Rúlluterta fyrir löngu síðan …

Ég er nú ekkert alveg komin yfir í sykurlausa bakkelsið, neinei, en reyndar var ég að átta mig á því áðan að ég hef líklega ekki notað eitt korn af hvítum sykri í þrjár vikur. Og ég veit það vegna þess að fyrir þremur vikum rakst ég í Góða hirðinum á grind til að hengja á vegg, með krukkum fyrir kaffi, te og sykur, og keypti hana. Ég er meira að segja búin að draga fram mína ágætu borvél og bora í vegg og festa hana upp alveg sjálf og hún er meira að segja ekki skökk því ég notaði hallamálið mitt (sem reyndar er venjulega kallað vaturpassinn) og er voða montin af hvað þetta tókst nú vel hjá mér. Og hvað ég er vel birg af verkfærum. Maður verður nú að geta bjargað sér.

En þarna er ég nú komin langt út fyrir efnið og það sem ég ætlaði að segja var að svo setti ég kaffið mitt í kaffikrukkuna og teið í tekrukkuna og sykurinn í sykurkrukkuna og lokið á. Og það hefur ekki verið tekið af sykurkrukkunni síðan, svo þannig veit ég að ég hef ekki notað neinn hvítan sykur. Reyndar ekki flórsykur eða hrásykur eða púðursykur heldur. En smávegis af hunangi og hlynsírópi samt. Þetta er samt ekkkert sykurbindindi sko, ég mun nota sykur þegar ég sé ástæðu til …

Það er hvítur sykur í rúllutertunni sem hér er uppskrift að en hún var reyndar bökuð og mynduð og borðuð í ágúst – ég gerði hana fyrir MAN og uppskriftin birtist í fyrsta tölublaðinu. Það er nú einu sinni þannig að þegar maður gerir efni fyrir tímarit er verið að vinna dálítið fyrir tímann (ég er núna að gera uppskriftir fyrir jólablaðið) og þessi rúlluterta var gerð með það í huga að blaðið kom út á miðjum berjatíma og þarna væri upplagt að nota íslensk bláber. Ég fékk hins vegar engin þegar ég var að mynda tertuna og notaði amerísk. Og nú er berjatíminn löngu búinn en það er enn hægt að nota amerísk ber. Eða til dæmis hindber eða söxuð jarðarber.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C – það er mikilvægt að hann sé orðinn alveg heitur þegar tertubotninn er settur inn í hann. Klæddi svo bökunarplötu með bökunarpappír og braut upp á brúnirnar svo deigið rynni ekki út af. Það má líka nota rúllutertuform.

IMG_8997

Ég notaði semsagt hvítan sykur (það mætti nota hrásykur en hann er ekkert hollari), 125 g, og þrjú egg. Braut eggin í hrærivélarskál …

IMG_8999

… (það er svo langt síðan að þetta er gamla hrærivélin mín, nýja Bosch-vélin er nú óneitanlega flottari), þeytti þetta mjög mjög vel og þeytti svo 1 tsk af vanilluessens saman við.

IMG_9003

Ég vigtaði svo 80 g af hveiti, 40 g af kartöflumjöli og 1/2 tsk af lyftidufti, sigtaði þetta yfir eggjablönduna í skálinni og blandaði því gætilega saman við með sleikju. Það má nota hveiti eingöngu en tertan verður léttari og fínni ef notað er kartöflumjöl að hluta.

IMG_9004

Ég hellti svo deiginu á pappírsklæddu plötuna og dreifði vel úr því með sleikju, svo að það þakti örkina alveg og út í horn.

IMG_9012

Ég hafði passað upp á að blanda ekki mjölinu saman við deigið fyrr en ofninn var fullheitur og það má ekki bíða svo að ég setti botninn strax í ofninn á næstefstu rim og bakaði hann í um 8 mínútur, eða þar til hann var ljósgullinn og svampkenndur.

IMG_9015

Þá tók ég botninn út, hvolfdi honum á hreint viskastykki (má líka vera önnur bökunarpappírsörk, fletti örkinni sem hann var bakaður á af honum og rúllaði honum svo upp með viskastykkinu og lét hann kólna alveg.

IMG_9020

Á meðan rúllutertubotninn var að kólna gerði ég kremið: Setti 200 g af rjómaosti, 100 g af flórsykri og 1 tsk af vanilluessens í skál og hrærði vel saman. Þeytti 125 ml af rjóma í annarri skál og blandaði 4 msk af Royal vanillubúðingsdufti saman við hann þegar hann var nærri fullþeyttur (ég nota oft vanillubúðingsduft til að gera krem og fleira stífara en það yrði ella).

IMG_9021

Ég blandaði svo ostakremi nuog rjómanum saman og smurði blöndunni á  botninn, ekki alveg út á brúnir. Dreifði svona 300 g af bláberjum yfir og rúllaði botninum svo upp frá annarri langhliðinni. Lét samskeytin snúa niður, setti rúllutertuna á fat og kældi hana vel.

IMG_9070

Já, þetta er greinilega ekki alveg ný mynd, tekin í sól úti á svölum …

IMG_9089

… en tertan er góð, hver sem árstíðin er.

Rúlluterta með ostakremi og bláberjum

Botn:

3 egg

125 g sykur

1 tsk vanilluessens

80 g hveiti

40 g kartöflumjöl

½ tsk lyftiduft

Fylling:

200 g rjómaostur, mjúkur

100 g flórsykur

1 tsk vanilluessens

250 ml rjómi

4 msk Royal vanillubúðingsduft

300 g bláber

4 comments

  1. Nú held ég að ég verði að hætta mér í rúllutertugerð. Hef hingað til talið það of hættulega og stressandi iðju og sé fyrir mér kökubotn í brotum út um allt eldhús. En þetta er það girnilegt að það er sennilega áhættunnar virði..

    • Endilega.Þetta er nú ekkert flókið, bara fylgjast vel með botninum á meðan hann bakast og rúlla honum svo upp á meðan hann er heitur.

      Í fyrsta skipti sem ég bakaði rúllutertu (ég var þrettán eða fjórtán ára) varð botninn of þunnur og harður og brann aðens á jöðrunum og ég reddaði mér með því að skera brunnu bitana af, skera hitt í bita og raða í lög í formi með þeyttum rjóma og ávöxtum á milli – það var allavega borðað …

  2. Jú, þú getur alveg sleppt því og notað bara aðeins meira hveiti í staðinn. Botninn verður bara aðeins léttari og betri ef það er notað en það er ekki nauðsynlegt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s