Ég hef nú áður sett hér þónokkrar flatbrauðsuppskriftir af ýmsu tagi, þó aldrei hefðbundnar íslenskar rúgmjölsflatkökur. Þetta eru ekki þær heldur en þó dálítið í áttina … Um helgar langar mig stundum í nýbakað brauð með morgunkaffinu (eða morgunteinu reyndar, ég er á tetímabili núna, það kemur í bylgjum) og ef ég á deig í ísskápnum er það auðleyst.
En ég á ekki alltaf til deig. Og frekar en fara út í bakarí baka ég eitthvað fljótlegt. Stundum enda ég í lummum eða vöfflum eða skonsum af einhverju tagi, eins og þessum hér, en stundum langar mig meira í brauð og þá er flatbrauð langfljótlegast. Og núna vildi svo til að ég á rifinn rúgmjölspoka sem ég er að reyna að nota sem fyrst, áður en hann stráir úr sér rúgmjöli yfir allan skápinn. (Ókei, það væri gáfulegt að setja bara allt rúgmjölið úr rifna pokanum í krukku. En ég er ekki alltaf gefin fyrir einföldu lausnirnar.)
Þannig að ég bakaði mér rúgmjölsflatbrauð í morgun. Eða það átti að vera rúgmjöls- og heilhveitiflatbrauð en ég var búin að gleyma að heilhveitið var búið. Aftur á móti átti ég hveitiklíð svo ég notaði venjulegt hveiti blandað hveitiklíði – það kemur næstum því í sama stað niður. Næstum því.
Og svo kryddaði ég brauðið með fersku rósmaríni af því að ég átti það en það má alveg sleppa því. Ég notaði hvorki ger né lyftiduft í brauðið. Þetta flatbrauð verður ekki svart og brunnið eins og venjulegt flatbrauð, meðal annars vegna þess að það er sykurlaust.
Ég byrjaði á að taka nálarnar af tveimur rósmaríngreinum og saxa þær frekar smátt. Ef ekki er til ferskt rósmarín mundi ég bara sleppa því, eða kannski nota aðrar kryddjurtir. Ekki þurrkað rósmarín, það virkar ekki í svona. – En það var nú ekkert voðalega mikið rósmarínbragð af brauðinu svo ég mundi ekki fara að kaupa rósmarín spes fyrir þetta.
Svo setti ég 125 g rúgmjöl, 125 g hveiti, 50 g hveitiklíð og 1/2 tsk salt í hrærivélarskál, stráði rósmaríninu yfir og blandaði saman. Það er ekkert bráðnauðsynlegt að nota hrærivél en er óneitanlega þægilegra.
Svo hellti ég svona 200 ml af sjóðandi vatni yfir og hrærði vel saman. Það er mjög misjafnt hvað mjöl tekur mikið í sig af vökva og því getur verið að deigið verði annaðhvort of þykkt og þurrt (og þá bætir maður við aðeins meira vatni) eða of blautt og klesst (og þá er bara bætt við meira mjöli).
En það á að vera sirkabát svona, það er að segja frekar þétt og loða vel saman, virka pínulítið rakt frekar en þurrt en á þó ekki að klessast neitt við hendurnar þegar maður tekur smábút af því og hnoðar hann í kúlu.
Ég tók svo deigið úr skálinni og hnoðaði það saman. Náði í kökukefli og marmaraplötuna sem ég nota yfirleitt til að fletja út á, setti rúgmjöl í sáldurkrukkuna og stráði dálitlu yfir plötuna.
Ég skipti deiginu í sex jafna hluta, hnoðaði hvern um sig í kúlu og flatti þær dálítið út á milli lófanna.
Flatti svo deigið þunnt út í hring og sneri því nokkrum sinnum á meðan til að það yrði sem jafnast. Þetta var býsna meðfærilegt deig og auðvelt að fletja það út í reglulegan hring – þeir verða nú ekki alltaf svona jafnir hjá mér. En ef kökurnar eru óþægilega lítið hringlaga má líka leggja disk ofan á þær og skera út flotta hringi …
Ég hitaði svo pönnu (steypujárnspönnu, en það má nota hvaða þykkbotna pönnu sem er), pikkaði flatkökurnar með gaffli og bakaði þær við nokkuð góðan hita – tja, þangað til þær voru bakaðar – það tók svona 2 1/2 mínútu fyrir hverja köku en getur verið misjafnt eftir hitastigi og fleiru. Þangað til þær voru eins og þessi á myndinni semsagt.
Það er í sjálfu sér nóg að snúa kökunum einu sinni en ég sný þeim alltaf nokkrum sinnum á meðan þær bakast, finnst baksturinn verða jafnari þannig, og ef loftbólur myndast pressa ég ofan á þær með spaða. Stóri spaðinn minn, sem sést á myndinni, er afar hentugur í svona en hreint ekki nauðsynlegur, pönnukökuspaði eða steikarspaði dugir alveg.
Það þarf ekkert að baka allar flatkökurnar í einu, það má annaðhvort geyma hluta af deiginu pakkaðan í plastfilmu í kæli í einhverja daga eða geyma útflattar kökur (með bökunarpappír eða plastfilmu á milli og pakkað í plast) og þá geta þær farið beint á pönnuna. En ég bakaði nú allar kökurnar sex og staflaði þeim upp.
Og svo var það bara volgt flatbrauð með hálfbráðnu smjöri, klettasalati, chorizopylsu og sterkum enskum cheddarosti og bolli af Darjeeling FTGFOP með. Aldeilis ekki slæmt á þessum fallega morgni.
Rúgflatbrauð
125 g rúgmjöl
125 g hveiti
50 g hveitiklíð
1/2 tsk salt
nálar af 2 rósmaríngreinum (má sleppa)
um 200 ml sjóðandi vatn