífur vel í. Svo er hún líka svo litrík að hún lífgar sannarlega upp á skammdegið.

Butternutkúrbítur er grænmeti sem fór fyrst að sjást að ráði fyrir örfáum árum. Ég sé að margir kalla hann grasker (butternutgrasker eða jafnvel bara grasker) en það er hann nú ekki, þetta er vetrarkúrbítur, að vísu skyldur graskeri en kallið þið hann að minnsta kosti endilega butternutgrasker ef þið viljið frekar kenna hann við það því grasker er öðruvísi og óþarfi að rugla því saman.

Meiningin var annars, þegar kúrbítsnafnið kom fyrst fram á sjónarsviðið á níunda áratugnum, að það næði yfir alla cucurbita-fjölskylduna, sem þá var rétt aðeins að byrja að sjást eitthvað af í búðum. Það var þó nær eingöngu litli kúrbíturinn zucchini eða courgette, sem átti að heita dvergbítur samkvæmt einhverjum tillögum eða ákvörðunum. En þar sem þetta var nú eini kúrbíturinn sem sást varð ruglingur og hann yfirtók kúrbítsnafnið alveg. Sem hefur valdið ýmiss konar vandræðum síðan.

Kúrbítafjölskyldan skiptist semsagt í sumarkúrbíta, sem eru mjúkir (eins og kúrbítur) og vetrarkúrbíta, sem eru harðir. Butternut er grjótharður þegar hann er hrár en verður mjúkur, meyr og sætur þegar hann er soðinn, steiktur eða bakaður.  Eftir því sem hann þroskast meira verður aldinkjötið gulara og sætara á bragðið. Mér finnst yfirleitt best að skera hann í bita og baka í ofni, hvort sem ég ætla svo að bera hann fram þannig sem meðlæti, gera stöppu úr honum eða nota hann í súpu eins og hér. En það má reyndar líka alveg sjóða hann, mér finnst bara bragðið verða betra svona.

Svo að ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 180°C.

IMG_8271

Ég notaði í súpuna hálfan butternutkúrbít (um 500 g), 1 lauk, 2 hvítlauksgeira, 2 vorlauka, 1 chilialdin, 1 msk af smjöri, 2 msk af ólífuolíu, pipar, salt, 1 1/2 tsk af kummini og um 750 ml af vatni.

IMG_8274

Ég skóf fræin úr butternutkúrbítnum með skeið, flysjaði hann með flysjunarjárni og skar hann svo í bita, ekkert sérlega stóra. Setti þá í eldfast mót ásamt salti, pipar og olíunni, hrærði í, setti þetta í ofninn og bakaði í um 35 mínútur, eða þar til butternutkúrbíturinn var meyr. Hrærði einu sinni eða tvisvar á meðan hann var að bakast.

IMG_8276

Á meðan skar ég laukinn í bita og saxaði vorlaukinn, hvítlaukinn og chili-ið frekar smátt (fræhreinsaði það). – Þetta chili var hálfþurrkað, hafði nú bara orðið þannig í grænmetisbakka á eldhúsbekknum hjá mér, en það má auðvitað alveg eins vera ferskt.

IMG_8288

Ég bræddi svo smjörið í potti og setti lauk, hvítlauk, vorlauk og chili út í. Ég skildi eftir svolítið af grænu blöðunum af vorlauknum og ætlaði að skilja dálítið af chili-inu eftir líka en gleymdi mér og setti allt saman út í … Hrærði kummini, pipar og dálitlu salti saman við og lét krauma við vægan hita í um 15 mínútur.

IMG_8292

 

Bætti þá vatni og grænmetiskrafti í pottinn og hitaði að suðu. Athugaði svo butternutkúrbítinn, sem var einmitt orðinn vel meyr og mjúkur en lítið farinn að brúnast, og tók hann út.

IMG_8304

 

Setti hann svo út í súpuna …

IMG_2710

… og maukaði hana með töfrasprota. Það má líka hella henni í matvinnsluvél og mauka hana, e.t..v í 2-3 skömmtum.

IMG_2771

Svo stráði ég grænu, söxuðu vorlauksblöðunum sem eftir voru yfir en af því að ég hafði sett allt chili-ið út í varð ég að taka smábita af öðru chillialdini, saxa smátt og nota hann. Súpan varð bara ögn meira krassandi fyrir vikið, hún mátti það alveg …

Þetta er nokkuð þykk súpa. Auðvitað má alveg hafa hana dálítið þynnri og bæta þá bara við ögn af vatni og grænmetissoði.

 

Butternutsúpa með chili 

um 500 g butternutkúrbítur

pipar

salt

2 msk olía

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

2 vorlaukar

1 chilialdin, eða eftir smekk

1 msk smjör

1½ tsk kummin (cumin)

750 ml vatn

1 msk grænmetiskraftur

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s