Ég var svolítið efins um hvort ég ætti að vera að setja inn kökuuppskrift núna, fannst að ég væri búin að vera með svo mikið af þeim að undanförnu en þegar ég leit á forsíðuna á blogginu voru þar bara tvær kökumyndir af tíu. Reyndar sýndist mér vera bara ágætis jafnvægi í þessu, tvær kökur (sykurlaus og með sykri), ein brauðuppskrift, tveir kjúklingaréttir, tveir fiskréttir, einn kjötréttur og tveir grænmetisréttir. Sem er held ég bara nokkuð í takt við eldamennskuna hjá mér. Eða nei, líklega væri samt eðlilegra að það væru tveir kjötréttir og einn grænmetisréttur.
En allavega ætti mér að vera óhætt að setja þessa köku, sem er nú samt eiginlega ekki kaka, mundi frekar flokkast sem eftirréttur, heldu ég. Allavega er þetta óbökuð kaka – ég vil alls ekki kalla hana hráköku því það finnst mér bæði ljótt og asnalegt. Hrákaka – ég sé aldrei nema hráka út úr því. Þessi er óbökuð, punktur og basta.
Hún er náttúrlega líka glútenlaus, ef þið eruð í þeim pælingum, og sykurlaus – þannig séð. Það eru döðlur í henni og þær eru náttúrlega sykurríkustu ávextir sem til eru. En enginn viðbættur sykur eða sykurlíki. Fullt af hnetum og dóti.
Holl? Það verður hver að gera upp við sjálfan sig. En það er allavega böns af hitaeiningum í henni. Þetta er ekki kaka sem maður fær sér stóra sneið af, held ég. Svo mætti líka gera hana í ferköntuðu formi og skera svo í bita og hafa sem nammi.
Ég notaði palmín í hana. Flestir mundu kannski nota kókosolíu og það er auðvitað hægt líka en þá er best að bera kökuna fram nánast beint úr ísskápnum, hún yrði líklega fljót að verða of lin og mjúk við stofuhita (allavega hefur það gerst með svipaðar kökur hjá mér).
Fyrst gerði ég botninn og notaði í hann 75 g af pekanhnetum og 150 g af möndlum (með eða án hýðis, skiptir ekki máli). En það mætti í sjálfu sér vera ýmiss konar tegundir og samsetningar af hnetum og möndlum. 40 g af kakódufti, 30 g af smjöri og 50 g af kakósmjöri af því að ég átti það til, en það má alveg eins nota palmín eða kókosolíu, og 1/2 tsk af vanilluessens.
Ég setti möndlurnar og pekanhneturnar í matvinnsluvélina og malaði þær, ekki neitt rosalega fínt. Svo setti ég kakóduftið út í og þeytti því saman við.
Á meðan bræddi ég kakósmjör og smjör saman í potti við vægan hita, tók það um leið og það var bráðið, hrærðin vanillunni saman við og hellti þessu svo yfir hnetublönduna og hrærði saman í vélinni.
Ég hellti svo blöndunni í smelluform sem ég hafði penslað með ögn af olíu, dreifði fyrst úr henni með sleikju og notað svo fingurgómana til að slétta betur ur henni og jafna í formið. Setti það svo í frysti á meðan ég var að útbúa kremið.
Í kremið notaði ég semsagt 425 g af döðlum (mjúkum, með steini), 125 g af palmíni, 100 g af kakódufti, 1 tsk af vanilluessens og 1/2 tsk af salti (flögusalti, Saltverk). Eins og ég sagði áður má vitaskuld nota kókosolíu í staðinn fyrir palmín.
Ég byrjaði á að taka steinana úr döðlunum og setja þær í matvinnsluvélina. Lét hana svo ganga þar til þær voru orðnar að mauki. Á meðan bræddi ég palmínið.
Svo setti ég kakóduftið, vanilluna, saltið og brædda palmínið út í og lét vélina ganga þar til kremið var alveg slétt og fínt. Ef það er aðeins of gróft og þurrt má bræða ögn meira palmín og setja út í.
Ég sótti svo botninn í frystiskápinn, setti kremið á hann og sléttaði vel úr því með sleikju.
Ég stráði svona 2 msk af heslihnetuflögum (má líka nota t.d. möndluflögur) yfir og kældi svo kökuna vel í ísskáp – það má líka stinga henni smástund í frysti ef maður er að flýta sér.
Mér finnst þetta hæfileg þykkt á kökunn en það má líka nota minna form og þá verða bæði botninn og kremið þykkari.
Við borðuðum kökuna sem eftirrétt í kvöld (nema sá sem ekki vill döðlur). Alveg ágæt með kaffinu. En svo mætti líka hafa t.d. þeyttan rjóma með.
Óbökuð súkkulaðidöðlukaka
150 g möndlur
75 g pekanhnetur (eða t.d. valhnetur)
40 g kakóduft
50 g kakósmjör eða kókosfeiti (palmín eða kókosolía)
30 g smjör (reyndar má örugglega nota eintóma kókosfeiti)
1/2 tsk vanilluessens
Krem:
425 g döðlur
100 g kakóduft
125 g palmín (eða kókosolía)
1 tsk vanilluessens
1/2 tsk flögusalt
Ofan á:
2 msk heslihnetu- eða möndluflögur
Ég prófa þessa örugglega við tækifæri! Aldrei of margar kökuuppskriftir, og flott að hafa bæði sætar og ósætar. Rétt í þessu er ég að borða alveg sykurlausar múffur (en með rúsínum, eplum og banana) en heima á ég eina sæta og franska 😉 Gott jafnvægi bara! Kv. Laufey
[…] Galdra-Gudda hjálpaði Helgu líka (já, þær eru líka vinkonur og ekkert mjög afbrýðisamar hvor út í aðra) að búa til síðbúna en óvænta og mjög gómsæta afmælisköku handa mér í dag (uppskrift frá Nönnu): […]