Vetrarbleikja

Það er orðið ansi vetrarlegt, líka hér syðra þótt snjóinn vanti  – nema í Esjunni – og matargerðin tekur töluvert mið af því.  Kannski lægi beinast við að elda matarmiklar súpur og pottrétti og eitthvað slíkt – já, og risotto, nú verð ég bráðum að elda risotto. En ég eldaði stóra steik á laugardaginn og afgangapottrétt í gær og var í skapi fyrir eitthvað allt annað.

Annars er ég í jólahugleiðingum þessa dagana. Nei, ég er ekkert byrjuð að undirbúa mín eigin jól og það verður nú ekki strax (ég er manneskja af því tagi sem á það til að ákveða jólamatseðilinn að hluta eftir hádegi á aðfangadag) en ég hef tekið að mér einhver jólatengd verkefni og núna er tíminn til að vinna þau, meira og minna. Svo ég er að fara í og úr jólaskapi á víxl. En nei, í kvöld var ég ekki í skapi til að elda jólamat heldur …

Hinsvegar átti ég tvö bleikjufkök sem ég þurfti að gera eitthvað úr. Og þótt fátt sé í rauninni sumarlegra en silungur með frísklegu salati eða einhverju slíku, þá getur hann verið býsna vel viðeigandi á veturna líka.

Ég var reyndar ekki alveg klár á hvað ég ætlaði að gera þegar ég byrjaði á matseldinni en var þó búin að ákveða að nota heilar möndlur sem ég átti og hafa dálítið hunang í réttinum, hann verður því svolítið sætur – eða súrsætur öllu heldur. Kannski ekki fyrir alla en mér þótti þetta að minnsta kosti býsna gott.

IMG_5874

 

Ég byrjaði á að setja upp kartöflur og svo náði ég í bleikjuna – þetta voru tvö flök, um 340 g – 75 g af möndlum og 2 msk af þunnu hunangi. Svo átti ég rósmaríngrein og tvo litla hvítlauksgeira, hvorttveggja gerir nú flesta hluti betri. Ég tók líka til 2 1/2 msk af smjöri, pipar og salt. Ég notaði svo fleira en var semsagt ekki búin að ákveða það þegar myndin var tekin.

IMG_5882

 

Ég tók míní-matvinnsluvélina (eða hakkarann, veit ekki alveg hvað á að kalla það, en afskaplega hentugt hjálpartæki allavega) og setti þriðjunginn af möndlunum (25 g) í skálina ásamt nálunum af rósmaríngreininni, hvítlauksgeirunum (skornum í bita), pipar og salti. Hakkaði þetta í grófa mylsnu og setti hana svo á disk og velti silungsflökunum upp úr henni og þrýsti henni vel inn í þau (þ.e. fiskhliðinni, það tollir minna við roðhliðina).

IMG_5884

 

Ég bræddi helminginn af smjörinu á pönnu og setti svo flökin á hana með roðhliðina upp og steikti þau við meðalhita í um 2 mínútur.

IMG_5892

Sneri þeim þá gætilega (notaði pönnukökuspaða) og steikti í 5-6 mínútur í viðbót, eða þar til bleikjan var rétt steikt í gegn.

IMG_5888

 

Á meðan bræddi ég afganginn af smjörinu á lítilli pönnu, setti afganginn af möndlunum (50 g) á hana og steikti þær í 2-3 mínútur. Þá hellti ég hunanginu yfir og hrærði vel.

IMG_5890

 

Þegar þetta var svolítið farið að brúnast var ég búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera svo ég hellti 100 ml af hvítvíni og 1 tsk af sojasósu á pönnuna, hrærði vel og lét sjóða í nokkrar mínútur, þar til lögurinn hafði þykknað dálítið. Smakkaði, kryddaði með aðeins meiri pipar og tók svo af hitanum. – Ef maður á ekki hvítvín má líka nota vatn og dálítinn sítrónusafa, til dæmis.

IMG_5902

 

Ég hellti möndlunum og sósunni yfir bleikjuflökin og bar þau fram á pönnunni. – Þetta er nú svolítið hlýlegt, er það ekki? og passar vel á köldum vetrardegi.

IMG_5923

 

Ég hafði kartöflur og klettasalat með þessu, það var alveg ágætt.

 

Bleikja með hunangsmöndlum

2 bleikjuflök

75 g heilar möndlur

1 rósmaríngrein

1-2 hvítlauksgeirar

pipar

salt

2 1/2 msk smjör

2 msk þunnt hunang

100 ml hvítvín (eða vatn og sítrónusafi)

1 tsk sojasósa

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s